Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

HUGLEIÐING VIKUNNAR: FJÓRÐA VAKTIN

Þriðja vaktnin hefur verið talsvert til umfjöllunar að undanförnu. Sjálf skrifaði ég um fyrirbærið í sumar og hjónin Þorsteinn Einarsson og Hulda Tölgyes hafa fjallað með opinskáum hætti um eigin reynslu af hlutverkaskiptingu á heimilinu. Talsverðar umræður hafa átt sér stað á vinnustöðum og VR hefur staðið fyrir vitundarvakningu um málið. Það er löngu tímabært að skilgreina, skilja og meta allt framlag kvenna til heimilishalds, fjölskyldulífs og samfélagsins alls.

 

Þessi vitundarvakning er rökrétt næsta skref kvennabaráttunnar sem hefur sannarlegaleitt til skilgreiningar, skilnings og endurmats á kvennastörfum í gegnum tíðina. Þó hjúkrun, umönnun, þrif og barnauppeldi njóti enn ekki sannmælis þegar horft er til launadreifingar í samfélaginu hafa störfin verið viðurkennd og skilgreind.

 

Þetta gerðist ekki af því að karllæg stjórnmál eða karllæg verkalýðshreyfing þess tíma tækju það upp hjá sjálfum sér. Það er sömu sögu að segja um þetta og önnur framfaramál í þágu jafnréttis: Hugrakkar og sterkar konur vörðu ómældum tíma og orku i að rökstyðja, útskýra, semja og sannfæra fólk um mikilvægi og verðmæti kvennastarfa. Þeim eigum við mikið að þakka.

FJÓRÐA VAKTIN

Langflestar þessarra hugrökku og sterku kvenna hafa gert það samhliða fyrstu vaktinni (launaðri vinnu), annarri vaktinni (skilgreindum heimilisstörfum) og þriðju vaktinni (óskilgreindum heimilisstörfum). Þær hafa unnið þessa vinnu ólaunað og jafnan hlotið meira last en lof fyrir baráttu sína. Eftir á að hyggja erum við flest þakklát konunum sem söfnuðu fyrir Barnaspítala Hringsins, skipulögðu kvennaverkfallið 1975, stofnuðu Kvennaathvarf og Stígamót, en á meðan á því stóð nutu þær engra sérstakra vinsælda.

 

Og nú, þegar við eigum enn langt í land í að jafnréttisparadísin okkar standi undir nafni, er fjórða vaktin stór hluti af lífi margra kvenna. Hvert einasta framlag í samfélagsmiðlabyltingum undanfarinna ára hefur tekið á og skipulag þeirra og utanumhald hefur kostað bæði tíma og orku kvenna. Þórhildur Gyða og Hanna Björg sem knúðu KSÍ í uppgjör, Öfgahópurinn sem hefur haldið uppi beittri og upplýsandi umræðu í kjölfarið og femínískar konur sem hafa verið til taks fyrir karla sem eru að reyna að axla ábyrgð hafa unnið alla þessa vinnu í sjálfboðavinnu.

GEFANDI?

Í gegnum tíðina hefur ólaunuð vinna kvenna verið réttlætt með því að hún sé svo gefandi. Það er auðvitað gefandi upp að vissu marki að hjúkra veikum, sjá börn vaxa úr grasi og eiga hreint og fallegt heimili, en þó má deila um hvort það sé nóg þegar svefnlausar nætur, óþekktarköst og líkamsvessaþrif eru tekin inn í myndina.

 

Að sama skapi má velta því fyrir sér hversu gefandi það sé að standa í kvennabaráttu. Vissulega hefur hún skilað okkur fullt af réttindum, en þau hafa verið á kostnað andlegrar og líkamlegrar heilsu allt of margra kvenna. Framlag og fórnir þeirra kvenna sem hafa skilað okkur sjálfsögðum réttindum verður væntanlega ekki metið til fjár. En það þýðir ekki að konurnar sem nú standa í ströngu eigi að búa við sömu skilyrði.

 

Sjálf vinn ég við að veita fræðslu og ráðgjöf á sviði jafnréttis- og fjölbreytileikamála. Ég verðlegg mig hátt enda bý ég yfir dýrmætri þekkingu og reynslu. Það gera líka Þórhildur Gyða og Hanna Björg og Öfgahópurinn og allt hitt fólkið sem stendur í ströngu. Þau ættu ekki að standa í baráttunni launalaust eftir að hinum þremur vöktunum lýkur. Þau ættu að vera á launum frá ríkinu. Að minnsta kosti KSÍ og öðrum karllægum stofnunum sem njóta nú góðs af þeim mikilvægu og löngu tímabæru ábendingum sem verið er að vinna úr.

 

Þetta var lokahugleiðing ársins. Takk fyrir lesturinn á árinu og megi nýtt ár verða okkur öllum gott.

 

Gleðileg jól!

 

Sóley


Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: