Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

MÝTA VIKUNNAR: JAFNRÉTTISPARADÍSIN ÍSLAND

Mörg okkar fygjast skelfingu lostin með þróun mannréttindamála í Bandaríkjunum þessa dagana. Ef hæstiréttur ákveður að ógilda dóm Roe gegn Wade frá 1973 úr gildi eru líkur á að 26 ríki muni banna eða hefta aðgengi að þungunarrofi. Réttindi til yfirráða yfir eigin lífi og líkömum, sem flest okkar telja sjálfsögð, munu þá skerðast gríðarlega. Við slíkar aðstæður má sannarlega fagna nýsamþykktum lögum sem tryggja löngu tímabær réttindi fólks til að stýra eigin lífi og líkömum.

EN SAMT

Réttindi til þungunarrofs eru til komin vegna langrar þrautargöngu fjölmargra kvenna sem létu sig hafa það að vera kallaðar lauslátar og siðspilltar og barnamorðingjar úti á götu. Grasrótarstarf Rauðsokkanna skilaði sér að lokum inn á Alþingi þar sem lög um fóstureyðingar voru samþykkt árið 1973.

Umfangsmiklar réttarbætur náðust svo fram árið 2019 þegar lög um þungunarrof voru samþykkt, þar sem tímabilið var rýmkað og sjálfsákvörðunarrétturinn styrktur. Þau lög féllu ekki heldur af himnum ofan og mættu sannarlega andstöðu, í þingsal sem og í samfélaginu almennt. Lögin voru samþykkt eftir miklar og erfiðar umræður með 40 atkvæðum gegn 18. Átján þingmenn voru andvígir sjálfsákvörðunarréttinum yfir eigin líkama, þar með talið núverandi fjármálaráðherra, dómsmálaráðherra og forseti Alþingis.

MÝTAN

Bandarískir hæstaréttardómarar eiga nefnilega skoðanasystkin meðal kjörinna fulltrúa í jafnréttisparadísinni. Hitt stjórnmálafólkið, þau sem almennt vilja jafnrétti og öruggt og gott samfélag, láta sig jafnréttismál að jafnaði lítið varða. Þau bregðast við þegar pressan frá aktívistum verður óbærileg, en þess á milli einbeita þau sér að hefðbundnum karllægum stjórnmálum.

Yfirstandandi kosningabarátta er gott dæmi um þetta. Þrátt fyrir háværa kröfu þolenda og aktívista um öryggi, úrræði og fyrirbyggjandi aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi er aðeins einn flokkur með skýra stefnu í málaflokknum. Innihaldsrýra frasa má finna hjá sumum framboðanna, en restin minnist hvorki á jafnrétti né kynbundnið ofbeldi.

ÞÖGNIN

Skortur á jafnréttisáherslum í pólítík er vanvirðing við baráttu aktívista. Vanvirðing gagnvart kröfunum sem hafa verið reistar um fyrirbyggjandi aðgerðir og úrræði, en ekki síður fyrir pólítískri forgangsröðun þeirra. Að bjóða ekki upp á valkost fyrir stóran hóp fólks (sem að uppistöðu til eru ungar konur) er til marks um að atkvæði þeirra skipti ekki máli.

Þögnin er til marks um eins konar samþykki. Að samfélagið sé bara alveg nógu gott eins og það er og að skoðanasystkin hæstaréttardómaranna megi bara hafa skoðanir sínar í friði. Þannig er þögnin beinlínis hættuleg. Hún lætur skoðanasystkini hæstaréttardómaranna óáreitt og gefur þeim andrými til að leggja á ráðin um hvaða réttindi skuli afnumin ef þau komast til valda.

ÁSKORUN

Við verðum að læra af því sem er að gerast í Bandaríkjunum og koma í veg fyrir að sama þróun eigi sér stað hér. Við verðum öll að vera meðvituð um að pólítískar ákvarðanir geta ýmist stuðlað að auknu jafnrétti, óbreyttu ástandi eða afturför. Kjörnir fulltrúar þurfa að horfast í augu við að allt þeirra starf er kynjað. Fjölmiðlafólk og kjósendur þurfa að halda frambjóðendum við efnið.

Vika er langur tími í pólítík og það er einmitt vika í kosningar. Á þeirri viku gætu frambjóðendur auðveldlega sett fram og kynnt stefnu um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi og úrræði fyrir gerendur og þolendur svo einhver dæmi séu nefnd. Ég skora á framboðin að nýta þennan tíma vel og kynna fyrir okkur það sem þau hyggjast fyrir. Og ég skora á lesendur að kynna sér stefnu framboðanna vel og spyrja frambjóðendur sem á vegi þeirra verða spjörunum úr.


Bestu kveðjur,
Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: