Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


HUGLEIÐING VIKUNNAR: KYNBUNDINN LAUNAMUNUR


Ég var að lesa skýrslu um kynbundinn launamun. Hún var 77 blaðsíður og fjallaði um hvernig aðhvarfsgreining var notuð til að greina uppreiknuð heildarlaun starfsfólks þar sem tekið var tillit til óteljandi áhrifaþátta. Í skýrslunni voru 29 myndir og 54 töflur. Þær sýndu meðal annars fylgni uppreiknaðra heildarlauna alls starfsfólks og starfsmatsstiga og allskonar aðhvarfsgreiningar fyrir ólíka hópa starfsfólks.

Ég er með meistaragráðu í kynja- og fjölbreytileikafræðum, er frekar góð í aðferðafræði og hef unnið við rannsóknir hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Ég ætti að hafa allar forsendur til að renna í gegnum svona skýrslu og draga ályktanir án mikillar fyrirhafnar. En ég gerði það ekki. Eftir fyrstu blaðsíðurnar var ég farin að skanna töflur og myndir og gafst svo endanlega upp undir miðja skýrslu.
 

ALLAR ÞESSAR SKÝRINGAR


Upplýsingar um kynbundinn launamun eru sjúklega óaðgengilegar. Skýrslurnar eru allt of fræðilegar, allt of flóknar og allt of núanseraðar til að venjulegt fólk geti greint hismið frá kjarnanum. Auk þess snúast þær að of miklu leyti um skýribreytur, um það af hverju launamunurinn sé til staðar en ekki hvernig hægt sé að leiðrétta hann. Skýringar eru svo sem allt í lagi, menntun, starfaflokkar og vinnutími hafa vissulega áhrif á kynbundinn launamun. En þessar breytur réttlæta ekki neitt.

Meðaltekjur kvenna eru 70,3% af meðaltekjum karla. Fyrir því eru flóknar sögulegar og kerfislægar ástæður (m.a. staðalmyndir, ofbeldi og ófullkomið velferðarkerfi, brotnir innviðir og erfiðar aðstæður til uppeldis, umönnunar og aðhlynningar) en staðreyndin er ósanngjörn engu að síður. Þá eru ótaldar aðrar mismunabreytur sem hafa áhrif á laun. Fatlaðar konur, konur af erlendum uppruna og konur sem tilheyra öðrum jaðarsettum hópum búa við enn meiri launamun.
 

PRÓSENTUR Á BANKAREIKNINGUM?


Niðurstöður launagreininga eru svo yfirleitt settar fram í prósentum. Fyrirtæki og stofnanir segja stolt frá því að óútskýrður launamunur hafi farið niður um x prósentustig eða sé kominn niður í x prósentustig. Engin hefð er fyrir að segja frá heildarlaunamuni, enda þykir svo eðlilegt að taka tillit til skýribreytanna. Enn sjaldnar er fjallað um upphæðirnar sem felast í þessum prósentum.

Ekkert okkar fær prósentur inn á bankareikninginn okkar. Kynbundinn launamunur snýst um vangreidd laun til kvenna. Konur verða af upphæðum sem skipta kannski ekki öllu máli ein mánaðarmót en verða að risastórum upphæðum yfir starfsævina og enda svo með lægri lífeyrisgreiðslum til kvenna en karla eftir að starfsferlinum lýkur. 
 

STILLUM FÓKUSINN UPP Á NÝTT


Ef við myndum fjalla um tíðni og alvarleika bílslysa eins og kynbundinn launamun, þá myndum við bara telja þau sem ekki hafa málefnalegar skýringar, s.s. vegna hálku eða utanaðkomandi aðstæðna. Við myndum reyndar ekki telja þau, heldur bara fjalla um þau sem hlutfall af bílslysum í fyrra.

Hættum þessu rugli. Rannsóknir eru góðar, aðhvarfsgreiningar nýtast vissulega og skýribreyturnar skýra – en kynbundinn launamunur er ekki tölfræðilegt fyrirbæri. Hann er samfélagsleg meinsemd sem hefur áhrif á félagslegan veruleika kvenna. Beinum sjónum okkar að upphæðunum sem konur verða af og leiðréttum ósanngirnina. Sköfum íðorðin af upplýsingunum, horfumst í augu við vandann, lögum kerfin til að jafna ábrygð kynjanna á heimili og vinnumarkaði og lögum verðmætamatið þannig að greidd verði sanngjörn laun fyrir fyrir kvennastörf. Tökumst á við kjarnann og leiðréttum það sem þarf.

Bestu kveðjur,
Sóley


Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: