Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

ERINDI VIKUNNAR: THEY LOVE US ALONE BUT THEY HATE US TOGETHER

Ég hélt erindi á hádegisverðarfundi verkalýðshreyfingarinnar og KRFÍ þann 8. mars. Ég ákvað að nýta efnið í hugleiðingu líka, sem er svona:

NÚTÍÐIN

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um vitundarvakninguna sem er að eiga sér stað. Það er augljóst að í dag eiga þolendur auðveldara með að segja frá, samfélagið tekur frásögnunum alvarlegar og gerendameðvirkni og hannúð hefur minnkað frá því sem áður var. Það er alls ekki allt fullkomið, þolendur mæta enn mótlæti, fyrirtæki bregðast oft seint, illa eða ekki við og gerendameðvirkni er sannarlega enn til staðar. En nútíðin er samt svo miklu betri en fortíðin.

FORTÍÐIN

Fyrir stuttu var ég í viðtali með mér eldri og yngri femínistum á Samstöðinni. Þar sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir frá því hvernig Kvennaframboðskonur hafi ekki haft hugtök, tæki og tól til að setja kynbundið ofbeldi á dagskrá sem pólítískt viðfangsefni. Auðvitað skildu þær meinsemdina, en kynbundið ofbeldi var of óskilgreint fyrirbæri og móttökuskilyrði samfélagsins of léleg til að hægt væri að ræða það af alvöru.

Konurnar sem stofnuðu Stígamót voru sakaðar um að vera að finna upp á ógeðslegum hlutum á borð við sifjaspell til þess eins að ná sér niður á körlum. Að slíkir verknaðir fyrirfinndust ekki, heldur væru bara hugarburðir biturra kerlinga. Þetta var árið 1990.

Þetta var ekki í gamla daga. Það eru ekki nema 40 ár síðan róttækustu, femínískustu og pólítískustu konur landsins höfðu ekki hugtök, tæki og tól til að ræða kynbundið ofbeldi. Og það eru 28 ár síðan að fólk hélt því blákalt fram að sifjaspell væru ekki til.

Framlag Rauðsokkanna, Kvennaframboðsins og Kvennalistans er engu að síður ómetanlegt. Þær lögðu grunninn að breytingum dagsins í dag. Við getum barist gegn kynbundnu ofbeldi af því þessar konur eru m.a. búnar að búa til leikskóla, tryggja okkur sjálfsyfirráðarétt yfir eigin líkama og búa til kynjafræði á háskólastigi þar sem hugtökin, tækin og tólin sem þær skorti sjálfar hafa verið þróuð fyrir okkur.

INNSKOT: TITILL ERINDISINS

Titill erindisins er stolinn úr Eurovisionlagi Reykjavíkurdætra sem ég vona svo sannarlega að fari fyrir okkar hönd til Ítalíu í vor.


Kvennabaráttan hefur verið háð með ýmsum hætti gegnum tíðina. En allur árangur hefur náðst fyrir tilstuðlan kvennasamstöðu. Kvenfélög, kvennahreyfingar, kvennaframboð, kvennalistar, kvenréttindafélög, samtök um kvennaathvarf, samtök kvenna á vinnumarkaði, verkakvennafélög, kvenna þetta og kvenna hitt hafa tryggt okkur innviði og réttindi samtímans: Kvennaathvarf, Stígamót, Bjarkarhlíð, Barnaspítala Hringsins, hátt hlutfall kvenna í stjórnmálum og á vinnumarkaði og vitundarvakningu um stöðu jaðarhópa í samfélaginu svo örfá dæmi séu nefnd.

Kvennasamstaða er algert frumafl. Þess vegna hefur andstaðan við femínisma oftar en ekki gengið út á að sundra konum. Ofuráherslan á að etja saman konum þegar örlar á ágreiningi til þess eins að styrkja mýtuna um að konur séum konum verstar er alþekkt, en önnur og lúmskari leið hefur minna verið rædd: Oddaflugsfyrirkomulagið.

Oddaflugsfyrirkomulagið gengur út á að gera einhverja eina konu að holgervingi kvennabaráttunnar. Þessar konur hafa vissulega verið áberandi í kvennabaráttunni, en ekki endilega vegna þess að þær hafi haft hæst eða haft mest vald. Það hefur einfaldlega ekki verið rými fyrir margar, og hvað þá fjölbreyttar raddir í samfélagsumræðunni. Þannig hefur kvennabaráttan tekið á sig ásýnd oddaflugs gæsa þar sem sú fremsta klýfur vindinn. Þessar konur hafa verið í ólíkum hlutverkum og verið mislengi fremstar en hafa átt það sameiginlegt að vera næstum einar á lista fjölmiðla yfir femínista til að hafa samband við – og á seinni árum verið notaðar sem smellubrellur æsifréttamiðla.

Áhrif oddaflugsfyrirkomulagsins eru ekki bara kulnun þessara tilteknu kvenna heldur fælir umræðan aðrar konur frá því að taka sér pláss. Það er ekki eftirsóknarvert að eiga það á hættu að verða fyrir útúrsnúningum og smánun á opinberum vettvangi sem jafnvel teygir anga sína til barna og fjölskyldumeðlima eða leiðir af sér hótanir um ofbeldi.


Þó enn sé reynt að halda einfaldri mynd oddaflugsins á lofti verður það æ erfiðara eftir því sem femínístum fjölgar og fjölbreyttari sjónarmið heyrast. Þegar þúsundir kvenna taka þátt í myllumerkjabyltingum og við höfum aðgerðahópinn Öfgar og Bleika fílinn og Karlmennskuna og Eigin konur og okkur miðaldra konurnar og mér eldri konur sem allar leggja sitt af mörkum á sama tíma ræður feðraveldið ekki við að velja sér einhverja eina.

Oddaflugið hefur breyst í starrasveim sem svífur um. Hann splittast stundum í smærri einingar en heldur hópinn að jafnaði.

FRAMTÍÐIN

Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. En við getum haft áhrif á hana. Ef við höldum áfram á þeim gríðarsterka grunni sem við höfum, nýtum innviðina sem hafa verið skapaðir og byggjum á reynslu og þekkingu sem liggur fyrir er ég viss um að framtíðin verði björt.

Ég vona að einn góðan veðurdag eigi ég eftir að geta sagt frá því að ég hafi ekki haft hugtök, tæki og tól sem þá þykja sjálfsögð til að útrýma gerendameðvirni, taka þolendur alvarlega og láta gerendur sæta sanngjarnri ábyrgð.

Til þess þurfum við að halda femínistasveimnum þokkalega þéttum. Þó okkur greini á um einstaka atriði erum við sammála um svo miklu fleiri. Sameiginlegt markmið femínista er að stuðla að jafnrétti, öryggi og friði fyrir okkur öll og því markmiði náum við aðeins með frumafli kvennabaráttunnar: Kvennasamstöðu!

Bestu kveðjur,
 
Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: