Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR


Ég var í viðtali við Vísi í vikunni, um stöðu erlends starfsfólks á Íslandi og hvað væri hægt að gera til að stuðla að inngildandi vinnumarkaði. Í fjölbreyttu samfélagi er auðvitað að mörgu að hyggja, uppruni skiptir miklu máli og hann blandast oft annars konar jaðarsetningu, t.d. vegna kyns, húðlitar og/eða trúarbragða.


ÞVERSAGNARKENND UMRÆÐA


Umræðan á Íslandi í dag litast mjög af þversagnarkenndum viðhorfum. Það er nokkuð óumdeilt að samfélagið þurfi á erlendu starfsfólki að halda, en á sama tíma er alið á ótta við að innviðirnir séu að springa, að tungumálið sé að deyja út og að jafnvel að erlend glæpasamtök ógni landi og þjóð. Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að laða erlent starfsfólk til landsins, en alls ekki í hvaða störf sem er og enn síður frá hvaða landi sem er.

Íslenskur vinnumarkaður endurspeglar þessar þversagnir ágætlega. Þó erlent verkafólk sé burðarás margra fyrirtækja er stjórnun og stefnumótun að jafnaði í höndum Íslendinga. Þetta er raunveruleiki sem við þurfum að takast á við og reyna að breyta.
 

INNGILDANDI VINNUMARKAÐUR


Vinnumarkaðurinn ber þess enn merki að hafa samanstaðið af hvítum, íslenskum, ófötluðum, gagnkynhneigðum, cis körlum langt frameftir síðustu öld. Viðmið, gildi, ferlar og venjur miða enn að þörfum þeirra, reynslu, viðhorfum og væntingum að meira leyti en við gerum okkur grein fyrir. Við höfum tekið nokkuð mörg skref í að aðlaga vinnumarkaðinn að aukinni atvinnuþátttöku kvenna, en það er lengra í land þegar kemur að öðrum jaðarsettum hópum, s.s. fólki af erlendum uppruna.

Ef við einangrum uppruna sem áhrifabreytu á vinnumarkaði, sem er mikil einföldun út af fyrir sig, þá væri enn meiri einföldun að telja íslenskukennslu einu leiðina að vellíðan og tækifærum fólks. Íslenskukunnátta skiptir vissulega máli, og að sjálfsögðu eiga vinnustaðir að styðja og styrkja starfsfólk til að læra íslensku en það þarf miklu fleira til.


VIÐFANGSEFNI SAMTÍMANS


Hlutverk mannauðsfólks er að stuðla að vellíðan starfsfólks af öllum kynjum, með allskonar húðlit, tungumálakunnáttu, líkamsgerð, kynhneigð, kyntjáningu, viðhorf, væntingar og þrár. Vinnan þeirra felst í að aðlaga vinnumarkaðinn að samtímanum, að útvíkka viðmiðin, endurskilgreina gildin, aðlaga ferlana og breyta venjunum.

Í dag eru framsýnir vinnustaðir að útvíkka jafnréttisstefnur sínar með tilliti til flækjustiga valdakerfisins. Áherslan er ekki lengur bara lögð á að auka fjölbreytileika, heldur hvernig öllu þessu ólíka fólki getur liðið vel, hvernig það getur lagt sitt af mörkum og notið sömu tækifæra. Til viðbótar við íslenskukennslu þarf þar að takast á við meðvitaða og ómeðvitaða hlutdrægni alls starfsfólks, fræða fólk um öráreiti og áhrif þeirra, leggja áherslu á menningarnæmi og skilning á áhrifum forréttinda og hindrana og stuðla að uppbyggilegu samtali um viðhorf, reynslu og væntingar.


VERUM SANNGJÖRN


Útlendingar sprengja ekki innviði, þeir drepa ekki tungumál og þeir eru ekki forsenda glæpa. Innviðunum er að stórum hluta haldið uppi af erlendu starfsfólki, íslenskan lifir það mætavel af þó við grípum í önnur tungumál líka og íslenskir glæpamenn ógna ekki síður landi og þjóð en þeir erlendu.

Samfélagið okkar er fjölbreytt og við þurfum að hjálpast að við að stuðla að virkni, vellíðan og jöfnum tækifærum. Við þurfum öll að taka þátt í vinnu mannauðsfólksins, að vera til í að skoða okkar eigin viðhorf, gildi og venjur og taka þátt í að afmá hindranir sem fólk af erlendu bergi brotið mætir í íslensku samfélagi.

Bestu kveðjur,

Sóley
 

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 01 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: KYNBUNDINN LAUNAMUNUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: