FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


HUGLEIÐING VIKUNNAR: KYNJAFJÖLBREYTILEIKI


Þó dónaskapur og yfirlæti þingmanns í Kastljósi mánudagsins dæmi sig sjálf er nauðsynlegt að bregðast við málflutningi hans. Í þessum pistli ætla ég að leiðrétta tvær af mörgum rangfærslum og fjalla um erfiðar tilfinningar sem við erum flest að glíma við. 


RANGFÆRSLA I: KYNIN ERU BARA TVÖ


Ég skil og virði að fólki finnist fjölbreytileikinn fyrirferðarmikill og flókinn. Hann er flókinn. Auk þess gerir hann til okkar kröfur sem eigum erfitt með að skilja og vitum ekki alltaf hvernig við eigum að mæta. 

Það er líklega rétt hjá þingmanninum að meirihluti fólks telji kynin bara vera tvö og að fólk upplifi óöryggi þegar öðru er haldið fram, enda höfum við flestöll alist upp við kynjatvíhyggju þar sem gert er ráð fyrir að fólk fæðist annað hvort sem stelpur eða strákar og verði að annað hvort konum eða körlum. Það er örugglega líka rétt að fólk óttist að viðurkenna þetta óöryggi, óttist að segja eitthvað vitlaust og vera dæmt sem fordómafullt. Ég hef fulla samúð með því óöryggi og þeim ótta, enda hef ég upplifað hvort tveggja sjálf.

Við erum að venjast þeirri staðreynd að kynin eru alls ekki bara tvö. Líf- og erfðafræðingar segja réttara að tala um líffræðilegt kyn sem róf í stað flokka sem inniheldur fjölbreytta hópa karla og kvenna. Á bilinu 1-2% fólks fæðist intersex, en það er fólk með of ódæmigerð kyneinkenni til að hægt sé að skilgreina viðkomandi sem annað hvort karl eða konu.

Á sama tíma og við lærum um líffræðilegan fjölbreytileika er að byggjast upp þekking á að félagslegt kyn er annað en líffræðilegt kyn. Ekki allt fólk samsamar sig því líffræðilega kyni sem því var úthlutað í fæðingu. Sumt fólk samsamar sig hinu tvíhyggjukyninu, annað fólk samsamar sig báðum eða hvorugu kynjanna, eða upplifir og tjáir kyn sitt með öðrum hætti.
 

RANGFÆRSLA II: VALDSÆKNI OG ÞÖGGUNARTIBURÐIR


Þessi nýja þekking er að kollvarpa einfaldleika æsku okkar. Allt í einu vitum við ekki hvað kynin eru mörg. Allt í einu er talað um mun á líffræðilegu kyni og félagslegu kyni. Allt í einu eigum við að virða að fólk sé eða upplifi eitthvað sem við höfum aldrei heyrt um áður og allt í einu eru til ný hugtök, fornöfn og orð sem okkur er alls ekki tamt að nota.

Það er ekkert óeðlilegt við að fyllast óöryggi gagnvart þessu, rétt eins og gagnvart nýjum snjalltækjum eða öðrum framförum í heiminum. En rétt eins og snjalltæki og aðrar framfarir, þá er þessi breyting til batnaðar. Við erum að öðlast dýpri þekkingu á fjölbreytileika mannlífsins og það er verið að skapa rými fyrir fólk sem áður var lokað inni í skápum (eða hafði fallið fyrir eigin hendi) án þess að vegið sé að réttindum nokkurra annarra.

Í stað þess að ala á óörygginu eða nota það til að afneita tilvist, veruleika eða réttindum hinsegin, kynsegin, trans og intersex fólks þurfum við að anda inn í það. Það er enginn að fara að úthúða okkur fyrir mistök eða skilningsleysi. Langflest fólk sem tilheyrir þessum hópum er þaulvant mistökum og mjög viljugt til að hjálpa okkur að aðlagast. Og Samtökin 78 eru sannarlega ekki valdsækinn sérhagsmunahópur, heldur grasrótarsamtök sem hafa lagt sig fram um að upplýsa, fræða og skapa öruggt rými fyrir jaðarsett fólk.
 

ÓÖRUGG EN INNGILDANDI


Leyfum óöryggi okkar ekki að þróast yfir í andúð. Það er ekki hinsegin, kynsegin, intersex eða trans fólki að kenna að við vitum ekki hvað kynin eru mörg eða kunnum ekki að fallbeygja fornafnið hán. Við þurfum tíma og rúm til að aðlagast nýrri þekkingu, nýjum hugtökum og flóknara samfélagi en við héldum að við byggjum í. Það er allt í lagi. Við þurfum bara að vanda okkur, fræðast og æfa okkur. Fyrst og fremst verðum við að bera virðingu fyrir tilvist, veruleika og réttindum alls fólks. 

Ég vona að þessi hugleiðing nýtist ykkur kæru lesendur í þeim samtölum sem nú eiga sér stað um allt samfélag. Við þurfum öll að hjálpast að við að leiðrétta rangfærslur, hjálpa öðru fólki að anda inn í óöryggið sitt og koma í veg fyrir að popúlistar geti þróað þetta óöryggi yfir í andúð.

Bestu kveðjur,
Sóley 


Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 29. ágúst 2025
HUGTAK VIKUNNAR: JAQ-ING OFF 
Eftir soleytomasdottir 22. ágúst 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HLAUPASTYRKUR OG FRIÐUR Á JÖRÐ
Eftir soleytomasdottir 4. júlí 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: ALVARLEIKI GLÆPA
ELDRI FÆRSLUR