FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA
Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
LEIÐARVÍSIR VIKUNNAR: PLAYBOOK VERTONET
Á miðvikudaginn hélt Vertonet, samtök kvenna og kvára í upplýsingatækni, útgáfuhóf fyrir Playbook, leiðarvísi að jafnrétti, fjölbreytileika og inngildingu á vinnustöðum. Leiðarvísirinn er ókeypis og galopið verkfæri, ætlað til að auðvelda vinnustöðum og stjórnendum í upplýsingatækni að stíga markviss skref í átt að jafnrétti, fjölbreytileika og inngildingu. Vonandi mun hann þó nýtast enn stærri hópi, helst öllu fólki sem hefur áhuga á málaflokknum - á öllum vinnustöðum.
INNIHALD
Leiðarvísirinn er vefsíða sem inniheldur rökstuðning fyrir vinnu í málaflokknum, sjálfspróf fyrir vinnustaði og einstaklinga og vegvísa um hvernig hægt er að auka fjölbreytileika, njóta fjölbreytileika og meta fjölbreytileika. Þar er einnig að finna hlekkjabanka sem inniheldur lista yfir lög, reglur og sáttmála, stofnanir, hagsmunasamtök, ráðgjafa og sérfræðinga, auk ábendinga um áhugavert efni, s.s. myndbönd, kvikmyndir, sjónvarpsþætti, greinar og bækur.
AÐ NÝTA PLAYBOOK
Playbook Vertonet á að vera lifandi síða í stöðugri þróun og á meðan ég skrifa hugleiðinguna dettur mér í hug að eiginlega þyrfti að bæta við leiðbeiningum um hvernig hægt er að nýta síðuna. Hver veit nema það bætist við fljótlega. Síðan er nefnilega fyrir okkur öll.
Fyrir stjórnendur og mannauðsfólk mæli ég með að halda starfsdag með öllu starfsfólki um leiðarvísinn. Hægt væri að hefja starfsdaginn á kynningu á af hverju málaflokkurinn skiptir máli og sameiginlegri yfirferð á vinnustaðarmatinu. Ræða hverja spurningu fyrir sig og ákveða í sameiningu hver næstu skref ættu að vera á vinnustaðnum í kjölfar niðurstaðna. Seinni hlutann væri svo hægt að nýta í að fara í gegnum vegvísana og ákveða hvort og þá hvernig leiðirnar sem þar koma fram verða nýttar. Auðvitað eru til fleiri leiðir fyrir stjórnendur og mannauðsfólk til að nýta síðuna, allt eftir aðstæðum á hverjum vinnustað fyrir sig.
Fyrir fólk sem langar til að breyta án þess að hafa til þess umboð er hægt að nýta efni leiðarvísisins til að sannfæra samstarfsfólk og hægt að velja sér einhver verkefnanna til að stinga uppá á vinnustaðnum.
Fyrir fólk sem kann lítið en langar að fræðast og skilja, mæli ég sérstaklega með hlekkjabankanum. Styttri myndbönd, sjónvarpsþættir, greinar og bækur sem útskýra allskonar fyrirbæri og hugtök sem tengjast málaflokknum. Hægt er að taka smá í einu, allt eftir aðstæðum og áhuga hvers og eins.
TAKK FYRIR MIG – OG OKKUR ÖLL
Ég fékk að koma að vinnunni við leiðarvísinn á lokastigum hans. Á undan mér hafði kjarnakonan Ásdís Eir Símonardóttir verið driffjöður verkefninsins, en við tvær unnum þó bara í umboði þeirra sem mestu máli skiptu, kvenna og kvára í stjórn Vertonets.
Leiðarvísirinn er nefnilega afurð átaksverkefnis sem þau stóðu fyrir sem snérist um að fjölga konum og kvárum í upplýsingatækni. Þau fengu með sér fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga í að greina stöðuna, finna leiðir og afla upplýsinga sem svo á endanum varð að Playbook.
Enn eina ferðina sannast hið forkveðna; samstaðan er forsenda framfara. Samtök kvenna og kvára í karllægum greinum eru nauðsynleg, enda er sameiginlegur reynsluheimur nauðsynlegur til að greina stöðuna og þróa leiðir til úrbóta.
Takk aftur – og til hamingju öll með þetta nýja tæki sem ég ætla að nota heilan helling og hvet ykkur hin til að gera það líka.
Bestu kveðjur,
Sóley
Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki