Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


HATURSORÐRÆÐA VIKUNNAR: STAÐSETNING OG SJÓNARHORN (POSITIONALITY)

Ég hef áður fjallað um mikilvægi þess að skilja eigin stöðu og áhrifin sem hún hefur á ákvarðanir okkar, hegðun og afstöðu í lífinu. Að við skiljum að jafnvel þótt við séum jaðarsett að einhverju leyti, þá búum við flest við margs konar forréttindi. Forréttindin okkar geta hamlað okkur í að skilja og virða stöðu annars fólks og þannig haft hamlandi áhrif á samkennd í samfélaginu og framþróun mannréttinda.


ÁHRIFIN


Samtökin 78 hafa sætt hræðilegum árásum að undanförnu að undirlagi lítils hóps fólks sem er raunverulega á móti ákveðnum hópum innan hinseginflórunnar. Sá litli hópur er vissulega skaðlegur, en að mínu mati ekki þess virði að reyna að rökræða við.

Ég tel orku minni betur varið í að reyna að stemma stigu við áhrifunum. Að höfða til fólks sem ekki tilheyrir flórunni, hefur svo sem ekkert á móti hinsegin fólki en verður óöruggt þegar Samtökin 78 eru bendluð við klám og barnaníð. Fólks sem finnst óþarfi að vera að ræða við börn um allskonar kynhneigðir og kynvitundir, krakkar finni bara út úr þessu þegar þau hafi aldur og þroska til ef þau tilheyra þessu mengi.

Svona hatursorðræða er nefnilega ekki bara skaðleg vegna þeirra beinu áhrifa sem hún hefur á fólkið sem hún beinist að (eins og það sé ekki nóg). Hún getur valdið upplýsingaóreiðu, aukið á fordóma, dregið úr skilningi, virðingu og samkennd.


VIÐBRÖGÐIN


Þetta mál hefur haft gríðarleg áhrif á flest fólk sem tilheyrir hinseginflórunni. Fólk sem fram til þessa hefur talið sig tiltölulega öruggt, fagnað áunnum réttindum og fundist allt vera á réttri leið, hefur lýst yfir ótta, vanmætti og vanlíðan. Fjöldi fólks hefur berskjaldað sig á samfélagsmiðlum til að útskýra eigin raunveruleika og mikilvægi hinseginfræðslu fyrir okkur forréttindafólkinu.

Sem betur fer er árásunum svarað fullum hálsi. Hjörtum og stuðningsyfirlýsingum rignir inn á ofangreindar færslur og forréttindafólk keppist við að fordæma hatursorðræðuna. Við þetta bættist svo sameiginleg
tímamótayfirlýsing frá ríkisstjórninni, sveitarfélögum, allskonar stofnunum og samtökum sem láta sig kynheilbrigði og hag barna varða, þar sem afdráttarlausum stuðningi var lýst yfir við allt það góða starf sem unnið hefur verið, m.a. af hálfu Samtakanna 78.


HVAÐ GETUM VIÐ GERT?


Við þurfum að halda áfram að leiðrétta. Það er ennþá fólk þarna úti sem hefur áhyggjur af því að Samtökin 78 séu að stunda einhvers konar „innrætingu“. Að það þurfi að „vernda“ börn fyrir upplýsingum sem þau hafi ekki þroska til að skilja og að best sé að láta foreldra bara um að tækla þessi mál. Það besta sem hægt er að gera er að biðja þetta fólk að skoða eigin staðsetningu og sjónarhorn.

Við sem föllum að hinu viðtekna þegar kemur að kynhneigð, kynvitund og kyntjáningu höfum aldrei þurft að spá í neitt af þessu, höfum aldrei komið út úr neinum skápum og aldrei þurft að leita samþykkis neins staðar. Við höfum alist upp með aragrúa fyrirmynda og upplýsinga og höfum aldrei þurft að efast um sjálfsmynd okkar, tilfinningar eða upplifanir. Við höfum aldrei mætt fordómum eða hatursorðræðu vegna þessara mála og skiljum ekki áhrifin sem slíkt hefur.

Við þurfum að læra. Við þurfum að hlusta, skilja, virða og standa með fólkinu sem veitir hinsegin fræðslu. Á vef 
Samtakanna 78 er mikið af hagnýtum upplýsingum, Hinsegin orðabók Áttavitans er mjög gagnleg og svo mæli ég mjög með unglingaþáttunum Heartstopper á Netflix, sem gefa mjög góða innsýn í veruleika hinsegin unglinga.

Bestu kveðjur til ykkar allra, en sérstakar baráttu- og kærleikskveðjur til þeirra sem hafa orðið fyrir barðinu á þessu öllu saman.

Sóley


Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: