Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

Söguskoðun vikunnar: þöggun

Kynbundið ofbeldi er óþægilegt umræðuefni. Lengi vel héldum við að það væri af því að það væri svo óþægilegt fyrir þolendur. En raunin er sú, eins og kemur æ betur í ljós, að það er fyrst og fremst óþægilegt að horfast í augu við gerendur. Það virðist vera óyfirstíganlegt fyrir okkur sem samfélag að láta gerendurna axla ábyrgð.

Það er þess vegna - út af gerendunum - sem kynbundið ofbeldi hefur verið þaggað í gegnum aldanna rás. Með fjölbreyttum aðferðum. Þekktasta og áhrifaríkasta þöggunaraðferðin er náttúrulega dómskerfið sem þolendur geta engan veginn reitt sig á.

Í gamla daga voru þolendur fangelsaðir og jafnvel drepnir. Eftir að því var hætt og fram að samfélagsmiðlabyltingum undanfarinna ára dugði að drusluskamma konur (og mögulega loka þær allra hörðustu inni á geðdeildum).

Stofnendur Kvennaathvarfs og Stígamóta voru sakaðar um að vera að finna upp sifjaspell og heimilisofbeldi, eitthvað sem fram að því hefði bara ekki verið til. Í langan tíma eftir það sátu þolendur uppi með skömmina og helsta verkefni fyrrgreindra stofnana var að hjálpa konum að lifa með skömminni og sektarkenndinni yfir að hafa látið beita sig ofbeldi.

Það er stundum sagt að #metoo hafi breytt þessu. Að samtakamátturinn sem þar myndaðist hafi gert konum kleift að tala og þvingað samfélagið til að hlusta. Það er kannski rétt að einhverju leyti. Alls ekki öllu samt.

Konurnar sem tjáðu sig undir formerkjum #metoo voru nefnilega gagnrýndar talsvert. Þær sem nafngreindu ekki voru taldar varpa grun á alla karla. Þær sem nafngreindu voru sóttar til saka fyrir ærumeiðingar. Blamed if you do and blamed if you don’t.

Þetta virkaði ekki. Konur eru ekki til í að þegja lengur. Þær hafa haldið áfram að tjá sig. Og ekki bara það, heldur krefjast þær þess að brotin séu viðurkennd og að gerendurnir sæti einhvers konar ábyrgð.

Þá heldur gerendameðvirknin áfram, og nú með nýju blæbrigði. Umræðan fer að snúast um allt of harkalegar baráttuaðferðir, um aumingjans mennina sem séu útskúfaðir og orð eins og slaufunarmenning og mannorðsmorð glymja um allt. Jafnvel þótt flestar ásakanir hafi engin áhrif og fjöldi karla sem hafi verið ásakaðir um ofbeldi og óviðaeigandi framkomu haldi áfram eins og ekkert hafi í skorist. Ég nefni sem dæmi Egil Einarsson, Hafþór Júlíus Björnsson, Björn Braga og Klaustursmennina Sigmund Davíð Gunnlaugsson, Bergþór Ólafsson og Gunnar Braga Sveinsson.

Svona hefur gerendameðvirknin þróast í gegnum tímans rás. Hún hefur verið til staðar allan tímann - en aðferðirnar sem notaðar hafa verið hafa breyst.

Við verðum að hætta þessu. Við verðum öll að líta í eigin barm, reyna að hemja meðvirkni okkar og hlusta og treysta þolendum. Því þolendur eru hvergi nærri hættir. Við erum að kljást við risastórt samfélagsmein og það verður bara að hafa það þó það sé óþægilegt. 

Bestu kveðjur,

Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: