Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

HUGLEIÐING VIKUNNAR: ÓMEÐVITUÐ VANHÆFNI

Kynhlutlaust tungumál hefur verið nokkuð til umræðu í vikunni. Hildur Lilliendahl var í frábæru viðtali í þættinum Orð af orði á sunnudaginn þar sem hún útskýrði valdið sem felst í beitingu tungumálsins, hvernig það á sinn þátt í að viðhalda kynjuðum staðalmyndum og hvernig það getur virkað útilokandi fyrir fólk af öðrum kynjum þegar það er ávarpað í karlkyni. Hildur tók skýrt fram í þættinum að hvergi væri verið að þvinga fólk til óhefðbundinnar málnotkunar, tungumálið yrði að fá að þróast í samræmi við vilja og þekkingu fólksins sem notar það. Eiríkur Rögnvaldsson hefur tekið í sama streng, að málnotendum sé í sjálfsvald sett að breyta hefðum tungumálsins, ef þær þyki heftandi.

Síðar í vikunni birtist svo viðtal við Höskuld nokkurn Þráinsson á Stöð 2 sem sagði umræðuna vera einsleita og öfgakennda, enda væri það ekki móðurmál neins að segja „öll velkomin“. Á internetinu bættu íhaldssamir karlar um betur með fullyrðinum um að hér sé aðeins um sérviskulega duttlunga lítils, háværs hóps að ræða og markmiðið sé ekkert annað en pólítískur réttrúnaður.



BREYTT TUNGUMÁL

Við höldum því (misblákalt og misstolt) fram við útlendinga að við getum lesið Íslendingasögunar, enda hafi tungumálið okkar haldist svo til óbreytt í gegnum aldanna rás. Það eru auðvitað ýkjur. Grunnskólabörn geta vissulega, með aðstoð sérhæfðra kennara, stautað sig fram úr nútímaútgáfu af Gísla sögu Súrssonar, en tungumálið hefur tekið umtalsverðum breytingum. Frá því ég fæddist hefur setan verið aflögð, við erum hætt að þéra og allskonar hugtök hafa verið fundin upp eftir því sem þekkingu og tækni fleygir fram.

Á sama tímaibili höfum við byrjað og hætt að nota tugi hugtaka til að sporna gegn fordómum gagnvart minnihlutahópum. Sér í lagi á þetta við um hugtök yfir fatlanir og fólk af erlendum uppruna. Af því við gerum okkur grein fyrir að tungumálið er valdatæki sem getur haft jákvæð, hlutlaus eða neikvæð áhrif á fólk. Krafan um kynhlutlaust tungumál er af sama meiði. Hún snýst um að við viðurkennum tilvist, upplifanir og reynsluheim alls fólks.



AUÐVITAÐ ER ÞETTA FLÓKIÐ

Íslenskan er flókin. Samfélagið er flókið. Valdakerfið er flókið. Það er flókið að skilja að einhver upplifi útilokun sem við höfum ekki upplifað sjálf. Og svo erum við bara frekar lítið gefin fyrir breytingar almennt. Allavega ef við höfum ekki persónulega hagsmuni af breytingunum.

En við getum þetta samt. Og við höfum gert þetta. Eftir því sem kynjafjölbreytni eykst í starfsstéttum verður okkur tamara að tala um fólk í stað manna. Okkur bregður ekki lengur við orð á borð við íþróttafólk, flóttafólk eða tónlistarfólk, enda erum við orðin vön þeim. Þingfólk, flugfólk og lögfólk eiga lengra í land. Það þýðir ekki að það eigi ekki eftir að breytast.



MEÐVITUND OG HÆFNI (AWARENESS AND COMPETENCY)

Mynd vikunnar er tekin úr ákveðnu módeli í fjölbreytileikafræðum, þar sem lögð er áhersla á samspil meðvitundar og hæfni. Í umræðunni um kynhlutlaust tungumál má greina fólk á flestum stigum módelsins; (1) fólkið sem skilur ekki af hverju þetta skiptir máli, (2) fólk sem skilur að þetta skiptir máli en finnst flókið að breyta og (3) fólk sem vill breyta og leggur talsvert á sig til þess. Minnst fer kannski fyrir fjórða stiginu, fólki sem er orðið svo þjálfað í kynhlutlausri tungumálanotkun að það þarf ekkert að hafa fyrir henni. En það kemur. Einn góðan veðurdag.



Bestu kveðjur,


Sóley


Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: