Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

ÁTÖK VIKUNNAR: NÁLGUN, EKKI HUGMYNDAFRÆÐI

Það hlakkar í viðhlæjendum feðraveldisins þessa dagana, sem fylgjast með átökum femínista og taka þeim sem enn einni sönnun þess að konur séu konum verstar. Átökin eru vissulega til staðar. En þau snúast ekki um hugmyndafræðina sem slíka, heldur um leiðir að sameiginlegu markmiði. Ég verð að hryggja viðhlæjendurna með þeirri staðreynd að sambærileg átök eiga sér stað reglulega og skila yfirleitt af sér enn sterkari hreyfingu.

Ágreiningur undanfarinna daga hefur verið að þróast undanfarin ár. Hann snýst ekki um eina grein, einn kynfræðing eða tvo kynjafræðikennara og hann snýst ekki um kyrkingar í kynlífi. Ágreiningurinn snýst ekki um klámvæðinguna sem slíka, heldur nálgunina sem við viljum beita gegn henni.

HUGMYNDAFRÆÐIN

Femínísk hugmyndafræði byggir á að greina og uppræta valdakerfi sem skapað var í árdaga af forréttindakörlum fyrir forréttindakarla. Uppræting feðraveldisins er sameiginlegt markmið allra femínista. Í því felst að uppræta tvíhyggju, kynjaðar staðalmyndir, kynjaðan vinnumarkað, kynjað verðmætamat og kynbundið ofbeldi. Allar þessar birtingamyndir eru samofnar og hafa áhrif hver á aðra.

Kynbundið ofbeldi


Kynbundið ofbeldi er afleiðing kynjaðra staðalmynda sem við ölumst öll upp við. Gagnkynja kynlíf stelpna sem alast upp við að vera góðar, samviskusamar, þjónandi, skilningsríkar og tillitssamar og stráka sem alast upp við að vera ákveðnir, kærulausir, metnaðargjarnir og tillitslausir er líklegt til að þvæla, teygja og jafnvel afmá mörk beggja aðila. Ýktu fyrirmyndirnar úr kláminu, þar sem karlar eru sýndir sígraðir, sterkir og entitled og konurnar veikburða, viljalitlar og þjónkandi bæta svo gráu ofaná svart.

Það er ekki heldur tilviljun að jaðarsettar konur verði fyrir tíðara og alvarlegra ofbeldi. Þær búa við meira valdamisræmi, en jafnframt framleiðir klámiðnaðurinn sérstaka flokka með m.a. feitum konum, fötluðum konum, svörtum konum og asískum konum, að ógleymdum ungum konum.

Það er engin leið að svara spurningum um hænur og egg þegar kemur að femínískri hugmyndafræði. Áhrifin eru of margslungin og of samþætt. Klám er ekki ástæðan fyrir kynbundnu ofbeldi eitt og sér, en klám er augljóslega áhrifaþáttur í tíðni og alvarleika kynbundins ofbeldis, auk þess sem það viðheldur og styrkir tvíhyggjustaðalmyndir og hefur þannig styrkjandi áhrif á aðrar birtingarmyndir feðraveldisins.

Vændi

Talið er að vændisiðnaðurinn velti um 25 billjónum króna á ári (24.000.000.000.000). Það þýðir að ansi margar konur selja aðgang að líkama sínum. Það eru til konur sem selja aðgang að líkama sínum af fúsum og frjálsum vilja, en margir og samverkandi þættir hafa áhrif á val annarra. Stundum er það vegna fjárhagsþrenginga, stundum vegna fíknar, stundum vegna brotinnar sjálfsmyndar eða jafnvel sjálfssköðunaráráttu og svo er hópur kvenna sem einfaldlega er þvingaður til að stunda vændi. (Vissulega eru karlar og kynsegin fólk í vændi, en uppistaða iðnaðarins byggir á cis-körlum að kaupa aðgang að cis-konum).

Samfélagsleg áhrif vændis eru umtalsverð. Fyrir utan misnotkunina sem fer fram á valdi gagnvart stórum hópi fólks sem selur sig, þá viðheldur vændi staðalmyndum um sígraða, tillitslausa og entitled karla og viljalausar, þjónkandi konur. Tilvist vændis viðheldur hlutgervingu kvenna, réttlætir valdamisræmi í krafti fjármagns og stuðlar að misnotkun á því.

ÁGREININGURINN

Þó margt hafi verið sagt og gert undanfarna daga, snýst ágreiningurinn ekki um tilvist feðraveldisins eða mikilvægi upprætingar þess. Hann snýst ekki heldur um tilvist eða skaðsemi kláms og vændis. Ágreiningurinn snýst um nálgun og leiðir. Hann er flókinn, en ég ætla að gera tilraun til að einfalda málið. Væntanlega um of, en þá held bara ég áfram síðar.

Sumir femínistar telja skaðaminnkun vera vænlegasta til árangurs og að okkur beri að virða val kvenna til að starfa í klámiðnaði eða selja líkama sína. Þau telja fordæmingu á klámi og vændi fela í sér drusluskömmun og jaðarsetningu þeirra sem starfa í iðnaðinum, fordóma gagnvart vali og forræðishyggju um það sem þyki ásættanleg vinna.

Aðrir femínistar telja fordæmingu á iðnaðinum mikilvæga, enda valdi hann samfélagslegum skaða. Karlar eigi ekki að geta keypt sér kynlíf, enda stuðli það að hlutgervingu og bjóði upp á misbeitingu valds og fjármagns – og allra síst í ljósi þess hversu stór hluti iðnaðarins byggir á neyð og bágri stöðu seljenda. Þessi hópur telur skert valfrelsi þeirra sem kjósa að starfa í iðnaðinum af fúsum og frjálsum vilja vera óhjákvæmilegan fórnarkostnað.

Báðir hóparnir eru sammála því að miklar breytingar þurfi að verða á þekkingu og þjónustu við fólk sem starfar í iðnaðinum. Það þarf að uppræta fordóma innan lögreglu, heilbrigðis- og velferðarkerfis og bjóða upp á fjölbreytt úrræði, stuðning og þjónustu við fólk sem vill hætta.

HVAÐ SVO?

Ég man eftir svo ótalmörgum sambærilegum átökum innan femínískra kreðsa. Hvort karlar mættu vera með í baráttunni, hvort kynjakvótar væru niðurlægjandi eða nauðsynlegir og margt fleira, fyrir utan augljóslega og eðlilega skiptar skoðanir um í hvaða röð við eigum að beita okkur gegn birtingarmyndum og hvaða jaðarsetning skipti mestu máli. Allt hefur þetta haft jákvæð áhrif á baráttuna, enda byggir femínismi á að hlusta á ólík sjónarmið og finna ásættanlegar leiðir til að þau fái sem flest notið sín.

Við þurfum að vanda okkur við að greina milli iðnaðarins og einstaklinganna sem í honum starfa, að fordæma ekki fólk í vændi og klámi fyrir tilvist iðnaðarins. Á sama tíma þurfum við að vera meðvituð um samhengið milli iðnaðarins, einstaklinganna og samfélagsins. Að skilja að vændi og klám viðhalda hlutgervingu kvenna og styrkja á sama tíma aðrar stoðir feðraveldisins.

Á þessum tímapunkti er svo ástæða til að rifja upp mikilvægi þess að hvert og eitt okkar horfist í augu við að við erum afurð samfélags, staðalmynda og feðraveldis. Við erum öll undir áhrifum klámvæðingarinnar, með beinum eða óbeinum hætti. Það er óþarfi að skammast okkar fyrir það. Í stað þess að taka ábendingum um slíkt sem skömmun eða árás getum við skoðað hvort við getum mögulega dregið úr þessum áhrifum, rétt eins og þegar okkur er bent á aðrar leiðir til að bæta okkur sem manneskjur í flóknu samfélagi.

Þó undanfarnir dagar hafi tekið á, er ég vongóð um að framtíðin sé björt og allur sá stóri sveimur femínista sem nú svífur um samfélagið eigi eftir að finna leiðir til að uppræta kúgun, ofbeldi, mismunun og útilokun einn góðan veðurdag.

Bestu kveðjur,
 
Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: