Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


SKILTI VIKUNNAR ER EKKI TIL

Ný auglýsingaherferð hefur vakið talsverða athygli hér í Hollandi að undanförnu. Meðfylgjandi mynd er úr herferðinni, en þar stendur „Þetta skilti er ekki til, en samt er það eiginlega út um allt“ Fyrir þau ykkar sem eruð orðin ryðguð í umferðarreglunum þá þýðir rauður hringur á hvítum fleti að allur akstur sé bannaður. Merkin hér að neðan eru til og banna umferð vöruflutningabíla, og traktora. Skilti sem bannar umferð hjólastóla er auðvitað ekki til, enda myndi slíkt brjóta í bága við grundvallar mannréttindi.


SAMT ER ÞAÐ EIGINLEGA ÚT UM ALLT

Þó skiltið sé ekki til, þá gera hollenskir innviðir afar sjaldan ráð fyrir hreyfihömluðu fólki. Það sama á við um Ísland. Hreyfihamlað fólk mætir stöðugt manngerðum hindrunum í daglegu lífi. Þröskuldar, tröppur, upphækkanir, hurðargöt, salerni og fleira og fleira koma í veg fyrir að fólk komist leiðar sinnar eða geti lifað því áhyggjulausa lífi sem ófatlað fólk lifir.

Þó þessar hindranir séu ekki búnar til af ásetningi, þá gefa þær skýr skilaboð um að afmarkaður hópur fólks sé ekki velkominn. Við afsökum okkur með aldri mannvirkjanna, og litlum skilningi gömlu daganna á aðgengismálum og setjum það í hendur milljarðamærings sem sjálfur notar hjólastól að rampa upp almenningsrými. Þó frumkvæðið sé vissulega gott, þá eiga aðgengismál ekki að vera háð geðþóttaákvörðunum milljarðamæringa. Það þarf miklu meira til.


EKKI BARA AÐGENGI AÐ MANNVIRKJUM

Við eigum engin skilti sem banna konur, kynsegin fólk, hinsegin fólk, fólk sem ekki er hvítt, feitt fólk eða fátækt fólk. Þvert á móti eigum við stjórnarskrá, lög og reglur um að öll mismunun gagnvart þessum hópum fólks sé bönnuð. Við teljum okkur fylgja þessu í hvívetna, en staðreyndirnar tala sínu máli.

Konur þurfa samt enn að olnboga sig áfram í karllægum heimi valda, fjármagns og viðskipta, kynsegin fólk situr undir hatursorðræðu í opinberu rými, hinsegin fólk nýtur ekki sömu kjara og gagnkynhneigt fólk, svart og brúnt fólk býr við stöðuga öðrun, feitt fólk mætir lífshættulegum fordómum í heilbrigðiskerfinu og fátækt hefur langvarandi áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks. Þetta eru bara örfá dæmi um hópa sem mæta mótlæti í samfélagi sem þykist vera opið, frjálst og jafnréttissinnað.


LÆRUM OG BREYTUM

Við verðum að horfast í augu við þessa skökku sjálfsmynd okkar, bæði sem manneskjur og sem samfélag. Við erum öll uppfull af meðvitaðri og ómeðvitaðri hlutdrægni, við höfum tilhneigingu til að velja og forganrsraða í þágu hins viðtekna og forðast það sem er öðruvísi eða skrítið. Þannig búum við til reglur, ferla, kerfi og verklagsreglur sem innifela oftar en ekki einhvers konar mismunun, stundum í manngerðu umhverfi en stundum í verðmætamati, skilgreiningum og forgangsröðun verkefna.

Viðurkenning á vandanum er fyrsta skrefið, að við þykjumst ekki vera fullkomin. Í kjölfarið getum við leitað leiða til að laga, breyta og bæta það sem þarf.
 
Bestu kveðjur þangað til þá,


Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: