Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


MINNINGARORÐ UM GUÐRÚNU JÓNSDÓTTUR

Baráttukonan Guðrún Jónsdóttir lést í vikunni, 92 ára að aldri. Hún var södd lífdaga og hafði áorkað meiru en hundrað meðalmanneskjur samanlagt. Samt finnst mér alveg óhugsandi að hún sé dáin. Hún var einhvers konar grunnstoð í samfélaginu. Hennar lóð lágu alltaf réttlætismegin á vogarskálunum.

Ég man ekki eftir samfélaginu án Guðrúnar. Hún var mér risastór fyrirmynd sem stjórnmálakona og aktívisti. Ég kynntist henni samt ekki persónulega fyrr en ég fór í starfsnám hjá Stígamótum árið 1996. Þá önn sátum við saman einu sinni í viku, reyktum mjög margar sígarettur, drukkum mjög mikið kaffi og ég drakk í mig allan þann fróðleik sem komst fyrir í hausnum á mér.

Guðrún var sú sem kenndi mér að hugsa kerfislægt. Þótt ég hafi alltaf verið femínisti, þá hafði ég aldrei náð að setja allt misréttið í samhengi. Yfir einhverjum kaffibollanum spurði unga og einfalda ég af hverju hún segði að kynferðislegt ofbeldi væri samfélagslegt vandamál. Það stóð ekki á svari. Hún útskýrði fyrir mér, með hárbeittum og greinargóðum hætti, hvernig samfélagið elur af sér fjölmargar birtingarmyndir kynjamisréttis sem svo viðhalda sér og hver annarri af því það er svo erfitt að fylgja ekki straumnum. Ég fór í starfsnám hjá Stígamótum af því ég vildi geta hjálpað brotaþolum kynferðisofbeldis. Ég lauk starfsnámi hjá Stígamótum, staðráðin í að breyta samfélaginu.

Eftir þetta var Guðrún vinkona mín. Hún hvatti mig áfram, studdi mig, fræddi, gagnrýndi og skammaði eftir því sem við átti hverju sinni. Hún var mín dyggasta stuðningskona í Vinstri grænum og sérstakur heiðursfélagi í Reiðukonufélaginu. Hún var róttækust, hugrökkust, fyndnust og ósvífnust. Alltaf til í aðgerðir.

Guðrún breytti ekki bara mínu lífi. Hún breytti samfélaginu varanlega. Það ættum við öll að taka okkur til fyrirmyndar nú þegar hún hefur rétt okkur keflið áfram. Við verðum að halda áfram að brjóta niður kerfislægt misrétti og allar birtingarmyndir þess. Því þrátt fyrir afrek Guðrúnar og samtíðarkvenna hennar eru verkefnin enn ærin. Við skulum verða við því sem hún óskaði sér í ævisögu sinni, Ég verð aldrei ungfrú meðfærileg, að linna ekki látum fyrr en búið er að uppræta vandann.

Takk fyrir allt elsku Guðrún. Ég lofa að linna aldrei látum.

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: