FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


HUGLEIÐING VIKUNNAR: REYKJAVÍKURMÓDELIÐ

OG EFNAHAGSLEGUR VERULEIKI EINSTÆÐRA FORELDRA

Tillögur um svokallað Reykjavíkurmódel hafa hlotið gagnrýni úr ýmsum áttum. Í vikunni var sagt frá umsögn konu um tillögurnar út frá hennar veruleika sem einstæðrar móður í fullri vinnu með takmarkað bakland. Hennar barn er með 42,5 klst. vistun, ekki af því hún vilji ekki verja meiri tíma með barninu sínu, heldur af því að það er tíminn sem það tekur hana að vinna fulla vinnuviku og aka á milli staða. Verði tillögurnar að veruleika mun hún þurfa að greiða tæpar 67 þúsund krónur á mánuði fyrir utan skráningardaga, í stað um 25 þúsund í dag.


AÐSTÆÐUR EINSTÆÐRA FORELDRA


Það þarf ekki flóknar greiningar til að skilja að einstæðir foreldrar eiga erfiðara með að mæta kröfum um styttri dvalartíma á leikskólum. Ef móðirin hér að ofan ætti maka mætti gera ráð fyrir um helmingi styttri ferðatíma og jafnvel auknum sveigjanleika til að grípa bolta eða færa til vinnu. Þannig gæti vistunartími sambúðarfólks í fullri vinnu farið niður í 38 klst. og líkurnar á að þau gætu nýtt afsláttinn sem er í boði ef barnið er búið fyrir kl. 14 á föstudegi eru mun meiri en hjá einstæðum foreldrum. Þetta er samt ekki algilt.

Auk þess eru líkur til þess að einstæðir foreldrar þurfi að nota fleiri skráningardaga en sambúðarfólk, greiða 4000 krónur fyrir hvern og einn þeirra og verða af afslættinum sem veittur er af námsgjaldi fyrir að nýta ekki dagana. Í reiknimódelinu má sjá hvernig kostnaðurinn breytist eftir dvalartíma og þar sem allar breytur eru einstæðum foreldrum í óhag.


FJÁRHAGUR EINSTÆÐRA FORELDRA


Þar sem tillögurnar eru tekju- og aðstæðutengdar, gerir reiknivél módelsins annars vegar ráð fyrir sambúðarfólki og hins vegar einstæðum foreldrum. Hálaunasambúðarfólk er skilgreint með meira en 12,5 mkr á ári og láglaunasambúðarfólk með undir 9,5 mkr á ári. Einstæðir foreldrar eru skilgreindir sem hálauna ef þau eru með yfir 9,5 mkr á ári en láglauna undir 6,5 mkr. Stöldrum aðeins við þetta.

Af hverju eru viðmið um heildartekjur heimilisins ólík eftir aðstæðum? Hvernig er hægt að skilgreina heimili með 9,5 mkr á ári sem hátekjuheimili ef fyrirvinnan er ein, en láglaunaheimili ef fyrirvinnurnar eru tvær? Rástöfunartekjur hjóna af 9,5 mkr eru alltaf hærri en einstæðra foreldra, enda fá þau tvöfaldan persónuafslátt, jafnvel þótt barnabætur og meðlag sé tekið með – eins og sést á meðfylgjandi mynd.

Hvernig má það vera að heimili einstæðs foreldri, með ráðstöfunartekjur upp á 693 þúsund krónur á mánuði eigi að borga 46.744 krónur á mánuði fyrir 40 tíma vistunarviku, á meðan heimili hjóna með 720 þúsund krónur á mánuði myndi borga 27.504 krónur?



MEINGALLAÐ MÓDEL


Ég hef áður skrifað um þetta módel og ég mun alveg örugglega skrifa meira um það. Ég geri mér vel grein fyrir að til eru foreldrar sem verja of litlum tíma með börnum sínum. En við breytum því ekki með rukka fólkið sem er ekki í aðstöðu til að stytta dvalartímann.

Þetta módel er gegnsýrt af kjarnafjölskylduhyggju og mun bitna verst á þeim sem síst skyldi. Fyrir utan áhrifin á einstæða foreldra í dag, getur það átt sinn þátt í að læsa fólk inni í óhamingjusömum hjónaböndum, að ekki sé talað um ofbeldissambödnum.

Ég ítreka því það sem ég hef áður sagt, að það er löngu tímabært að forgangsraða í þágu leikskólanna í Reykjavík. Það þarf að ráða inn fleira fólk til að mæta styttri vinnutíma, það þarf að hækka laun þeirra, tryggja heilnæmar og öryggar aðstæður og sýna því starfi sem þar er unnið tilhlýðilega virðingu. Það er það sem meirihluti borgarstjórnar ætti að einbeita sér að, í stað þess að skera niður enn frekar undir fölskum forsendum.


Bestu kveðjur,

Sóley


Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 24. október 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN!
Eftir soleytomasdottir 10. október 2025
MONT VIKUNNAR: OG SEINNA BÖRNIN SEGJA
Eftir soleytomasdottir 3. október 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: ALLT ER PÓLÍTÍSKT 
ELDRI FÆRSLUR