Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

BIRTINGARMYND VIKUNNAR: LAUNAMISRÉTTI

Launarannsókn Hagstofunnar kom út í vikunni. Ekki hefur farið mikið fyrir henni í fjölmiðlum, helst undir fyrirsögnum um að launamunurinn fari minnkandi og að við þokumst í rétta átt. Þó það nú væri. Launamunur kynjanna hefur verið ólöglegur í 60 ár.
 
Það er eins og samfélagið sé orðið ónæmt fyrir þessu óréttlæti. Það er eins og fólki sé orðið nokkuð sama um þessi örfáu prósent sem eftir eru, það er nú verið að vinna í málinu og svo er bara svo margt annað alvarlegra þegar kemur að kynjamisrétti en launamunurinn.
 
Auðvitað eru til alvarlegri birtingarmyndir kynjamisréttis en launamunur, ég er sammála því. En við getum ekki valið að einblína bara á eitthvað eitt. Við verðum að kljást við allar birtingarmyndirnar á sama tíma, því þær eru samofnar og hafa áhrif hver á aðra.
 
Auk þess eru þessar örfáu prósentur sem við erum orðin svo ónæm fyrir ekkert svo lítið mál þegar nánar er að gáð. Því ef við yfirfærum niðurstöður skýrslunnar yfir á "meðalkonu" með 650 þúsund krónur á mánuði, þá blasir eftirfarandi mynd við:

Meðalkonan er með 225 þúsund krónum lægri atvinnutekjur en meðalkarlinn. Þegar bara laun eru skoðuð m.t.t. vinnutíma (ekki aðrar tekjur, s.s. fjármagnstekjur eða hlunnindi), fær hún 108 þúsund lægri laun en meðalkarl og þegar búið er að taka tillit til samþykktra skýribreyta (s.s. menntunar, starfs og atvinnugreinar) er hún með 30 þúsund krónum lægri tekjur.
 
Konur hafa sumsé ekki sama aðgengi að peningum og karlar. Af ýmsum ástæðum eru þær ekki í störfum sem bjóða upp á hlunnindi, þær vinna minni yfirvinnu og eru í störfum sem ekki eru metin jafnverðmæt og karlar. Þessu þarf að breyta, við þurfum að og jafna tækifærin á vinnumarkaðinum, endurmeta virði kvennastarfa og útrýma launamuninum.
 
Því hvernig sem við reiknum muninn þá er það óumdeilt að konur fá minna greitt fyrir framlag sitt á vinnumarkaði. Jafnvel þegar við tökum allar skýribreyturnar gildar stendur 30 þúsund kallinn eftir. Hann er kannski ekki tiltökumál fyrir konu með 650 þúsund krónur á mánuði. En konur vinna ekki bara í einn mánuð. Þessi þrjátíuþúsund kall safnast upp, eins og sést á meðfylgjandi mynd:

Á einu ári verður þessi meðalkona af 360 þúsund krónum og á 40 ára starfsævi verður hún af 14,4 milljónum króna. Milljónirnar verða svo 52 ef við skoðum óleiðréttan launamun og 108 ef allar atvinnutekjur eru teknar með. Örfáu prósenturnar eru nefnilega ekkert smámál þegar allt kemur til alls - og það þarf að gera eitthvað meira og stærra en þoka málum áfram.
 
Fyrir utan óréttlætið sem í þessu felst, þá er launamunur kynjanna ekki einangrað fyrirbæri. Hann er hluti af valdakerfi samfélagsins. Hann er bæði orsök og afleiðing þess að konur eru frekar hlutastarfi en karlar, fara frekar í fæðingarorlof en karlar og bera með meiri ábyrgð á heimili en karlar. Hann getur verið áhrifaþáttur í ofbeldissamböndum þar sem konur eru fjárhagslega háðar eiginmönnum sínum. Allar birtingarmyndir kynjamisréttis tvinnast nefniega saman og styrkja óbreytt ástand.
 
Við verðum að gera betur. Við verðum að velta við hverjum steini og skoða vandlega hvort ákvarðanir okkar, skýribreytur og verðmætamat sé sanngjarnt og eðlilegt. Því þar liggja ansi margar milljónir. Í okkar ákvörðunum. Breytum þeim.



Bestu kveðjur,

Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: