Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDI KVENNA

Í vikunni var lögð fram þingsályktunartillaga um rannsókn á starfsemi vinnuhælisins að Kleppjárnsreykjum á fimmta áratug síðustu aldar og hvort mannréttindabrot hafi verið framin í aðgerðum yfirvalda til að sporna gegn samskiptum íslenskra kvenna við erlenda hermenn á „ástandsárunum“. Löngu tímabær tillaga og ólíklegt að niðurstaða vinnunnar verði íslenskum yfirvöldum í hag.

Þetta eru svo sem ekki einu álitaefnin þegar kemur að mannréttindum kvenna á Íslandi. Mál níu kvenna eru nú til meðferðar hjá Mannréttindadómstól Evrópu. Þar kemur fram að hvorki sálrænir né líkamlegir áverkar voru teknir til greina, játningar sakborninga voru hundsaðar, lykilvitni voru ekki kölluð til skýrslutöku og málsmeðferð dróst úr hófi þannig að sakborningar höfðu svigrúm til að undirbúa og samræma frásagnir og jafnvel þannig að mál fyrndust í meðferð lögreglu.

Mín vegna mætti sannarlega hefja fleiri rannsóknir. Rannsókn á kynferðisbrotum og meðferð þeirra innan kirkjunnar gæti gefið mikilvægar upplýsingar, rannsókn á meðferð og framkomu við fatlaðar og geðsjúkar konur, að ekki sé talað um meðferð og þjónustu við konur í vændi gætu jafnframt vakið fólk til vitundar um kerfisbundið misrétti og mögulega misnotkun valds.



TRÚVERÐUGLEIKI BROTAÞOLA

Ég hef áður vitnað í Kate Manne á þessum vettvangi. Hún fann m.a. upp hugtökin hannúð (e. himpathy) og tilkall (e. entitlement), en hún hefur skrifað um hvers vegna konur eru ekki teknar alvarlega fyrir dómi. Raunar segir hún meginregluna vera þá að hvítur karl sé að jafnaði talinn trúverðugri en kona en að hvít kona sé að jafnaði trúverðugri en svartur eða brúnn karl. Og án þess að ég hafi lesið það hjá Kate Manne, mætti gera ráð fyrir að konur sem tilheyri jaðarhópum séu enn síður taldar trúverðugar en hvítar forréttindakonur.

Þetta stemmir ágætlega við íslenska dómaframkvæmd, þar sem við höfum mörg dæmi um dóma fyrir lærastrokur eða óviðurkvæmilega hegðun karla gagnvart körlum, en aðeins örfá dæmi um dóma fyrir alvarleg kynferðisbrot gegn konum, að ekki sé talað um kerfisbundin brot gegn jaðarsettum hópum kvenna. Það er líka í samræmi við greiningu Kate Manne hversu margir af þeim dómum sem fallið hafa vegna kynferðisbrota gegn konum eru yfir körlum af erlendum uppruna.



RAMMSKAKKT SAMFÉLAG

Ofangreint á auðvitað ekki bara við um dómaframkvæmd. Við höfum öll tilhneigingu til að taka hvíta karla alvarlegar en fólk sem ekki fellur undir þá skilgreiningu enda erum við vön að sjá þá fara með vald og ábyrgð og njóta virðingar í samfélaginu. Það hefur áhrif á okkar mat á trúverðugleika fólks frá degi til dags og á sinn þátt í hannúð, tilkalli, gerendameðvirkni og óttanum við að brjóta upp samfélagsleg norm og viðmið.

Ofbeldi gegn konum mun alltaf þrífast í samfélagi sem tekur bara hluta fólks alvarlega. Því þarf að breyta með öllum tiltækum ráðum. Með gagngerum kerfislægum breytingum, rannsóknum á fortíðinni, viðurkenningu á mistökum, endurskoðun ferla og regla og samskipta – en ekki síst með því að við séum gagnrýnin á okkur sjálf, tilbúin að viðurkenna mistök og leiðrétta þau.


Bestu kveðjur,


Sóley


Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: