Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


HUGLEIÐING VIKUNNAR: ÁREYNSLULAUS SÝNILEIKI

Ég geri mikið af því að bera saman Ísland og Holland, eðlilega kannski, þar sem ég bý í öðru landinu en kem frá hinu. Það er auðvitað flókið og ruglingslegt og engan veginn á færi einnar konu að alhæfa um hvað er líkt og hvað ólíkt, en engu að síður eru áhugaverðir hlutir sem ég hef tekið eftir, sér í lagi tengt starfi mínu sem kynja- og fjölbreytileikafræðingur.


ÍSLAND ER BETRA Í...

Kynjajafnrétti. Af öllum konum í Evrópu taka hollenskar konur minnstan þátt á vinnumarkaði. Af þeim fáu konum sem taka þátt yfir höfuð eru langflestar í hlutastarfi. Þetta er bæði orsök og afleiðing af arfaslökum innviðum, allt of stuttu fæðingarorlofi, óaðgengilegri dagvistun og ofuráherslu á mæðrahyggju. Þetta hefur umtalsverð áhrif á fjárhagslegt sjálfstæði kvenna, aðgengi að valdi og möguleika til starfsþróunar sem aftur hefur áhrif á viðhorf og virðingu, áreitni, ofbeldi og öryggi. Femínismi er notað sem blótsyrði og almennt er femínískum aðgerðum illa tekið í samfélagsumræðunni.

Þó Ísland sé ekki fullkomið, erum við mun lengra komin en þetta.


HOLLAND ER BETRA Í...

Áreynslulausum sýnileika jaðarsetts fólks. Hollenskir sjónvarpsþættir sýna að jafnaði fjölbreytt sambönd og fjölskylduform þar sem fólk af mörgum kynjum, með allskonar húðlit og/eða líkamsgerð á í hlut án þess að það sé gert að umtalsefni.

Á Íslandi hefur fjölbreytileiki fólks vissulega orðið sýnilegri á undanförnum árum, en það þykir þó tíðindum sæta í hvert sinn. Með okkar augum, sem er frábær sjónvarpsþáttur, er sérstaklega framleiddur með sýnileika fatlaðs fólks í huga. Tekið er sérstaklega fram að þættirnir séu unnir af 
fólki með þroskahömlun og að markmiðið sé að miðla fjölbreytileika íslensks samfélags. Að sama skapi þótti fréttnæmt að sjá lesbískt par í stefnumótaþættinum Fyrsta blikið fyrir stuttu.

Dæmi um hollenska áreynsluleysið er 
ný auglýsingaherferð fjölmiðlafyrirtækisins Ziggo undir slagorðinu „gerðu það töfrandi“. Þar telur lítill strákur sig hafa náð að setja sjónvarpið á pásu með töfrabragði en áhorfendur sjá að það er stóra systir hans sem er að spila með hann. Það sem er óvenjulegt við auglýsinguna er að stóra systirin er klár, sniðug OG með Downs heilkenni. Heilkennið kemur hvergi við sögu, hún er bara venjuleg stelpa að leika á litla bróður sinn. Nýnæmið sem felst í þessu er að fötluð stelpa sé ekki í hlutverki sem snýst um fötlun hennar, heldur þvert á móti að hún sé klárari og sniðugri en ófatlaður bróðir hennar.


ÁREYNSLA, EN VEL ÞESS VIRÐI

Sýnilegur fjölbreytileiki verður ekki til að sjálfu sér og dæmin sem ég nefndi hér að ofan eru ekki til marks um að í Hollandi mæti þetta sýnilega fólk engum hindrunum. Þessi áreynslulausi sýnileiki er afrakstur talsverðrar vinnu. Það er ákvörðun að sýna fjölbreytt fólk og það er ákvörðun að gera það án þess að það sé rætt, því sé hampað eða að það fjalli um sérstöðu fólksins sem um ræðir. Það krefst aukinnar vinnu að finna fjölbreyttan hóp fólks til að heimsækja eða taka viðtal við og það þarf þjálfun og færni hjá forréttindafólki í að tala um og við jaðarsett fólk á jafningjagrundvelli.

Við getum öll tekið okkur Holland til fyrirmyndar. Fjölmiðlafólk getur auðvitað lært mikið af þessum dæmum, en hin getum vandað okkur við að tala við, hlusta á og læra af fólki sem er sker sig frá viðmiðunum hverju sinni. Þannig getum við gert heiminn ogguuponkulítið betri.
 
Bestu kveðjur,
Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: