Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

SAMTENGING VIKUNNAR: EN...

Það er töff að vera femínisti í dag. Vera meðvituð um valdakerfið, fordæma rasisma, hómófóbíu og fötlunarfordóma.

Ég þekki ekkert fólk sem gengst með stolti við því að vera karlremba eða rasisti. Að vilja leggja sig fram um að spyrna gegn réttindabaráttu eða réttlátara samfélagi. Ég veit ekki um neina manneskju sem telur launamun kynjanna eiga rétt á sér, enga sem telur kynbundið ofbeldi vera eðlilegt og enga sem segir að svart og brúnt fólk sé að upplagi verra en hvítt. Ég þekki ekki fólk sem vill loka hinseginsamfélagið eins og það leggur sig inni í skáp eða fatlað fólk á stofnunum. Það gerist afar sjaldan, eiginlega bara aldrei, að fólk setji fram slíkar skoðanir opinberlega.



HVAÐ ER ÞÁ MÁLIÐ?

Þrátt fyrir þetta þrífast fordómar, útilokun, mismunun og ofbeldi í íslensku samfélagi. Allt of oft heyrast réttlætingar á að einhver tiltekinn karl eigi að vera á hærri launum en tiltekin kona af því hann sé hæfari, kjarkaðari, beri meiri ábyrgð eða jafnvel sé fyrirvinna. Allt of oft heyrast tortryggniraddir gagnvart tilteknum þolendum á borð við „saklaus uns sekt er sönnuð“ og „ég þekki hann og veit að hann myndi aldrei beita ofbeldi“. Svart og brúnt fólk mætir alls konar fordómum á vinnumarkaði, af hálfu lögreglu og almennings. Biðlistar eftir kynleiðréttingaraðgerðum eru lífshættulega langir sem er afleiðing forgangsröðunar stjórnvalda og heilbrigðiskerfis. Allt of oft koma fram efasemdir um hæfni fatlaðs fólks á vinnumarkaði, í skólum eða jafnvel varðandi fjölskylduábyrgð. Þetta eru bara nokkur dæmi um atriði sem viðhalda og styrkja mismunun, útilokun og ofbeldi í safmélaginu.



EN...

Ekkert af ofantöldu er gert í nafni karlrembu, rasisma, transfóbíu eða fötlunarfordóma. Þvert á móti fullyrðir fólk oft, á sama tíma og það opinberar fordóma sína, að það sé nú ekki karlremba/rasisti/hómófób/fötlunarfób, en...

Bjarni Benediktsson greiddi atkvæði gegn núgildandi þungunarrofslögum með orðunum:
„Mér finnst kvenfrelsið skipta gríðarlega miklu máli og það á að vera meginþráður í meðferð þessara mála en mér finnst samt kvenfrelsi ekki trompa hvert einasta annað álitamál sem upp kemur í þessum efnum.“ 

Í vikunni sagðist bæjarstjórn Hafnarfjarðar ekki vilja taka á móti fleira fólki í leit að alþjóðlegri vernd en tók jafnframt fram:
„Hafnarfjarðarbær skorast alls ekki undan þátttöku í verkefninu og vill sinna því vel áfram með hagsmuni flóttafólks og hælisleitenda að leiðarljósi. Ríkið verður hins vegar að standa undir sinni ábyrgð í málinu og koma til móts við bæjarfélögin sem hafa tekið að sér þessi verkefni.“

Sigmundur Davíð segist vera að verja hagsmuni trans fólks þegar hann berst gegn kynleiðréttingaraðgerðum. Allskonar karlar segja femínista skaða femínískan málsstað. Allskonar fólk segist ekki vera á móti réttindum fatlaðs fólks en Freyja Haraldsdóttir geti samt ekki verið hæf móðir.


SAMFÉLAGSSÁTTMÁLINN OG SJÁLFSMYND OKKAR

Á sama tíma og við gerðum með okkur samfélagssáttmála um að það sé töff að vera samfélagslega ábyrg og réttsýn og jákvæð gagnvart réttindum minnihlutahópa hefur sjálfsmynd okkar skekkst. Við trúum því einlæglega að við séum góð og meðvituð og pólítískt réttsýn. Og til að styrkja þá trú tökum við fram að þegar við komum fram með útilokandi, mismunandi eða jafnvel ofbeldisfullum hætti, þá sé það ekki af ásettu ráði. Það sé undantekning og hafi ekkert með valdakerfið að gera.

Við þurfum að reyna að leiðrétta þetta. Vera meðvituð um að allir okkar fordómar og allar okkar ákvarðanir hafa áhrif á valdakerfið. Það skiptir engu máli hver ætlun okkar er ef hegðun okkar viðheldur og/eða styrkir mismunun, útilokun eða ofbeldi. Hættum að afsaka okkur, tökum ábendingum fagnandi og leitumst við að vera fólkið sem við viljum svo gjarnan vera.


Bestu kveðjur,


Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: