Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

SETNING VIKUNNAR: BAD THINGS HAPPEN WHEN GOOD PEOPLE DO NOTHING

Núverandi stjórnarflokkar virðast fyrst og fremst byggja samstarf sitt á því að koma í veg fyrir að stefnumál samstarfsflokkanna nái fram að ganga. Þetta fer gegn grundvallarhugmyndafræði íslenska lýðræðissamfélagsins sem byggir á því að stjórnmálahreyfingar setji fram stefnu, leggi sig fram um að afla henni fylgis og koma henni til leiðar.

Það voru vonbrigði að minn gamli flokkur skyldi ekki sýna meiri metnað en raun ber vitni við myndun síðustu tveggja ríkisstjórna. Fjölflokka ríkisstjórn um frið, velferð, mannréttindi og umhverfismál kom víst ekki til greina. Þess í stað var lagt upp með að koma í veg fyrir frekari einkavæðingu, sinnuleysi gagnvart loftslagsbreytingum, aukinn ójöfnuð, hernaðarbrölt og uppgang þjóðernishyggju svo einhver dæmi séu nefnd. Ef það hefði nú bara tekist.


ÞJÓÐERNISHYGGJA

Nýjasta dæmið um aðgerðir ríkisstjórnarinnar er svo hræðilegt að 3. nóvember ætti að minnast um ókomna tíð sem dags grimmdar og miskunnarleysis. Dagurinn sem stjórnvöld sendu hóp fólks í viðkvæmri stöðu á götuna í Grikklandi. Eða ekki dagurinn, heldur nóttin. Nóttin sem margra daga aðgerðum lauk. Aðgerðum sem höfðu gengið út á að elta uppi og safna saman fólki í fangelsum þar til hægt væri að losa sig við þau öll á einu bretti.

Fólkið sem var elt uppi, fangelsað og flogið í lögreglufylgd til Grikklands þar sem ekkert bíður þeirra nema gatan og ruslatunnufóður er fólk sem hingað hafði leitað eftir alþjóðlegri vernd. Þau áttu ekkert skjól. Þau komu hingað í þeirri veiku von að íslenska velferðarparadísin sýndi ótta þeirra við stríð og harðstjórnir skilning. Það reyndist ekki vera.



VELFERÐARPARADÍSIN

Á meðan á aðgerðunum stóð voru ráðherrar Vinstri grænna á Norðurlandaráðsþingi að kynna formennskuáætlun sína með áherslu á frið sem forsendu velferðar, mannréttindi og umhverfisvernd. Þau minntust ekki á aðgerðir næturinnar, ekkert á að fólkið sem þau flugu út í óvissuna hefði verið að bíða eftir fyrirtöku á endurupptöku mála sinna, né heldur á að þeirra á meðal væri fatlaður maður, aldrað fólk og tvær menntaskólastúlkur. Ekki heldur fræddu þau áheyrendur um að lögmönnum fólksins hefði verið meinað samband við það eða að fjölmiðlum hefði verið meinað að afla upplýsinga á meðan á aðgerðum stóð.

Svo komu þau heim með bláu passana sína og þóttust lítið sem ekkert hafa vitað. Sögðust ætla að skoða mál fatlaða mannsins, en að kæra fresti víst ekki réttaráhrifum og því skipti umsókn fólksins um endurupptöku ekki máli.



VIÐ

Ég er ekki í formlegum stjórnmálum. Það sama á við um flesta lesendur þessarar hugleiðingar. En það þýðir ekki að við getum ekkert gert. Augljósast er að minnast 3. nóvember næst þegar við göngum til kosninga, en fram að því getum við að sjálfsögðu beitt okkur. Við getum talað beint við þingfólk og ráðherra, við getum mótmælt úti á götu, við getum skrifað og talað, jafnvel öskrað. Við getum krafist breytinga á meðferð þessara mála.

Á Íslandi er nóg pláss og sterkari innviðir en víðast hvar annars staðar. Það er ekkert annað en þröngsýni og eigingirni sem kemur í veg fyrir að fólk fái hér alþjóðlega vernd og aðstæður til að taka virkan þátt í samfélaginu. Til að velferðarparadís standi undir nafni þarf hún að grípa það fólk sem þarf á henni að halda og taka fagnandi á móti öllum þeim sem geta lagt henni lið. En þangað til það gerist, er engin ástæða til gorts á erlendri grundu. Þvert á móti: Þessi ríkisstjórn ætti að skammast sín!

Bestu kveðjur,


Sóley


Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: