Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

HUGTAK VIKUNNAR: GLERBRÚNIN (E. GLASS CLIFF)

Stundum mynda aðstæður sprungur í glerþakið, sem alla jafna veitir þó nautsterka vörn gagnvart konum á framabraut. Sér í lagi á þetta við í krísum, þegar karlarnir eru búnir að klúðra svo rækilega að fáir þeirra treysta sér í tiltekt. Þá þykir ekki eins fjarstæðukennt að fá konu til verksins, eins og fjölmörg dæmi úr stjórnmálum og atvinnulífi um allan heim sanna. Á Íslandi er hægt að nefna Jóhönnu Sigurðardóttur sem varð forsætisráðherra eftir hrun, Helgu Jónsdóttur sem varð forstjóri Orkuveitunnar eftir REI-skandalinn og Vöndu Sigurðardóttur sem varð formaður KSÍ eftir #metoo-skandalinn. Allar voru þær fyrstar kvenna til að gegna þessum embættum.
 
Þessum konum hefur farnast vel, enda lögðu þær blóð, svita og tár í endurreisn þeirra stofnana sem þær voru í forsvari fyrir, bæði rekstrarlega og ímyndarlega. En það hefði alls ekki þurft að fara þannig. Þær tóku við fordæmalausum aðstæðum og hefðu auðveldlega getað gefist upp gagnvart verkefninu. Þeim hefði líka getað mistekist. Áhættan sem fylgdi því að taka við embættum á þessum tímapunkti var mun meiri en áhættan sem forverar þeirra tóku. Þær fóru hættulega nálægt ystu brún til að bjarga því sem bjargað yrði.


Það fór ekki jafn vel fyrir Liz Truss, sem í gær sló Bretlandsmet í stuttri setu á forsætisráðherrastóli. Henni mistókst að endurvekja traust og trúnað eftir langvarandi krísu í breska íhaldsflokknum.


HUGTAKIÐ

Hugtak vikunnar, glerbrúnin, lýsir nákvæmlega þessu: Þegar konur eru líklegri en karlar til að vera ráðnar í embætti í krísu eða niðursveiflu, af því þá er hættan á mistökum mest. Fyrirbærið skýrist af mörgum samverkandi þáttum, m.a. mörkunum milli áhættusækni og fórnfýsi, þegar áhættan er orðin of mikil fyrir hefðbundnar karlmennskuhugmyndir er ekkert annað í sækja en fórnfýsi hefðbundinna kvenleikahugmynda.
 
Það sem veikir stöðu þessara kvenna enn frekar er svo gagnrýnin og tortryggnin sem þær mæta. Það er vel þekkt að konur í stjórnunarstöðum mæta harðari og persónulegri gagnrýni en karlkyns kollegar þeirra og það þarf minna til að afsagnar þeirra sé krafist. Og tilfellin þegar konunum mistekst eða þær hætta, eru svo nýtt sem dæmi um að konur standi einfaldlega ekki undir sömu ábyrgð og karlar.


TIL VIÐBÓTAR

Allt þetta, ásamt hefðbundnum karllægum gildum sem enn eru nátengd stjórnunar- og ábyrgðarhlutverkum, vinnur saman að því að viðhalda ríkjandi valdakerfi, þar sem vald, ábyrgð og fjármagn er frekar í höndum karla en kvenna. Ábyrgð kvenna á umönnunar- og heimilisstörfum þegar hefðbundnum vinnudegi lýkur og utanumhaldi með öllu þessu þegar húsið er hreint og börnin sofnuð bætir svo gráu ofaná svart.
 
Rannsóknir benda beinlínis til flótta kvenna úr stjórnunarstöðum, m.a. vegna neikvæðra viðhorfa, ósveigjanleika, mismununar og lítilla möguleika á framþróun í starfi. Ný skýrsla McKinsey sýnir að fyrir hverja 100 karla sem fá stöðuhækkun eru aðeins 87 konur, og aðeins 82 brúnar og svartar konur. Tölurnar lækka enn frekar eftir því sem bætist við jaðarsetninguna, s.s. vegna fötlunar, tungumálakunnáttu eða líkamsgerðar.



LÆRDÓMURINN

Við þurfum öll að vera meðvituð um áhrif gamaldags hugmynda um karlmennsku og kvenleika og tilhneigingu okkar til að treysta körlum og tortryggja konur. Við þurfum að aðlaga öll störf vinnumarkaðarins að fjölbreyttum bakgrunni fólks, bæði vegna félagsmótunar kynja, tungumálakunnáttu, fjölbreyttrar hæfni, fjölbreyttra skoðana, tungumálakunnáttu, líkamsgerðar og áherslna. Við þurfum að vera gagnrýnin á hefðbundin viðmið og gildi í starfslýsingum, verðmætamati og virðingu og ögra þannig valdakerfinu með ráðum og dáð.


Bestu kveðjur,


Sóley


Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: