Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

FRAMFARIR VIKUNNAR: KVÁRAFLOKKUR

Íþróttabandalag Reykjavíkur hefur nú opnað fyrir skráningar í þremur flokkum í hlaupaviðburði 2023; kvennaflokki, karlaflokki og kváraflokki. Þetta er sjálfsagður og eðlilegur hlutur í samfélagi margra kynja. Sumum þykir þetta þó skrítið, öðrum óþarfa umstang fyrir pínulítinn hóp og enn öðrum þykir ósanngjarnt að það sé þá hægt að vinna hlaup í flokki þar sem keppendur eru bara örfáir.



SAGAN

Efasemdarraddirnar gefa tilefni til að rifja upp efasemdarraddir fortíðar. Þegar Kathrine Switzer tók þátt í Boston maraþoninu, fyrst kvenna árið 1967, var bara einn flokkur hlaupara. Þrátt fyrir bein og óbein skilaboð um að hún ætti ekkert með að taka þátt og líkamsárás þar sem reynt var að stöðva hana, til viðbótar við hælsæri og aðrar hefðbundnar áskoranir hlaupafólks lauk hún maraþoninu á 4 klukkutímum og 20 mínútum. Það tók skipuleggjendur aftur á móti fimm ár að bjóða konur velkomnar til leiks, en konur voru formlega samþykktar sem þátttakendur í Boston maraþoninu árið 1972.
 
Sambærilegar sögur er hægt að finna af þátttöku kvenna í knattspyrnu, glímu, skíða- og stangarstökki. Þegar konur ögruðu viðmiðinu um að þessar íþróttagreinar væru bara fyrir karla voru allskonar rök notuð gegn þeim. Rök sem okkur þykja hlægileg í dag. Þær þóttu ekki nógu sterkbyggðar, hvorki andlega né líkamlega. Íþróttirnar gátu skert möguleika þeirra til barneigna, brotið mjaðmagrindur eða losað um legið. Fyrir liggur hellingur af heimildum um allt þetta rugl.


SAMTÍMINN

Í dag höfum við áttað okkur á að kynin eru ekki bara tvö. Hvorki líkamlega né félagslega. Litningasamsetning fólks er miklu fjölbreyttari en grunnskólafræðin um XX eða XY, kynfæri eru miklu fjölbreyttari en tippi eða píka, hormónarnir eru miklu blandaðari en estrógen eða testósterón og félagsleg upplifun fólks af kyni er miklu fjölbreyttari en staðalmyndir tvíhyggjunnar veita svigrúm fyrir. Og þegar þekkingin liggur fyrir, þurfum við að aðlaga samfélagið að henni.
 
Lög um kynrænt sjálfræði gera ráð fyrir möguleikanum á hlutlausri kynskráningu og þar með þurfa allar stofnanir samfélagsins að gera það líka. Menntakerfið, íþróttirnar, menningargeirinn, heilbrigðiskerfið, stjórnmálin og allt hitt. Við þurfum að aðlaga klósett, búningsklefa, tungumál, orðræðu, hópaskiptingar og hugmyndir okkar varðandi allskonar hluti, s.s. heilbrigði, fjölskyldur, viðmið og frávik.


FRAMFARARSKREFIÐ

Það er eðlilegasti hlutur í heimi að keppt sé í þremur flokkum í íþróttum. Flokkarnir verða misstórir og það verður aðeins meira stúss og umstang og kannski verða einhver mistök gerð, en það er víst það sem gerist þegar samfélög breytast. Þegar fjölbreytileikinn verður sýnilegur og fólk gerir kröfur um að tekið sé tillit til fjölbreyttra þarfa, áhugamála og sjónarmiða.

Til viðbótar við þessar áskoranir þarf svo að takast á við efasemdarraddirnar og fræða fólk um fjölbreytileikann. Útskýra fyrir þeim sem ekki tilheyra jaðarhópum hvað það er mikilvægt að allt fólk geti þroskað hæfileika sína, stundað áhugamál og tekið virkan þátt í samfélaginu. Það tilstand er þó mun minna og hefur sannarlega minni áhrif á líf, tækifæri og líðan fólks heldur en útilokun og mismunun þeirra hópa sem málið snýst um.

Ef við viljum inngildandi samfélag, þar sem fólk getur tekið virkan þátt, bæði vegna sérstöðu sinnar og þrátt fyrir sérstöðu sína, þá þurfum við stöðugt að vera að læra, breyta, þróa og aðlaga. Kváraflokkurinn er lítið en mikilvægt skref í þá átt.


Bestu kveðjur,


Sóley


Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: