FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA
Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
HUGLEIÐING VIKUNNAR: AFNÁM JAFNLAUNAVOTTUNAR
Frumvarp um afnám jafnlaunavottunar hefur vakið hjá mér blendnar tilfinningar. Svo það sé sagt, þá hef ég aldrei verið sérstakur aðdáandi vottunarinnar. Fullt af sérfræðingum hafa bent á galla hennar sem felast ekki síst í því hversu auðvelt er að fela kynbundinn launamun með réttum tilfærslum og skýribreytum og þar með í rauninni fá vottun á kynbundinn launamun. Auk þess hafa rannsóknir sýnt fram á afar takmarkaðan árangur af jafnlaunavottuninni. Ekkert af þessu kemur á óvart, enda var engin krafa gerð um þekkingu, reynslu eða skilning á kynjuðum greiningum hjá vottunaraðilunum.
Þessi rök komu þó ekki fram hjá dómsmálaráðherra þegar hún talaði fyrir frumvarpinu í gær. Hennar rök lutu eingöngu að því að koma til móts við atvinnurekendur sem þætti fyrirkomulagið of dýrt, of flókið og of íþyngjandi. Hún sagði afnámið spara hinu opinbera 1,5 milljarða króna og atvinnulífinu enn hærri upphæðir.
TILFÆRSLA VERKEFNISINS
Í nýju frumvarpi eru umtalsvert minni skyldur settar á herðar atvinnurekenda, m.a. með færri skýrslum og minni kröfum til smærri vinnustaða. Stærsta breytingin felst þó í því að í stað utanaðkomandi vottunar eiga atvinnurekendur að senda skýrslu til Jafnréttisstofu á þriggja ára fresti. Þetta gæti verið fagnaðarefni. Það væri frábært að hafa gott teymi sérfræðinga með þekkingu, reynslu og aðstöðu á einum stað til að greina gögnin með samræmdum hætti.
Í frumvarpinu eru þó engar áætlanir um að styrkja eða styðja við Jafnréttisstofu. Gert er ráð fyrir 55 milljónum króna í að þróa stafræna lausn til gagnavinnslu. Ekkert annað. Ekki fleira starfsfólk á Jafnréttisstofu og engin fræðsla, ráðgjöf eða stuðningur fyrir þau sem eiga að sinna verkefninu. Vinna sem þótti of flókin, of íþyngjandi og of dýr fyrir heilan vinnumarkað á að bætast við dagleg störf Jafnréttisstofu án viðbótarfjármagns.
ÓRAUNHÆFT FYRIRKOMULAG
Dómsmálaráðherra sagðist ekki ætla að gefa neinn afslátt af því að tryggja sömu laun fyrir sömu og jafnverðmæt störf. Hún fullyrti að þetta nýja fyrirkomulag myndi ná fram markmiðinu um launajafnrétti með einfaldari og hagkvæmari hætti.
Ég fæ þetta ekki til að ganga upp. Á Jafnréttisstofu starfa sjö manneskjur. Það er ómögulegt, jafnvel með afburðasnjöllum stafrænum lausnum, að þau geti greint og rýnt launagögn heils vinnumarkaðar til viðbótar við núverandi verkefni.
HVAÐ ÞARF?
Kynbundinn launamunur er afleiðing skakks valdakerfis sem leiðir af sér skakkt verðmætamat hjá okkur öllum. Við höfum öll tilhneigingu til að meta karllægt framlag til samfélagsins sem verðmætara en kvenlægt framlag. Þess vegna fær fólk hærri laun fyrir að passa peninga en að passa börn, svo dæmi sé tekið.
Launajafnrétti krefst mikillar vinnu, ítarlegrar rýningar, greininga, rökstuðnings og hugrekkis til að breyta því sem þarf að breyta. Þessi vinna vinnst ekki af sjálfu sér og hún á ekki að vera ókeypis.
Að lokum segi ég því þetta: Ég er mjög til í að afnema jafnlaunavottun í núverandi mynd – ef við setjum í staðinn á laggirnar kerfi sem virkar. Höfum fólk með þekkingu, tæki og tól til að greina skýrslurnar og veita vinnumarkaðnum ráðgjöf og aðstoð við að laga það sem þarf að laga. Það kostar pening, en hann mun skila sér til baka í sanngjarnara og betra atvinnulíf og samfélag almennt.
Bestu kveðjur,
Sóley
Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki



