Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

HUGLEIÐING VIKUNNAR: VINNAN MÍN

Ég er í skemmtilegasta starfi í heimi. Ég vinn við að tala við fólk um það sem mér finnst mikilvægast af öllu, við fólk sem hefur áhuga og vilja til að stuðla að auknu jafnrétti í samfélaginu. Þessari viku hef ég varið í námskeið og fyrirlestra á Íslandi og eins og alltaf hef ég lært að minnsta kosti jafn mikið og fólkið sem ég er að kenna.

MAGN OG GÆÐI

Tvennt hefur vakið sérstaka ánægju í vikunni, en það hefur jafnframt vakið mig til umhugsunar um magn og gæði.

Á miðvikudaginn hélt ég 40 mínútna erindi fyrir starfsfólk RÚV um öráreiti. Ég vil helst aldrei halda svona stutt erindi af því mér finnst þau að jafnaði of yfirborðskennd til að geta skilað árangri. Ég vil skapa aðstæður til að tengja saman viðfangsefni, ræða allskonar fleti og birtingarmyndir og hafa til þess langan tíma. Lengdin kom þó ekki að sök hjá RÚV, þvert á móti virtust þau bara hafa þörf fyrir smá aðstoð við að átta sig á fyrirbærinu og mér skilst að fjörugar og mikilvægar umræður hafi átt sér stað á vinnustaðnum nokkuð stöðugt síðan þá.

Í gær hélt ég svo lokastarfsdag í lengsta námskeiði sem ég hef haldið. Undanfarna fimm mánuði hefur allt starfsfólk þjónustu- og nýsköpunarsviðs (ÞON) Reykjavíkurborgar farið í gegnum vefnámskeið Just Consulting með reglulegum upprifjunum og umræðufundum. Í gær hittust þau svo í Iðnó og æfðu sig að nota þá þekkingu sem þau hafa aflað sér til að leysa úr raunhæfum verkefnum. Það hefur verið mögnuð upplifun að fylgjast með þeim læra og tileinka sér allskonar fleti á þekkingunni og gærdagurinn var ekki bara lærdómsríkur heldur líka stórskemmtilegur.

Ég er viss um að RÚVarar munu halda áfram að tala um og forðast öráreiti og að starfsfólkið á ÞON muni vinna að inngildandi vinnustaðarmenningu til framtíðar.

HLIÐARSAGA: MÍN EIGIN ÓMEÐVITAÐA HLUTDRÆGNI

Ég hef ótal sinnum talað um mikilvægi þess að við tökum ekki þátt í að viðhalda rasískum staðalmyndum með því að tala um svart og dökkt sem neikvætt. Ég forðast að nota orð á borð við svarta lista, svarta sauði, hvítbækur og fleira í þeim dúr.


Á starfsdeginum í gær var mér svo bent á að meðal karaktereinkenna sem ég bauð upp á að yrði notað í verkefninu í gær var einkennið „svartsýni“. Ég fylltist þakklæti og bjartsýni á meðan ég fylgdist með þátttakendum hjálpast að við að pilla svartsýnisspjaldið úr bunkunum sínum og halda áfram að bæta heiminn.

BLESS Í BILI

Nú fer ég heim og held áfram að þróa og hugsa og finna leiðir til að hjálpa vinnustöðum að bæta menninguna sína með tilliti til jafnréttis og fjölbreytileika. Ég hef lært helling; mun ekki streitast eins mikið á móti næsta stutta erindi sem ég verð beðin að halda, vinna úr athugasemdum og bæta námskeiðin mín – og umfram allt: segja bölsýni eða neikvæðni í stað svartsýni.

Bestu kveðjur,


Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: