Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


HUGLEIÐING VIKUNNAR: EMPTY NEST SYNDROME

„Ef ég heyri „Mamma, hvar er...“ einu sinni enn, fer ég yfirum!"
Þetta sagði ég við manninn minn fyrir u.þ.b. ári síðan eftir rúm 20 ár af uppeldi og umönnun barna. Ég man hvað ég var langþreytt á kröfunni um að vera alltaf til staðar, oft á mörgum vöktum í einu. Mánuði síðar voru bæði börnin flutt að heiman. Ég slapp sumsé við að fara yfirum, en í staðinn tók við flókið tímabil sem ég var engan veginn undirbúin fyrir.

Fram að þessu hafði ég hlegið að „empty nest syndrome“, sem ég kann ekki að þýða á íslensku. Verandi komin með nóg af barnauppeldi bjóst ég við að allt yrði alveg frábært þegar við losnuðum loksins við krakkana. En það reyndist ekki vera. Í staðinn varð heimilið tómlegt, hljótt, líflaust og ég sjálf á einhvern hátt tilgangslaus.

MÓÐURHLUTVERKIÐ


Ég hef verið útivinnandi frá því ég eignaðist börn. Ég hef verið meðvituð um og reynt að brjóta upp kröfu samfélagsins um samtvinnun móðurhlutverks og sjálfsmyndar kvenna. Sjálfsmynd mín hefur byggst á að vera sjálfstæð, femínísk kona sem tekur virkan þátt á vinnumarkaði, í félagslífi og samfélagsumræðu og við hjónin höfum reynt að skipta uppeldi og umönnun jafnt með okkur.

Undir niðri hef ég auðvitað líka verið meðvituð um að móðurhlutverkið er samtvinnað sjálfsmynd minni að einhverju leyti og að hlutskipti okkar hjóna varðandi uppeldi og umönnun er alls ekki jafnt. Ekkert okkar, ekki einu sinni róttækir femínistar, geta fríað sig kröfum samfélagsins að öllu leyti.

Undanfarið ár hefur því verið með þeim allra leiðinlegustu. Heimilislífið hefur verið fábrotið og innihaldslaust, við höfum haft lítið að gera og um fátt að tala. Það reyndist nefnilega vera þannig að rétt eins og sjálfsmynd mín byggði að stærra leyti á móðurhlutverkinu en ég gerði mér grein fyrir, þá byggði samband okkar að miklu leyti á að vera foreldrar.

EMPTY NESTERS


Eitt einkenna breytingaskeiðsins er skert sjálfstraust kvenna og upplifað tilgangsleysi. Það hvarflar ekki að mér að gera lítið úr hormónastarfsemi (enda þakka ég almættinu fyrir hormónapillurnar mínar á hverju kvöldi). En ég er handviss um að þetta einkenni tengist líka breytingum á högum kvenna og þessari lúmsku og rótgrónu samtvinnun móðurhlutverksins og sjálfsmyndarinnar.

Það er ekki að ástæðulausu sem miðaldra fólk fær sér hund, fer í golf eða landvættina. Ég er sannfærð um að mörg þeirra eru að reyna að finna tilgang sem hvarf þegar börnin fluttu að heiman. Við hjónin íhuguðum allt þetta, en enduðum á að kaupa okkur eldgamalt og úr sér gengið hús sem mun reynast okkur verðugt verkefni langt inn í framtíðina. Fram til þessa hefur það veitt okkur talsverða hamingju, en jafnframt valdið okkur umtalsverðum áhyggjum. Ekki ósvipað krökkunum.

OG HVAÐ MEÐ ÞAÐ?


Kröfur samfélagsins hafa áhrif á okkur allt lífið. Kröfur um fjölskyldugerð og foreldrahlutverk gera það að verkum að flest endum við í gagnkynja samböndum, eignumst börn og helgum líf okkar þessum einingum. Þessar kröfur skapa forréttindi fyrir þau sem uppfylla þær en jaðarsetja fólk sem ekki gerir það. Hinsegin fólk, fólk sem ekki eignast börn eða af öðrum ástæðum fellur ekki undir gamaldags skilgreiningar á fjölskyldum mætir allskonar hindrunum og fer í gegnum allskonar sjálfsmyndarkrísur í tengslum við þær. Við þurfum að vera meðvituð um þessar kröfur og reyna að draga úr neikvæðum áhrifum þeirra.

Bestu kveðjur,

Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: