FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA
Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
HUGTAK VIKUNNAR: JAQ-ING OFF
Í námskeiðunum mínum hef ég fram til þess gengið út frá því að fólk vilji hvorki útiloka né mismuna. Ég hef lagt áherslu á að fyrirbyggja útilokun og mismunun með því að fræða fólk um ómeðvitaða hlutdrægni og hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að hún hafi áhrif á hegðun okkar og framkomu.
Bakslag undanfarinna missera kallar þó á breytta nálgun. Á sama tíma og við verðum að vera meðvituð um okkar eigin ómeðvituðu hlutdrægni og fordóma þurfum við að standa keik gegn uppgangi öfgahægris. Við verðum að skilja hvernig alið er á andúð og hatri gagnvart jaðarsettu fólki, þekkja aðferðirnar sem notaðar eru og læra leiðir til að bregðast við, leiðrétta og standa með þeim hópum sem verða fyrir árásum hverju sinni.
NÝ NÁMSKEIÐ
Í sumar hef ég verið að þróa nýja fræðslu sem gengur fyrst og fremst út á að bregðast við fyrrnefndu bakslagi. Þar fjalla ég um aðferðafræði og áherslur öfgahægrisins og leiðir til að draga úr áhrifum þeirra. Námskeiðið er hugsað fyrir vinnustaði, félagasamtök og einstaklinga sem vilja sporna gegn bakslaginu.
Eins og svo oft áður notast ég við haturspíramídann í námskeiðinu, en í stað þess að fjalla um ómeðvitaða hlutdrægni okkar allra beini sjónum mínum fyrst og fremst að hundaflauti og hatursorðræðu og hvernig við getum brugðist við því.
JAQ-ING OFF
Eins og ég hef áður útskýrt, felst hundaflaut í því að setja skoðanir nægilega skýrt fram til að þær dragi fram hugrenningartengsl og styrki fordóma og andúð, en þó nægilega óljóst til að hægt sé að þræta fyrir ásetninginn. Hundaflaut er þannig afar hentug fyrir fólk sem ekki vill láta kenna sig við eigin hugmyndafræði. Hundaflaut er, eins og Felix Bergsson orðaði það í vikunni, ekki bara heimskulegt heldur hættulegt.
Ein áhrifarík og nokkuð algeng leið til hundaflauts kallast „JAQ-ing off“ á ensku en hún snýst um að dulbúa skoðun sem spurningu (Just Asking Questions). Á íslensku mætti kannski tala um að BASSa (Bara Að Spyrja Spurninga), án þess að ég hafi almennilega þýðingu á takteinum. Spurningar um hvort innviðirnir okkar þoli meintan flóttamannastraum, hvort hinseginfræðsla eigi heima í skólakerfinu, hvort það sé eðlilegt að ríkið hlutist til um skiptingu fæðingarorlofs milli foreldra eru allt dæmi um þetta. Hver og ein þessara spurninga gætu átt rétt á sér í algjöru lofttæmi, en það er ekki til staðar. Svona spurningum er, eins og öðru hundaflauti, ætlað að ala á tortryggni, andúð og hatri. Þær næra nettröllin og laða fram fólk sem er tilbúið að ganga lengra. Fólk sem er til í að dæma, útiloka, hæðast, beita ofbeldi og afnema réttindi.
ÁHRIF Á VINNUSTAÐARMENNINGU
Uppgangur öfgahægris hefur ekki bara áhrif á samfélagsumræðuna, heldur alla vinnustaði. Fjölmörg dæmi eru um kaffistofusamtöl þar sem fullyrt er að ofbeldi gegn konum hafi aukist í kjölfar fjölgunar flóttafólks eða að kynin séu samt sem áður bara tvö, þar sem fólk hefur langað til að svara, leiðrétta eða útskýra, en ekki vitað hvernig það ætti að bera sig að.
Markmiðið með nýju fræðslunni er að þátttakendur læri um ólíkar birtingarmyndir hundaflauts, hvernig hægt er að bregðast við afleiðingum þess með málefnalegum hætti og stuðla þannig að heilbrigðum og inngildandi samskipti á vinnustaðnum. Að fólk öðlist þekkingu og kjark til að geta svarað JAQ-ing off spurningum, til að geta leiðrétt rangfærslur og til að geta staðið með jaðarsettu fólki gegn aðför öfgahægris í íslensku samfélagi.
Bestu kveðjur,
Sóley
Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki