Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

ÁSTÆÐUR VIKUNNAR: HUGSJÓNIR, HAGSMUNIR EÐA FAGLEGT MAT?

Gleðilegt ár kæru lesendur og takk fyrir frábærar viðtökur á því gamla. Ég mun halda ótrauð áfram, enda hollt og gott. Ég mæli mjög með því að enda vikuna á að taka soldið til í hausnum með því að koma hugsunum niður á blað. En nóg um það.
 
Ég er búin að marglofa sjálfri mér að skrifa um eitthvað annað en kynbundið ofbeldi, en stenst svo ekki mátið, enda er samfélagið á fullri ferð inn í framtíðina og ég hef varla undan að reyna að greina og skilja.
 
Í gær var fimm valdakörlum vikið frá störfum. Það gerðist tveimur dögum eftir að viðtal Eddu Falak við Vítalíu Lazarevu um hátterni mannanna sem minnti einna helst á fjórmenningana úr norsku þáttunum Exit. Þarna virðist hafa verið stjórnlaust tilkall (
e. entitlement) á ferð þar sem þarfir, vilji og tilfinningar annars fólks en þeirra skiptu ekki máli.
 
Samfélagsmiðlabyltingarnar hafa gert meira en að valdefla þolendur. Það er að eiga sér stað hugarfarsbreyting. Í dag skilur fleira fólk eðli, umfang og óréttláta meðferð kynferðisbrota og leggur sig fram um að hemja í sér gerendameðvirknina. Það er fleira fólk sem trúir þolendum og veit að „saklaus uns sekt er sönnuð“ var skrifað áður en fólk fattaði að lögfræði þyrfti líka að ná til flókinna glæpa sem eiga sér oftast stað í skjóli friðhelgi einkalífs.

AF HVERJU?

Ég veit ekki hvaða ástæða býr að baki ákvörðun fyrirtækjanna um að láta fimmmenningana víkja. Mögulega einlæg sannfæring og vilji til að standa með þolendum. Ég veit að það eru til stjórnendur og fyrirtæki sem leggja sig fram um það.
 
En kapítalisminn er líka næmur á samfélagið og veit hvað til síns friðar heyrir. Hann skilur að tilkall karla til kvenna, til að skilgreina sannleikann og til að komast upp með ósæmilegt athæfi er ekki lengur óumdeilt. Þar með eru meintir gerendur í áhrifastöðum allt í einu farnir að ógna ansi dýrmætum viðskiptahagsmunum.
 
Þess utan má velta fyrir sér hæfni meintra gerenda í ljósi frásagnar Vítalíu. Ef þetta er þeirra viðhorf til kvenna, þá hlýtur það að hafa áhrif á þeirra daglegu ákvarðanir sem stjórnendur. Þeir hafa vald yfir fólki, fjárfestingum, launum, starfsaðstæðum og ábyrgðardreifingu. Saga Vítalíu gefur fullt tilefni til að efast um hæfni þeirra til að sinna þeim störfum af sanngirni og réttlæti. Kannski var ákvörðunin einfaldlega á faglegum nótum í ljósi þessa?
 
Hver sem ástæða fyrirtækjanna var, þá er ágætt fyrir okkur hin að velta þessu fyrir okkur. Gerendur eru úti um allt og einhver okkar gætu mögulega lent í þeirri stöðu að þurfa að taka afstöðu um svona mál í vinnunni. Vonandi verður þessi hugleiðing fóður í þá ákvörðun, að hún verði metin út frá sanngirnissjónarmiðum, út frá viðskiptasjónarmiðum og út frá faglegum sjónarmiðum um hæfni.

HVAÐ SVO?

Ég veit að það kemur bakslag. Þessir menn eru ekki gufaðir upp. Þeir munu mögulega snúa til baka án þess að hafa neitt fyrir neinu. En ég ætla samt að leyfa mér að vona að það sé eitthvað að breytast. Að þeir líti í eigin barm og finni út hvernig þeir geti breytt viðhorfum sínum, hegðun og framferði þannig að þeir geti aftur áunnið sér traust fyrirtækja og almennings.
 
Bestu kveðjur,
 
Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: