FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA
Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
SPURNING VIKUNNAR: HVAÐA JAÐARHÓPAR?
Ég var spurð að því í vikunni hvaða jaðarhópar yrðu fyrir bakslagi samtímans og hvernig. Þá fattaði ég að það er í alvöru til fólk sem skilur hvorki bakslagið, né hvernig það hefur áhrif á fólk. Þá er víst ekkert annað að gera í stöðunni en að útskýra.
TRANS OG INTERSEX FÓLK
Hvaða áhrif hefur það þegar hamrað er á kynjatvíhyggju? Hvernig líður trans og intersex fólki þegar sagt er að kynin séu bara tvö? Eða þegar einhver viðurkenna að jú, kannski falli ekki allt fólk undir kynjatvíhyggjuna en það séu þá frávik vegna genagalla?
Þarna er verið að tala um raunverulegt fólk sem hefur jafnvel ítrekað þurft að útskýra sjálf sig, réttlæta tilvist sína og búa við fordóma sem cis fólk hefur aldrei upplifað. Efasemdir um tilvist þeirra og fullyrðingar um galla auka á vanlíðan hjá fólki sem hefur þolað nóg fyrir.
Það er skiljanlegt að cis fólki sem aldrei hefur þurft að spá í kyn sitt eða kynvitund finnist þetta flókið. En slíkt óöryggi verður ekki lagað með afneitun á staðreyndum, heldur með því að læra um fjölbreytileikann, bera virðingu fyrir honum og aðlagast veruleika sem er flóknari en við héldum.
FATLAÐ FÓLK
Hvaða áhrif hefur tylenolumræðan í Bandaríkjunum? Burtséð frá rangfærslum og mæðraskömmun þeirrar umræðu, þá er vert að spyrja hvaða áhrif hún hefur á líðan einhverfs fólks. Mörg þeirra hafa alist upp við fordóma og skilningsleysi og vanmat á þekkingu, getu og framlagi allt sitt líf. Ég get ekki ímyndað mér að það sé notalegt að fá staðfestingu á því að a.m.k. afmarkaður hópur fólks telji þau óæskilegan hluta samfélagsins.
Þó umræðan snúist um einhverfu í augnabilinu má gera ráð fyrir að hún veki ugg hjá öðru fólki sem ekki fellur undir gamaldags skilgreiningar á æskilegri færni og getu. Þessi umræða vekur upp ógnvekjandi hugrenningartengsl við hreina kynstofna og útrýmingu á hvers kyns fötlunum.
Við viljum öll eiga „venjuleg“ börn. Ekki af því að þau séu betri, heldur af því að samfélagið er gert fyrir þau. „Venjuleg“ börn eiga auðveldara líf en „óvenjuleg“. En í staðinn fyrir að útrýma „óvenjulegum“ börnum þurfum við að leggja áherslu á að aðlaga samfélagið að þeim, m.a. með því að kynna okkur einhverfurófið og meta fólk sem er á því að verðleikum eins og þau eru.
FÓLK Á FLÓTTA
Stærstur hluti innflytjenda á Íslandi flutti hingað af fúsum og frjálsum vilja til að vinna. Sum hafa þó flúið hörmungar sem erfitt er að ímynda sér að óreyndu og langaði kannski bara alls ekkert til Íslands. Stríð, ofbeldi, kúgun, fátækt, hungur eða aðrar aðstæður sem við myndum öll flýja ef við þyrftum. Allt þetta fólk er að reyna að aðlagast tungumáli, menningu, kerfi, náttúru og veðurfari á sama tíma og þau þurfa að takast á við fordóma, rasisma og andúð. Að fylgjast með umræðum um meinta illsku innflytjenda, stjórnleysi á landamærunum eða sprungna innviði hjálpar engum, heldur veldur það vanlíðan og jaðarsetningu fólks sem hafði fyrir nóg á sinni könnu.
Auðvitað er flókið að búa í fjölmenningarsamfélagi. En við eigum engra kosta völ. Á Íslandi búa um 60 þúsund manneskjur með erlent ríkisfang. Þvert á það sem rasistarnir halda fram á þessi hópur sinn þátt í að halda uppi innviðum samfélagins, auk þess að auðga samfélagið með öðruvísi sjónarhornum, viðhorfum, siðum og venjum. Fögnum því og aðlögumst.
AÐ LOKUM
Áhrif þessara fordóma hafa líka áhrif á forréttindafólk. Hversu kvenleg þarf cis kona að vera til að mega nota kvennaklefa og hvernig á hún að sanna kyn sitt? Hversu langt er hægt að ganga í að útrýma fötlunum? Viljum við útrýma fólki með bumbur eða skalla? Og ef okkur er svona illa við fólksflutninga milli landa, erum við þá til í að taka á móti öllum 50 þúsund Íslendingunum sem búa erlendis og veita þeim þá þjónustu sem þau eru vön þar?
Þó bakslagið sé þungt megum við ekki gefast upp. Samfélagið er fjölbreytt og það breytist ekki þó við jaðarsetjum, mismunum, smánum og útilokum fólk sem ekki fellur að gamaldags viðmiðum. Stöndum keik með jaðarsettu hópum. Fólki af holdi og blóði með tilfinningar, þarfir, væntingar og þrár sem hefur hæfileika og getu sem þarf að virða og meta að verðleikum.
Bestu kveðjur,
Sóley
Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki