FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA
Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
MONT VIKUNNAR: OG SEINNA BÖRNIN SEGJA
Í fyrramálið mun þáttaröðin „Og seinna börnin segja“ hefja göngu sína á Rás 1. Ég er rígmontin af þessum þáttum, sem ég vann fyrir RÚV undir styrkri leiðsögn Þorgerðar E. Sigurðardóttur. Þáttaröðin fjallar um áskoranir, sigra og samfélagsleg áhrif femínísks aktívisma á Íslandi undanfarna áratugi.
Kvennafrídagurinn 1975 var ein stærsta femíníska aðgerð sem ráðist hefur verið í á Íslandi. Fyrir utan viðhorfsbreytingar og vitundarvakningu sem sá dagur hafði í för með sér, hafði aðgerðin óafturkræf áhrif á samtakamátt og samstöðu kvenna sem síðan hafa unnið í stórum og smáum hópum að bættu samfélagi. Í þáttunum reyni ég ekki að gera femínískum aktívisma tæmandi skil, en varpa þó ljósi á einhvern hluta hans.
Í fyrsta þættinum segja Auður Alfífa Ketilsdóttir, Elísabet Rónaldsdóttir og Katrín Anna Guðmundsdóttir frá stofnun og starfsemi Femínistafélags Íslands. Þær rifja upp stofnfundinn 14. mars 2003, segja frá aðgerðum sem þær tóku þátt í og áhrifunum sem starfsemin hafði á þær sjálfar og samfélagið.
Næstu vikurnar verður svo fjallað um ólík þemu í tengslum við aktívisma, s.s. við berskjöldun í aktívisma, húmor í aktívisma, netaktívisma og aktívisma á tímum bakslags. Þar verður spjallað við femínískar hetjur sem hafa átt sinn þátt í að búa til jafnréttispardísina Ísland, sem enn á þó langt í land til að standi undir nafni.
Markmiðið með þáttunum er tvíþætt: Að segja og varðveita (afmarkað brot af) sögu femínísks aktívisma á Íslandi og að fjalla um aktívisma sem þann mikilvæga hluta lýðræðissamfélags sem hann er. Ekki er svo verra ef þættirnir yrðu hvatning fyrir fólk til að hafa aukin áhrif á nærumhverfi sitt og samfélag.
Nú er bara að bíða og vona að hlustendum þyki þættirnir jafn skemmtilegir og mér.
Bestu kveðjur,
Sóley
Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki