Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

HUGLEIÐING VIKUNNAR: VÆNDI

Á Íslandi er bannað að kaupa vændi. Lögin voru samþykkt eftir mikið karp þar sem elsta atvinnugrein í heimi, frjálst val, forræðishyggja og tepruskapur komu meðal annars við sögu. Á endanum voru þau samþykkt, byggt á þeirri hugmyndafræði að vændi sé eitt form af ofbeldi, þar sem kaupendur séu gerendur og seljendur þolendur.
 
Lengi vel ríkti sátt um lögin, en undanfarin ár hafa óánægjuraddir orðið háværari og rökræður orðnar ansi pólaríseraðar. Hér koma mín tvö sent.

EKKERT UM OKKUR ÁN OKKAR

Fólk sem skilgreinir sig sem kynlífsverkafólk krefst þess að kaupin verði gerð lögleg, að það sé alls ekki allt vændi ofbeldi og að forræðishyggja og forréttindablinda ráðafólks hafi komið þeim til leiðar. Kynlífsverkafólk vill að á sig sé hlustað og að þeirra val til starfans sé virt án þess að viðskiptavinir þeirra séu gerðir að glæpamönnum. Allmargir femínistar hafa tekið undir þetta, enda eigi femínísk hugmyndafræði alltaf að byggja á reynslu, þörfum og vilja undirskipaðra hópa sem í þessu tilfelli sé kynlífsverkafólkið.

UM HVER ÁN HVERRA?

Því miður er staðreyndin sú að reynsla, þarfir og vilji þessa undirskipaða hóps eru of fjölbreytt og ósamrýmanleg til að hægt sé að byggja einhverja eina stefnu á því einu.
 
Stígamót hafa staðið vörð um vændishugtakið, skilgreininguna á vændi sem ofbeldi og núgildandi lög. Sú afstaða byggir á reynslu, þörfum og vilja fjölda vændisfólks, en árlega leitar fjöldi vændiskvenna til Stígamóta vegna afleiðinga vændis. Afleiðingum sem eru fyllilega sambærilegar við afleiðingar annars kynferðislegs ofbeldis, s.s. sifjaspells og nauðgana. Þetta vændisfólk á sér þá ósk heitasta að vændi verði útrýmt úr samfélaginu og að ábyrgðin verði á herðum þeirra sem skapa eftirspurnina – þeirra sem hafa valdið skaðanum með því að kaupa vændið.
 
Þá hefur ekki verið minnst á hópinn sem ekki tjáir sig. Sem er ekki í aðstöðu til þess, upptekinn við að þrauka, og það jafnvel undir hælnum á hórmöngurum.

EINSTAKLINGAR OG SAMFÉLAG

Burtséð frá einstaklingum er mikilvægt að skoða samfélagsleg áhrif vændis í samhengi við hlutgervingu kvenna. Vændi er bæði orsök og afleiðing hlutgervingar og byggir á því að eðlilegt þyki að líkamar kvenna séu söluvara, til þess gerðir að svala fýsnum gegn gjaldi. Við sem samfélag höfum oft tekist á við hlutgervingu og ofbeldi. Ég ætla að nefna tvö dæmi.

1. Hlutgerving kvenna í auglýsingum
Hálfberar konur á bílhúddum voru vinsælar í auglýsingum fyrir einhverjum áratugum, nokkuð sem þykir ósmekklegt í dag. Sjálfsagt hafa fyrirsæturnar haft alls konar skoðanir á þessu, sumar setið fyrir af illri nauðsyn á meðan aðrar nutu sín í starfinu. En það var aukaatriði. Hlutgervingin þótti ósmekkleg og skaðleg fyrir samfélagið.

2. Heimilisofbeldi
Konur sem búa við ofbeldi maka, gera það af ýmsum ástæðum. Sumar eru niðurbrotnar og þora ekki úr sambandi, aðrar eru fjárhagslega háðar maka, enn öðrum finnst ofbeldið ekkert tiltökumál og svo eru til konur sem sækja beinlínis í spennuna sem fylgir ofbeldissamböndum. Ég ber fulla virðingu fyrir vali þessara kvenna, þó þær mæti gríðarlegum fordómum, virðingar- og skilningsleysi lögreglu og fálæti velferðar- og heilbrigðiskerfis. Alveg eins og vændiskonur. En þó ég virði val kvennanna tel ég ekki að lögleiðing ofbeldisins styrki stöðu þeirra. Ég hef ekki heldur orðið vör við neinar kröfur um slíkt.

FÓRNARLAMBSVÆÐING?

Nú er líklegt að einhverjum finnist ég tala niður til vændiskvenna með því að skilgreina þær sem þolendur. Það hvarflar ekki að mér. Ég ber fulla virðingu fyrir konum sem velja sér vændi og líka þeim sem þar eru af illri nauðsyn.
 
Að finnast það neikvætt að tala um þolendur er til marks um þolendaskömmun. Allar konur eru beinir eða óbeinir þolendur í valdakerfi sem metur hið karllæga ofar hinu kvenlæga. Við eigum á hættu að búa við kynbundinn launamun, áreitni, ósanngjarnar kröfur, skort á tækifærum. Við erum ekki verri fyrir vikið.
 
Þessi mantra um þolendavæðingu minnir á sömu möntru sem klifað var á í hvert skipti sem ég talaði um kynjajafnrétti uppúr aldamótum. Þegar ég mátti ekki minnast á ójöfn tækifæri kynjanna án þess að það væri túlkað sem fórnarlambsvæðing.

SAMFÉLAGSGERÐIN

Það eru miklu flóknari undirliggjandi ástæður fyrir vændi en seljendur og kaupendur. Gildismat vestrænna samfélaga byggir á hrærigraut valdamisræmis og staðalmynda sem skapar forréttindi og hindranir. Skapar kaupendur og seljendur. Ef við viljum búa við jafnrétti, þá verðum við að brjóta þetta upp. Skapa samfélag þar sem konur eru ekki söluvara. Skapa samfélag þar sem fólk getur öruggt stundað hvaða þær athafnir sem þeim sýnist án þess að peningar þurfi að koma við sögu.

Bestu kveðjur,

Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: