FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA
Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
HUGLEIÐING VIKUNNAR: TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN!
Kvennafrídagurinn 1975 lagði grunn að kvennabaráttu sem hefur æ síðan verið háð í gegnum stjórnmál, atvinnulíf, fjölmiðla, menntakerfi og fjölbreytt grasrótarsamtök. Ég fyllist reglulega stolti og innblæstri við tilhugsunina um ömmu og mömmu og allar hinar konurnar sem stóðu að þessari stórkostlegu aðgerð. Hún er mér hvatning enn þann dag í dag og hún hefur skilað mér ómetanlegum réttindum.
Á þessum 50 árum hefur samfélagið gjörbreyst. Ekki af sjálfu sér, heldur vegna þrotlausrar baráttu kvenna og jaðarsetts fólks sem hefur brotist út úr viðjum feðraveldisins og krafist viðurkenningar, þátttöku, virðingar og réttinda. Femínískir aktívistar komu konum í þær valdastöður sem paradísin hreykir sér af í dag - og það voru jaðarsettir aktívistar bjuggu til jafnréttisparadís þar sem konur, kvár, hinsegin fólk og fatlað fólk hefur það betra en víða annars staðar.
BAKSLAG
Á þeim áratugum sem ég hef tekið þátt í femínískum aktívisma hef ég að sjálfsögðu tekist á við bakslög, en aldrei neitt í líkingu við það sem nú er að eiga sér stað. Að hér í jafnréttisparadísinni séu að rísa upp öfl sem markvisst reyna að endurvekja forneskjuleg kynhlutverk og ala á andúð og tortryggni gagnvart jaðarsettu fólki er þyngra en tárum taki.
Þetta bakslag verður að stöðva með öllum tiltækum ráðum. Meðal annars með gagnræðuaðferðum Samtakanna 78, sem ganga út á að svara rangfærslum með staðreyndum, upphrópunum með yfirvegun, ókurteisi með kurteisi, afmennskun með manneskjuvæðingu, vantrausti með trú á fólki og neikvæðni með jákvæðini. Að sama skapi er mikilvægt að greina og afhjúpa pólítískt hundaflaut þegar það á sér stað og reyna að hefta útbreiðslu þess.
ÁFRAM VEGINN
Fyrst og fremst þurfum við samt að halda baráttunni áfram, eigi paradísin að standa undir nafni. Við verðum að tryggja frelsi og öryggi fyrir okkur öll. Uppræta kynbundið ofbeldi, endurskoða verðmætamat, brjóta upp staðalmyndir, læra og skilja flókin valdatengsl sem viðhalda jaðarsetningu allra þeirra sem ekki falla undir hið viðtekna. Við verðum að axla ábyrgð á alþjóðavettvangi, taka vel á móti fólki sem hingað kemur og vera góð hvert við annað.
Höldum ótrauð áfram, treystum böndin og vinnum saman. Gerum hvað við getum til að komandi kynslóðir verði jafn stoltar af því sem við erum að gera og ég er af afrekum formæðra minna. Mamma hreinsaði sannalega til og ég mun halda því áfram.
Bestu kveðjur,
Sóley
Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


