Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

HUGLEIÐING VIKUNNAR: ÁRAMÓTAUPPGJÖR

Í þessum síðasta pistli ársins er viðeigandi að líta yfir farinn veg. Fyrst og fremst vil ég þakka ykkur, kæru lesendur, fyrir frábær viðbrögð við föstudagspistlunum fram til þessa. Ég viðurkenni að hugleiðingarnar voru ekki bara hugsaðar fyrir ykkur, heldur líka sem greiningar- og útrásartæki fyrir mig. Hvort tveggja hefur lukkast vel. Lesendum hefur fjölgað, viðbrögðin hafa verið góð og mér finnst afskaplega gott að setjast niður á föstudagsmorgnum, fara yfir umræður vikunnar og reyna að setja þær í samhengi við þróun í málaflokknum.

Hér koma 10 mest lesnu hugleiðingarnar frá upphafi:

  1. Hugtak vikunnar: Hannúð
  2. Föstudagshugleiðing á mánudegi: Kjarni feðraveldisins
  3. Aukahugleiðing: Slaufunarmenning, hakkavélar og jarðsprengjusvæði
  4. Ástæður vikunnar: Hugsjónir, hagsmunir eða faglegt mat?
  5. Gerandi vikunnar og yfirlýsingin hans
  6. Hugtak vikunnar: Hatursorðræða
  7. Viðfangsefni vikunnar: Passaðu þig!
  8. Kona vikunnar: Vanda Sigurgeirsdóttir
  9. Hugleiðing vikunnar: Rasísk ummæli
  10. Hugtak vikunnar: Óviðurkennd verkefni


EFNIÐ

Vinsælustu hugleiðingarnar fjalla flestar um einstök mál vegna #metoo og viðbrögð við þeim. Þó vekur athygli að tvær hugleiðingar fjalla um rasisma og ein rétt nær inn á listann um þriðju vaktina. Þetta er í ágætu samræmi við samfélagsumræðuna þar sem #metoo hefur verið fyrirferðarmikið, umræður um rasisma hafa verið að aukast og þriðja vaktin er tiltölulega nýtt hugtak sem er að ryðja sér til rúms.



HUGTÖKIN

Eitt besta tækið sem við höfum til að breyta samfélaginu er að kunna að greina misrétti og skilja að þó það sé oft framið af einstaklingum og bitni alltaf á einstaklingum, þá er það byggt á kerfislægum þáttum. Með slíkum greiningum drögum við úr persónugervingu vandans og áttum okkur á samfélagslegu hindrununum sem skapa hann. Þess vegna hef ég lagt mikið upp úr því að skrifa um hugtök á borð við hannúð, tilkall, ómeðvitaða hlutdrægni, öráreiti, sjálfvirk varnarviðbrögð og þriðju vaktina, en þau eru einmitt útskýrð í hugleiðingunum hér að ofan.



FRAMTÍÐIN

Eins og ég fór yfir með Gunnari Hanssyni og Guðrúnu Gunnarsdóttur í Mannlega þættinum á RÚV í síðustu viku, þá hafa öll framfararskref í mannréttindabaráttu verið stigin vegna þess að einhver hugrökk manneskja þorði að segja frá útlokun, mismunun eða ofbeldi sem hún varð fyrir. Eftir langa og erfiða baráttu fór forréttindafólkið svo að hlusta og læra. Þar með hætti vandinn að vera persónulegt úrlausnarefni þolendanna og varð að samfélagslegu viðfangsefni. Úr urðu sjálfsagðir hlutir á borð við almennan kosningarétt, skóla án aðgreiningar og hjónabönd samkynhneigðra.

Í dag er samfélagið rétt að byrja að hlusta á þolendur kynbundins ofbeldis, kerfislægs rasisma, fötlunarfordóma og transfóbíu svo einhver dæmi séu nefnd. Við erum að átta okkur á að misréttið sem fólk verður fyrir snýst ekki um þeirra persónulega harm, heldur samfélagslega meinið sem við verðum öll að taka þátt í að uppræta. Við eigum langt í land, en viljinn til að hlusta, virða, læra og breyta er sannarlega að aukast.

Þetta var síðasta hugleiðing ársins. Mínar allra bestu óskir um gleðilega hátíð, kærar þakkir fyrir hið liðna og ég hlakka mikið til að halda áfram, helst í samstarfi við ykkur öll, að stuðla að aukinni virðingu, betri hlustun, lærdómi og róttækum breytingum á komandi árum.

Bestu kveðjur,
Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: