Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

VIÐFANGSEFNI VIKUNNAR: FRAMHALDSHUGLEIÐING

Góðan dag og gleðilegt sumar. Í dag ætla ég að prjóna við síðustu tvær hugleiðingar, um öráreiti og rasísk ummæli, vegna strokufangans sem lögreglan lýsti eftir og leitaði að á undarlegustu stöðum með alvarlegum afleiðingum fyrir líðan og öryggi svarts og brúns fólks á Íslandi.

Langflest fólk vill alls ekki kenna sig við rasisma. Við vitum langflest að húðlitur skiptir ekki máli varðandi hæfni eða heiðarleika fólks og við teljum okkur vera opin og vel upplýst um að hvers kyns mismunun sé óásættanleg. Hvernig stendur þá á því að svart og brúnt fólk upplifir sig óöruggt og útilokað í íslensku samfélagi? Hvernig getur samfélag sem inniheldur enga rasista verið rasískt?

ÓMEÐVITUÐ HLUTDRÆGNI OG ÖRÁREITI

Við lærum skráðar og óskráðar reglur frá því við fæðumst. Við lærum að samsama okkur kynhlutverkum og við lærum að dæma annað fólk eftir því hversu vel því tekst upp við það sama. Við lærum að treysta því sem við þekkjum og höfum áður séð og við lærum að tortryggja eða setja fyrirvara við það sem er öðruvísi. Valdakerfið viðheldur sér gegnum ómeðvitaða hlutdrægni, við treystum frekar körlum en konum fyrir valdi og fjármunum, við treystum hvítu fólki betur en svörtu og brúnu fólki, grönnu fólki betur en feitu fólki og ófötluðu fólki betur en fötluðu fólki, svo einhver dæmi séu nefnd.

Óskráðu reglurnar og óbeinu skilaboðin hafa ekki bara áhrif á viðhorf okkar og gildismat, heldur líka hegðunina okkar. Við sendum frá okkur alls kyns óbein skilaboð, m.a. í formi öráreita sem ég hef áður fjallað um, sem eiga sinn þátt í óöryggi, mismunun og útilokun jaðarhópa í samfélaginu. Þannig gerist það að við tökum hvítu fólki sem eðlilegu, viðteknu og samþykktu en eigum það til að setja fyrirvara við hæfni og heiðarleika svarts og brúns fólks.

SAMHENGIÐ

Ef rasísk ummæli Sigurðar Inga, mistök víkingasveitarinnar eða rasísku viðbrögðin við auglýsingu lögreglunnar hefðu verið einangruð tilvik, myndu þau varla hafa mikil áhrif. En þau voru það ekki. Þau eru hluti af daglegu lífi svarts og brúns fólks í samfélaginu, hluti af öráreitum sem saman senda skilaboð um að þau tilheyri ekki. Þetta skapar óöryggi, vanlíðan, útilokun og mismunun.

Racial profiling (þegar rannsóknir lögreglu byggja á húðlit eða kynþætti) er vel þekkt fyrirbæri, í það minnsta meðal fólks sem er svart eða brúnt. Mörg þeirra hafa lent í slíku sjálft, þekkja einhvern sem hefur orðið fyrir slíku eða hafa raunverulega ástæðu til að óttast það. Saklausa barnið sem hefur tvisvar sinnum lent í aðgerðum lögreglu undanfarna daga er til marks um það. Raunar er þar ekki lögreglunni einni um að kenna, húðliturinn einn virðist duga fólki til að hringja í lögregluna og tilkynna um ferðir strokufangans.

Racial profiling er ekki eins vel þekkt meðal hvíts fólks, og almenn þekking á fyrirbærinu er ekki meiri en svo á Íslandi að það er ekki einu sinni til íslensk þýðing á hugtakinu. Á samfélagsmiðlum hefur hvítt fólk keppst við að afneita aðferðafræðinni og jafnvel tilvist fyrirbærisins. Það er einnig til marks um hversu stutt við erum komin.

HVAÐ ER TIL RÁÐA?

Eins og alltaf felst lausnin fyrst og fremst til að hlusta á fólkið sem um ræðir. Að læra um aðstæður þess, læra um söguna, um algeng öráreiti og í hverju ómeðvitaða hlutdrægnin okkar birtist. Verum gagnrýnin á eigin siði, venjur, hegðun og framkomu. Tökum ábendingum um mismunun sem annað fólk verður fyrir alvarlega. Ögrum staðalmyndum, vöndum málfar og leggjum okkur fram um að vera almennilegar manneskjur. Og í guðanna bænum, ályktum ekki út frá húðlit um það hvort fólk sem verður á vegi okkar sé mögulega strokufangar.


Bestu kveðjur,
Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: