Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

HUGLEIÐING VIKUNNAR: RASÍSK UMMÆLI

Framkoma Sigurðar Inga Jóhannssonar á Búnaðarþingi í síðustu viku var óviðeigandi og særandi, en mjög gott dæmi um öráreiti. Atburðarrás persóna og leikenda er um það bil svona, í mjög einfaldaðri mynd:


  1. Sigurður Ingi vísar til framkvæmdastjóra Bændasamtakanna sem „þeirrar svörtu“ á skemmtun Búnaðarþings.
  2. Framkvæmdastjóri Bændasamtakanna fjallar um framkomuna á opinberum vettvangi og lýsir þeim sem dæmi um dulda fordóma sem grassera í samfélaginu.
  3. Aðstoðarmaður ráðherra þvertekur fyrir ummælin og segir málið vera „algert bull“.
  4. Sigurður Ingi sendir frá sér afsökunarbeiðni en neitar að ræða málið frekar.
  5. Brynja Dan, varaþingmaður Framsóknarflokksins sem ættleidd er frá Sri Lanka, segist ekki hafa upplifað rasisma innan flokksins.



Til viðbótar við þetta hefur þing- og fjölmiðlafólk keppst við að greina málið og setja það í samhengi við aðra hegðun, samfélagslegar aðstæður og pólítískar áherslur Framsóknarflokksins og ríkisstjórnarinnar. Eðlilega. Ég bæti í það í dag og tengi við hugleiðingar sem ég hef skrifað gegnum tíðina.

AÐEINS UM 1 OG 2

Ummæli Sigurðar Inga féllu við aðstæður sem eiga sér sögu um karllæga stemningu, drykkju og hömluleysi sem hefur viðgengist í trausti þess að ekkert spyrjist út. Aðstæður sem minna á klefamenningu, menningu sem viðgengst innan hópa sem leyfa ómeðvituðu hlutdrægninni að stýra hegðun sinni, orðum og gjörðum. Þar sem óviðeigandi hegðun er samþykkt sem „einkahúmor“.

En aðstæður hafa breyst. Klefarnir eru ekki lengur einsleitir. Þar með leyfist fólki ekki að hegða sér eins og áður. Æ fleiri segja frá, mótmæla og krefjast virðingar og ábyrgrar framkomu. Sigurður Ingi virðist ekki hafa fylgst með eða tileinkað sér það sem samtíminn kallar á. Framkoma hans var í anda liðins tíma, tíma sem vonandi er að fjara út.

3 TIL 5

Viðbrögð aðstoðarmanns Sigurðar eru dæmigerð fyrir fyrsta og annað stig sjálfvirkra varnarviðbragða. Eitthvað sem er eðlilegt að fljúgi í gegnum huga fólks þegar því er bent á óviðeigandi framkomu en fólk ætti að melta og komast yfir áður en það svarar fyrir slíkt. Viðbrögðin virkuðu sem gaslýsing og gerðu ekkert annað en auka á vanlíðan þolandans.

Afsökunarbeiðni Sigurðar Inga var svo sem ágæt á prenti, þar sem hann segist hafa gert mistök og hafi lært af þeim, en öll viðtöl síðan hafa verið til marks um afneitun. Að hann telji nóg að hafa beðist afsökunar, allt sem segja þurfi hafi komið fram í yfirlýsingunni og hann ætli ekki að ræða málið frekar. Ef hann hefði raunverulega lært af málinu, hefði hann ekki veigrað sér við frekari umræðu um fordóma, um stemninguna þetta kvöld og um það hvernig hann eigi þátt í að viðhalda rasisma í samfélaginu með þessari óábyrgu hegðun.

Á sama tíma dúkkar varaþingkona Framsóknarflokksins allt í einu upp í fjölmiðlum af því að hún er fædd á Sri Lanka. Og þó hún lýsi vanlíðan yfir framkomunni, leggur hún áherslu á að hafa aldrei upplifað rasisma innan flokksins. Þannig tekur hún að sér, sem fulltrúi svarts og brúns fólks í flokknum, að styðja við þá upplifun formannsins að þetta hafi verið einstakt og afmarkað tilvik, en hvorki til marks um ómeðvitaða hlutdrægni formannsins né dæmi um öráreiti sem á sinn þátt í að viðhalda og styðja við rasisma í samfélaginu.

SAMHENGI OG FRAMTÍÐARHORFUR

Framkoma formannsins og viðbrögð flokksins vekja því miður ekki mikla von. Flokkur sem hefur byggt stefnu sína í gegnum tímans rás á íslenskum landbúnaði, íslenskri menningu og sveitarómantík þarf að gæta hófs og vera meðvitaður um mörkin milli þjóðrækni og þjóðernishyggju. Við þurfum öll, sem einstaklingar sem höfum alist upp í einsleitu samfélagi hvíts fólks að vera meðvituð um það sama. Við þurfum að forðast klefamenningu, koma fram af virðingu við fólk, horfast í augu við eigin mistök, átta okkur á þeim áhrifum sem þau hafa, læra af þeim og leggja okkur fram um að bæta okkur. Þannig getum við stuðlað að betra samfélagi fyrir okkur öll.


Bestu kveðjur,
Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: