Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


SPURNING VIKUNNAR


Sagan segir að einhvern tímann hafi spurning á heimspekiprófi verið „Er þetta spurning?“ og að einn nemandi hafi skarað frammúr með því að svara „Ef þetta er spurning, þá er þetta svar.“ Skemmtileg flökkusaga, sérstaklega fyrir okkur sem kunnum lítið í heimspeki og skiljum ekki hvort eða hvernig þetta skiptir máli.


Í vikunni heyrði ég um heimapróf í lok námskeiðs á meistarastigi í háskóla. Þar var bara ein spurning:

„Ræðið það sem þið hafið lært í þessu námskeiði. Hvað vakti athygli ykkar og áhuga og hvað munið þið taka með ykkur áfram í líf og störf hvort sem það er innan akademíunnar, í aktívisma, í starfi eða daglegu lífi. Umræða ykkar þarf að vera vel grunduð í fræðunum. Efnið er mjög opið en á sama tíma er það dýrmætt tækifæri fyrir ykkur til að kafa í það sem skiptir ykkur mestu máli.”

Þessi spurning býður ekki upp á hnyttin tilsvör, heldur er hún stórkostleg áskorun fyrir nemendur. Hún krefst þess ekki aðeins að nemendur hafi lært og skilið fræðin sem námskeiðið hefur upp á að bjóða, heldur að þau tileinki sér fræðin og skilji áhrif þeirra.
 

ÁHRIFIN


Ég er stundakennari við Radboud háskóla, held námskeið á eigin vegum og sinni margvíslegri fræðslu fyrir vinnustaði og félagasamtök. Í hvert einasta skipti velti ég fyrir mér hversu lengi námskeiðið eigi eftir að hafa áhrif á þátttakendur og hvort vinnan mín breyti einhverju til lengri tíma. Ég vil alls ekki verða að fjarvistarsönnun fyrir vinnustaði eða einstaklinga, að námskeiðin mín séu bara eitthvað sem fólk geti hakað við á verkefnalistanum og haldið svo áfram eins og venjulega.

Þess vegna reyni ég alltaf að fá fólk til að skuldbinda sig með einhverjum hætti í lok námskeiða. Fá þátttakendur til að ákveða hvernig þau geti breytt hegðun sinni, framkomu, ferlum, venjum eða aðstæðum. Kannski virkar það, kannski ekki.

 

FYRIRHUGAÐ RÁN


Héðan í frá mun ég ræna ofangreindri spurningu í hvert skipti sem færi gefst. Hún er í raun allt sem skiptir máli. Sama hvort fólk heldur áfram innan akademíunnar, vill breyta einhverju á vinnustaðnum sínum eða í eigin fari, þá er nauðsynlegt að geta nýtt rannsóknir og þýtt fræði yfir á daglegt líf. Staða okkar og sjónarhorn er alltaf samofið valdakerfinu og þeim mun meira sem við lærum um uppbyggingu þess og áhrif, þeim mun meiri áhrif getum við haft til góðs.

Eigi eitthvert ykkar eftir að taka hjá mér próf, þá verið viðbúin spurningunni að ofan. Og jafnvel þó þið séuð að læra eitthvað annað, hjá öðru fólki en mér – spyrjið ykkur spurningarinnar sjálf. Veltið fyrir ykkur hvernig þið getið nýtt allt sem þið lærið frá degi til dags til að stuðla að inngildingu í samfélaginu, í daglegum samskiptum ykkar, á vinnustaðnum, heimlilinu, í vinahópnum eða opinberri umræðu.

Bestu kveðjur,

Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
Eftir soleytomasdottir 01 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: KYNBUNDINN LAUNAMUNUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: