FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


HUGLEIÐING VIKUNNAR: ALLT ER PÓLÍTÍSKT

Fullyrðingar um að pólítík eigi ekki heima í þessu eða hinu eru ansi algengar. Pólítík á ekki heima í Eurovision, stjórnir ríkisfyrirtækja eiga alls ekki vera pólítískt skipaðar og rannsóknir og fræðastarf verður að vera hlutlaust í hvívetna. Við höfum öll heyrt þetta oft við allskonar tækifæri.

Samt stenst þetta engan veginn. Eurovision er rammpólítískt fyrirbæri sem var sett á laggirnar eftir seinni heimstyrjöld með það að markmiði að sameina Evrópulönd í gegnum tónlist. Sama á við um ríkisfyrirtæki. Það er pólítísk ákvörðun að ríkið eigi fyrirtæki, reksturinn lýtur pólítískum lögmálum og skipanin verður að sjálfsögðu pólítísk á meðan svo er, hvað sem hver segir.
 

HLUTLAUST FRÆÐASTARF


Nú þegar Jane Goodall hefur kvatt þennan heim er við hæfi að fjalla aðeins um hlutlaus fræði. Sú þekking sem við búum nú yfir á eðli og hátterni apa hefði aldrei fengst með viðurkenndum aðferðum þess tíma. Goodall var harðlega gagnrýnd af samstarfskörlum sínum fyrir að gangast ekki undir vísindalega samþykktar reglur heldur leyfa tilfinningum og samkennd að hafa áhrif á nálgun sína og rannsóknir. Hún hélt þó sínu striki, sem betur fer.

Krafan um hlutlausa og algilda þekkingu byggir í raun á tvíhyggjunálgun, þar sem gert er ráð fyrir rökhyggju og tilfinningum sem andstæðum pólum. Femínískar fræðikonur hafa ítrekað sýnt fram á hið gagnstæða, m.a. hefur Alison M. Jaggar bent á að viðurkennd fræðasvið og áherslur byggja á viðmiðum og gildum samfélagsins hverju sinni. Það er ekki vegna algilds hlutleysis að rannsóknir á legslímuflakki eru styttra komnar en á liðþófameiðslum. Maggie Little hefur fjallað um mikilvægi ástríðu sem drifkrafts í rannsóknum, enda ljóst að enginn myndi leggja það á sig að rannsaka flókin viðfangsefni nema hafa á þeim ástríðufullan áhuga.
 

KRAFAN UM HLUTLAUS FRÆÐI


Það eru engin fræði hlutlaus. Þau krefast öll ákvarðana um val á viðfangsefni, aðferðafræði, framsetningu niðurstaðna og túlkun. Allar þessar ákvarðanir eru teknar af fólki sem hefur þróað með sér áhugasvið, skoðanir og áherslur sem hafa áhrif hvort sem þeim líkar betur eða verr. Hér er aftur hægt að benda á rannsóknir í læknisfræði sem lengi vel (og líklega ennþá að miklu leyti) byggðu fyrst og fremst á líkamsstarfsemi hvítra karla.

Og þá er komið að minni uppáhalds fræðigrein: Kynjafræðinni. Hún er auðvitað jafn rammpólítísk og aðrar fræðigreinar en hefur fært okkur ómetanlega þekkingu sem hefur bætt samfélagið. Án kynjafræði væri lagaleg og félagsleg staða kvára, kvenna og jaðarsetts fólks lakari og samfélagið verra fyrir okkur öll.
 

STÖNDUM KEIK


Kaldæðnislega virðist það vera sama fólkið sem trúir á hlutlaus fræði og er á móti kynjafræði. Og svei mér ef það er ekki sama fólk og finnst nóg komið af útlendingum og efast um að kynin séu fleiri en tvö. Fólkið sem finnst óþolandi að verið sé að ögra þeirra úreltu hugmyndum um heiminn, samfélagið, réttlæti og valdakerfi.

Rökhyggja og tilfinningar eru ekki andstæður heldur bæta þær hver aðra upp. Ég enda þessa hugleiðingu því á heimaþýddri tilvitnun í Jane Goodall, „Ræktum með okkur virðingu fyrir öllum lifandi verum. Leggjum okkur fram um að skipta ofbeldi og óþoli út fyrir skilning og samkennd. Og ást.“

Bestu kveðjur,
Sóley


Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26. september 2025
SPURNING VIKUNNAR: HVAÐA JAÐARHÓPAR?
Eftir soleytomasdottir 19. september 2025
Ein af glærum námskeiðsins
Eftir soleytomasdottir 12. september 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: GAGNLEGT OG ÁHUGAVERT STÖFF
ELDRI FÆRSLUR