Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

SKAMMSTÖFUN VIKUNNAR: KÞBAVD

Framígrip eru hvimleiður ósiður sem bitnar oftar á konum en körlum. Í gær birtust á Vísi nokkur ráð til kvenna um fyrirbyggjandi aðgerðir og viðbrögð. Þar er konum ráðlagt að tala hátt, skýrt og af öryggi og láta ekki pirring í ljós heldur halda áfram að tala og hækka róminn ef þarf. Ef það dugi ekki til, sé hægt að stoppa viðkomandi af ákveðni og segjast ætla að klára. Umfram allt eru konur hvattar til að láta framígripin ekki þagga niður í sér, heldur taka virkan þátt í samræðum þrátt fyrir allt.
 
Þetta góð og gild ráð, enda lenda konur í þessum aðstæðum á hverjum einasta degi. En ráðin munu ekki uppræta ósiðinn. Annað og meira þarf að koma til.

KÞBAVD

Fjölmargar áætlanir hafa verið gerðar til að styrkja konur í karllægu umhverfi. Þær innihalda gjarnan stuðnings- og mentorakerfi fyrir konur, ákveðni- og færninámskeið fyrir konur, auk fjölda ráða til kvenna um hvernig hægt sé að olnboga sig áfram eftir kúnstarinnar reglum. Allt er þetta gert af góðum hug.
 
En þetta gengur allt út á að breyta konum. Af því 
Konur Þurfa Bara Að Vera Duglegri. KÞBAVD að láta ekki þagga niður í sér. KÞBAVD að sækja um launahækkun. KÞBAVD að bjóða sig fram, mennta sig, sækja um stöður, vinna yfirvinnu, vera svona, hinsegin og alls ekki pirrast. KÞBAVD að vera kurteisar, en samt ekki of.
 
Í umfjöllun Vísis er réttilega fjallað um ómöguleikann sem felst í því að frekar er gripið fram í fyrir kurteisum konum en ef konur bregðast við framígripum eru þær þó gjarnan taldar frekjur.

VÞÖAVD

Ef við viljum vinnustaðarmenningu þar sem allt fólk fær að klára setningar og koma hugmyndunum á framfæri þarf að breyta körlunum sem grípa fram í. Því rannsóknirnar sem sýna að konur verða oftar fyrir framígripum, sýna líka að karlar grípa oftar fram í. Ástæðan er sú sama og annarra birtingarmynda kynjamisréttis: Gamaldags en þraugseigar hugmyndir um karlmennsku (áhættusækni, ákveðni, hörku og hetjudýrkun) og kvenleika (ótta, fórnfýsi, mýkt og hógværð), þar sem hið karllæga er metið ofar hinu kvenlæga.
 
Við Þurfum Öll Að Vera Duglegri að brjóta þetta upp. VÞÖAVD að bera virðingu fyrir konum. VÞÖAVD að hlusta á raddir sem eru ekki djúpar og karlmannlegar. VÞÖAVD að hlusta á fólk sem er smá óöruggt. VÞÖAVD að vera áhugasamari um öðruvísi skoðanir og hugmyndir. VÞÖAVD að draga úr framígripum.
 
Sama skammstöfun gildir ef við viljum bæta samfélagið okkar. VÞÖAVD að hlusta á fólk sem tilheyrir jaðarsettum hópum. VÞÖAVD að trúa þolendum. VÞÖAVD að virða mörk annars fólks. VÞÖAVD að vera meðvituð um eigin ómeðvituðu hlutdægni. VÞÖAVD að endurskoða eigið verðmætamat og ögra verðmætamati samfélagsins. VÞÖAVD að vanda okkur.

GÓÐ VINNUSTAÐARMENNING

Vinnustaðir sem vilja brjóta upp karllæga vinnustaðarmenningu þurfa að hjálpa starfsfólki að brjóta upp staðalmyndirnar og venja sig af óæskilegri hegðun. Stuðnings- og mentorakerfi til að takmarka áhrif ómeðvitaðrar hlutdrægni væri tilvalið. Færninámskeið í hlustun og uppbyggilegum samskiptum sömuleiðis, ásamt ráðgjöf og stuðningi til að auka tillit, virðingu og öryggi á vinnustaðnum.
 
Konur sem verða fyrir mismunun bera ekki ábyrgð á henni. Það gerum við öll í sameiningu og við þurfum að axla þá ábyrgð í sameiningu.

Bestu kveðjur,

Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: