Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


HUGLEIÐING VIKUNNAR: EKKI TRÚA BROTAÞOLUM!

Í vikunni las ég umfjöllun um meiðyrðamálssókn meints geranda gegn Eddu Sigurðardóttur og Sesselju Maríu Mortensen. Málsatvik eru þessi:



  • Árið 2018 kærði Edda mann fyrir nauðgun og varaði konur í lokuðum FB-hópi við honum.
  • Nokkru síðar ítrekaði Sesselja, sem þá var umsjónarkona sama hóps, viðvörunina og sagði að hann hefði nauðgað stelpu sem væri henni mjög kær. Stelpan er Edda.
  • Kæra Eddu var felld niður hjá lögreglu og maðurinn fór í meiðyrðamál við þær báðar. Héraðsdómur sýknaði báðar en meintur gerandi áfrýjaði til Landsréttar.
  • Landsréttur sýknaði Eddu en dæmdi Sesselju fyrir meiðyrði. Skv. dómnum mátti Edda greina frá eigin upplifun en Sesselja hafi hvorki verið að lýsa eigin upplifun né hafi hún sett neinn fyrirvara á frásögn sína. Þó Edda hafi verið sýknuð, var henni gert að greiða eigin málskostnað, þvert á almenna reglu um að fólk sem er sýknað í einkamálum þurfi ekki að greiða málskostnað.



EKKI SEGJAST TRÚA

Til að allrar sanngirni sé gætt, þá vil ég taka fram að ég upplifi að réttarkerfið hafi örlítið komið til móts við kröfur #metoo. Þetta er ekki fyrsti dómurinn sem virðir rétt brotaþola til að tala um eigin reynslu, jafnvel þótt mál hafi verið látin niður falla hjá lögreglu. Það er mjög gott og mikilvægt og til marks um jákvæða þróun.

Hins vegar er greinilega mjög langt í land. Dómurinn yfir Sesselju er í anda margra eldri sem gefa skýr skilaboð um að fólk megi aldrei segja opinberlega að það trúi brotaþolum. Hafi dómur ekki fallið fyrir kynferðisbrot, ber okkur sumsé að verja mannorð meints geranda umfram geðheilsu og vilja brotaþola.


FJÁRHAGSLEGT OFBELDI

Til viðbótar við þessi gamaldags og letjandi skilaboð, þá er stórundarlegt að Edda hafi verið dæmd til að greiða kostnaðinn við eigin vörn. Það gengur, eins og áður segir, þvert gegn þeirri almennu reglu að fólk sem er sýknað í einkamálum greiði ekki eigin málskostnað. Edda hefur fylgt öllum reglum í hvívetna og fengið það staðfest fyrir dómi, en þarf samt sem áður að greiða milljónir í málsvarnarlaun. Þannig skapar og viðheldur dómurinn tækifærum meintra gerenda til að beita brotaþola fjárhagslegu ofbeldi til viðbótar því sem áður hefur gengið á.


ÁFRAM VEGINN

Þó baráttan virðist stundum endalaus, þreytandi og niðurdrepandi, þá skulum við ekki gleyma árangrinum sem við höfum náð. Sterkir og hugrakkir brotaþolar hafa stuðlað að stórkostlegri hugarfarsbreytingu á undanförnum áratugum, við höfum séð breytingar á lögum, reglum og refsiramma og meira að segja hænuskref hjá dómstólum.

Það er engin ástæða til að gefast upp. Höldum áfram að tala, trúa, styðja, styrkja, kæra og verjast. Krefjumst úrbóta, fræðslu og breyttrar hegðunar og stöndum með brotaþolum með öllum tiltækum ráðum.

Að lokum vil ég minna á söfnun fyrir þær Eddu og Sesselju. Ef þið viljið leggja þeim lið, þá er hægt að leggja inn á reikning 115-15-630065, kt. 290185-2899. Eins er hér tækifæri til að minna á tilvist Málfrelsissjóðs, en hann var stofnaður til að styðja fjárhagslega við brotaþola og aktívista sem hafa orðið fyrir málsóknum af hálfu meintra gerenda. 
Hér er hægt að finna frekari upplýsingar um hann.
 
Bestu kveðjur,
Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: