Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

HUGLEIÐING VIKUNNAR: LATIR FORELDRAR EÐA ÁBYRGT SAMFÉLAG?

Kristín systir mín hefur staðið í ströngu undanfarnar vikur, komin með nóg af því að borgaryfirvöld segist ætla að brúa bilið milli leikskóla og fæðingarorlofs, sendi út bréf um innritun barna sem raungerist svo ekki og ætlist til þess að foreldrar sýni þungu og óskilvirku kerfinu skilning. Hún segist sjálf ekki vera nein sérstök áhugakona um leikskóla, innritun eða borgarpólítík, er bara komin með nóg af virðingarleysinu sem hún upplifir af hálfu kerfisins og stjórnmálanna.


Í kjölfarið hafa farið fram umræður um leikskólamál vítt og breitt og á allskonar ólíkum forsendum. Samtök atvinnulífsins óttast ekkert meira en að geta ekki nýtt sem allra flestar vökustundir foreldra, leikskólakennarar hafa áhyggjur af því að gefinn verði afsláttur af fagstarfi og allskonar efasemdaraddir heyrast nú sem endranær um hvort það sé virkilega hollt fyrir börn að alast upp á stofnunum.


LÖTU FORELDRARNIR

Neikvæð umræða um stofnanauppeldi er eldri en stofnanirnar sem um ræðir og þó hún hafi tekið breytingum er tortryggnin enn til staðar. Hún virðist þó einna helst gjósa upp þegar foreldrar reisa kröfur um að þjónustan sé til staðar, sé skilvirk og mæti þörfum barnafjölskyldna.


Núna, þegar foreldrar setja fram þá einföldu kröfu að börnin hefji leikskólagöngu á þeim tíma sem lofað var í innritunarbréfi síðasta vetur, upphefst umræðan um af hverju þau krefjist ekki frekar lengra fæðingarorlofs og hvort það sé í alvörunni hollt fyrir börn að vera í 8 tíma á dag á leikskólum. Ég get ekki talið skiptin sem ég hef heyrt fólk segja að því fylgi ábyrgð að eignast börn. Það sé óþolandi óábyrgt að börn séu geymd á stofnunum á virkum dögum, í barnapössun World Class á kvöldin og Smáralindar um helgar. Hvað komi næst? Næturleikskólar? Vöggustofur? Eins og foreldrar sem þurfa að vinna til að sjá fyrir sjálfum sér og börnunum sínum séu ekki að sýna ábyrgð.



ÁBYRGT SAMFÉLAG

Það er óþolandi að lítil sem engin þróun hafi átt sér stað frá leikskólabyltingu Reykjavíkurlistans fyrir síðustu aldamót. Að bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla hafi ekki enn verið brúað. Sjálf ber ég þar ákveðna ábyrgð, enda var ég borgarfulltrúi í 10 ár og lagði ekki nógu ríka áherslu á málaflokkinn, frekar en aðrir borgarfulltrúar. Það er eitt af því sem ég sé eftir og hefði viljað gera betur.


Í ábyrgu samfélagi þurfum við að axla sameiginlega ábyrgð á börnum. Við þurfum að hanna fæðingaorlof, leikskóla, vinnumarkað og félagslíf út frá barnvænum mælikvörðum. Börn eiga að geta treyst á faglega leikskóla frá því fæðingarorlofi sleppir, vinnuvikan þarf að vera nægilega stutt til að foreldrar geti sinnt sjálfum sér, börnum sínum og vinnuskyldum án þess að sligast undan álagi. 


Við sköpum ábyrgt samfélag með því að afbyggja mýtur nýfrjálshyggjunnar um frelsi, val og ábyrgð einstaklinga. Með því að hanna kerfi þar sem börn fá fyrsta flokks þjónustu af hendi vel menntaðs fólks á góðum launum og nýtur samvista við foreldra þess á milli. Til að svo geti orðið þurfum við að horfast í augu við ójafna verkaskiptingu á heimilum, afbyggja mæðraskömmun og samfélagslega kynjuð foreldrahlutverk, hækka lægstu laun, endurmeta kvennastörf, tryggja sómasamlegar starfsaðstæður og vinnutíma verkafólks og almennt forgangsraða fjölskylduvænni, femínískari og félagslega réttlátum verkefnum framar á vettvangi stjórnmálanna.


Þó Kristínu systur hafi tekist að þoka málum áleiðis í bili er nóg eftir.


Bestu kveðjur,


Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: