Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


BÍÓMYND VIKUNNAR: BARBIE

Það kemur lesendum kannski ekki á óvart, en ég hef aldrei þolað Barbie. Ekki bara upprunalegu staðalmyndabarbie, heldur líka allar tilraunir Mattel til að reyna að mæta gagnrýni á hana. Það var fullkomlega ótrúverðugt að sjá þessa snarýktu staðalmynd sem lækni og geimfara og fótboltaþjálfara. Síðari tíma tilraunir til að búa til fjölbreyttari líkama, s.s. brúnar og svartar og fatlaðar og feitar Barbie, voru ekkert mikið trúverðugri. Allar í anda fullkomins tókenisma, með ákveðin séreinkenni en uppfylltu staðalmyndirnar að öllu öðru leyti. Með líkamshlutföll sem eru ýktari en ofurfyrirsætur, fastar á táberginu með fætur upp að handakrikum og mitti á þykkt við háls.


ÁHRIFIN

Barbie er ekki einangrað fyrirbæri. Mattel hefur verið leiðandi afl á leikfangamarkaðnum, þar sem langflestir framleiðendur hafa keppst við að viðhalda, styrkja og ýkja staðalmyndir kynjanna. Fyrir utan þau neikvæðu áhrif sem Barbie hefur haft á líkamsmynd kvenna, hafa kynjuð leikföng gríðarleg áhrif á áhugasvið, menntunar- og starfsval fólks sem aftur leiðir til mjög kynjaðs vinnumarkaðar og verðmætamats.

Tilvist og þróun Barbie er til marks um algera hundsun á hindrunum valdakerfisins og setur ábyrgðina á stöðu og líðan kvenna á herðar einstaklingsins. Konur geta sjálfum sér um kennt ef þær eru ekki jafn sætar, mjóar og vel liðnar og Barbie eða ef þær ná ekki jafn langt á framabrautinni og hún.


MYNDIN

Svo kom bíómynd og einhvern veginn tókst þeim að skapa nógu femínískt hæp til að ná mér í bíó. Söguþráður, efni og skilaboð myndarinnar eru blússandi gagnrýnin og rammfemínísk. Öll framangreind gagnrýni kemur þar fram og gott betur, enda farið dýpra í áhrif feðraveldisins á stöðu, líðan og tækifæri kvenna en í flestum Hollywood-myndum sem ég hef séð.


ÁHRIF MYNDARINNAR

Myndin er auðvitað framleidd af Mattel og er sjálfsagt hugsuð sem enn ein ímyndarherferðin. Að þessu sinni tekst þeim þó betur upp en áður. Valdakerfið er viðurkennt sem fyrirbæri og fyrri tilraunum Mattel til jafnréttisaðgerða er hvergi hlíft.

Myndin er enn eitt dæmið um þá femínísku vitundarvakningu sem hefur átt sér stað á undanförnum árum. Það hefur mikið breyst þegar Mattel og Hollywood eru farin að taka undir gagnrýni sem ég átti lengi vel erfitt með að útskýra og rökstyðja. Að ekki sé talað um þegar ádeilan verður ein vinsælasta bíómynd síðari tíma. Myndin er sýnd um allan heim fyrir fullum sal af fólki sem langfæst hefur velt fyrir sér hlutverki eða áhrifum Barbie og hefur lítið spáð í staðalmyndir, kynskiptan vinnumarkað eða verðmætamat.

Mattel mun græða, en það er skárra að þau græði á því að fræða fólk um tilvist, eðli og áhrif feðraveldisins en dúkkunum sem gera ekkert nema styrkja það. Svo verður áhugavert að fylgjast með framhaldinu, hvort myndin mun hafa einhver áhrif á samsetningu æðstu stjórnenda fyrirtækisins eða leikfangaframleiðslu þess. Það mun tíminn einn leiða í ljós.
 
Bestu kveðjur þangað til þá,


Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: