Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

BAKSLAG VIKUNNAR: HEIMGREIÐSLUR

Það virðist vera eins konar tilvistarkreppa í gangi í samfélaginu þegar kemur að umönnun, uppeldi og menntun ungra barna. Þrátt fyrir sjálfsmynd þjóðarinnar sem jafnréttisparadísar með norrænt velferðarkerfi hefur bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla hefur ekki enn verið brúað sem hefur neikvæð áhrif á fjölskyldur með ung börn. Foreldrar eru milli steins og sleggju. Samfélagið gerir ráð fyrir framlagi þeirra á vinnumarkaði, afkoman byggir á fullri vinnu beggja foreldra og fjarvistir vegna barna skerða möguleika til starfsframa verulega.

Að undanförnu hafa heimgreiðslur verið nefndar sem lausn. Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram tillögu um 200 þúsund króna heimgreiðslur í borgarstjórn, Flokkur fólksins gerði slíkt hið sama og Margrét Pála Ólafsdóttir skrifaði grein um að 470 þúsund króna heimgreiðslur gætu verið liður í að tryggja rétt barna til að njóta besta mögulega atlætis.

GILDRA

Þær tillögur sem lagðar hafa verið fram gera ekki greinarmun á vilja og þörf. Fólk sem vill eða þarf á því að halda á að geta sótt um þessar greiðslur. Slík forréttindafirring er líkleg til að ýkja enn valdamisræmi þar sem kynja- og stéttaáhrif fléttast saman. Í samfélagi þar sem karlar njóta enn mests valds, virðingar og tekna er líklegt að konur, sér í lagi láglaunakonur, sjái hagræði í að fara heim með börnin og þiggja þær greiðslur sem bjóðast. Algerlega óháð vilja, áhuga eða færni.

Rannsóknir kynjafræðinnar sýna mjög sterk tengsl milli launamunar og ójafnrar ábyrgðar kynjanna inni á heimilum. Þeim mun meiri sem launamunur foreldra er, þeim mun meiri líkur eru á að ábyrgð á heimilishaldi, uppeldi og umönnun sé ójöfn. Heimgreiðslur myndu bara ýkja þessi tengsl – eins og reynslan hefur sýnt.

Meirihluti þeirra sem nýta sér heimgreiðslur í Noregi eru konur af erlendum uppruna með lága innkomu og lágt menntunarstig. Hagkvæmni heimgreiðslanna mun síður en svo leiða til þess að þær sæki sér menntun eða öðlist starfsframa, heldur eru þær bundnar heima, stöðu sinnar vegna.

RÉTTINDI

Leikskólar bjóða upp á faglega, trausta og örugga dagvistun til að tryggja réttindi barna og kvenna. Leikskólar í núverandi mynd byggja á hugmyndafræði Kvennaframboðs og Kvennalista sem höfðu það að markmiði að tryggja tækifæri kvenna til atvinnuþátttöku og viðurkenna mikilvægt framlag kvennastétta á borð við leikskólakennara sem eru oft betur til þess fallnir að annast börn á dagvinnutíma en foreldrarnir. Heimgreiðslur ógna hvoru tveggja.

Leikskólar eru jöfnunartæki fyrir börn þar sem fagmenntað fólk á að bjóða upp á gott, uppbyggilegt og þroskandi umhverfi fyrir þau á meðan foreldrarnir eru í vinnunni. Þeir eru jöfnunartæki fyrir kynjuð valdatengsl, þar sem þeir eru forsenda þess að konur geti tekið jafnvirkan þátt á vinnumarkaði og karlar. Og þeir eru efnahagslegt jöfnunartæki þar sem öll börn og allir foreldrar eiga að geta notið þeirra óháð stétt eða stöðu.

Í STAÐINN

Styrkjum sjálfsmynd okkar sem jafnréttisparadísar. Höldum áfram að byggja hana upp með því að tryggja sveigjanlegt fæðingarorlof og faglegt leikskólastarf fyrir öll börn um leið og því lýkur. Metum framlag kvennastéttanna sem sinna þessum störfum að verðleikum, tryggjum þeim öruggt og gott starfsumhverfi og höldum áfram að þróa faglegt leikskólastar fyrir öll börn. Styttum vinnuvikuna, hækkum laun láglaunafólks og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að öll börn hafi raunverulegt tækifæri til að alast upp í hamingjusömum fjölskyldum þar sem jafnvægi ríkir milli vinnu og einkalífs.

 
Bestu kveðjur,
Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: