Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

SÖGUSKOÐUN VIKUNNAR: VARNARLIÐIÐ FYRR OG NÚ

Í upphafi aldarinnar bloggaði ég til að fá femíníska útrás og hafa áhrif á samfélagið. Sjaldnast um eitthvað nýtt. Yfirleitt um staðalmyndir, klámvæðingu og ofbeldi, ég gagnrýndi karllæga fjölmiðla og ósanngjarnt dómskerfi. Ég skrifaði um það sem konur höfðu talað um sín á milli frá því löngu áður en ég man eftir mér.

Bloggið vakti hörð viðbrögð. Varnarlið feðraveldisins mótmælti skrifum mínum og gerði grín að mér í athugasemdum og á eigin bloggum. Fjölmiðlar notuðu bloggið sem smellubrellu sem kynti undir heift og hatri.


Ég veit ekki hversu mikil áhrif bloggið hafði að jafnaði. Líklega opnaði það á einhverja opinbera umræðu sem fram að því hafði mestmegnis átt sér stað í lokuðum hópum kvenna. Stöku sinnum urðu áhrifin áþreifanlegri, s.s. þegar femínískar konur sátu einar að spjalli í Silfri Egils eða þegar hætt var við ráðstefnu klámframleiðenda í Reykjavík.


Það var þá sem ég varð hrædd. Heift varnarliðsins var svo sem alltaf óþægileg, en þegar áhrif mín voru mest varð ég hræddust. Þá var heiftin mest og hótanirnar alvarlegastar.

óþol varnarliðsins

Ástæðan fyrir þessari upprifjun er að sagan endurtekur sig aftur og aftur, ekki síst nú þegar áhrif #MeToo eru verða áþreifanleg. Í upphafi byltingarinnar setti varnarliðið sig í stellingar, þegar konur töluðu upphátt um það sem þær höfðu rætt sín á milli í gegnum tímans rás. Eftir því sem sögurnar urðu fleiri og konurnar sýnilegri heyrðist hærra í varnarliðinu. Það var samt ekki fyrr en byltingin fór að hafa áhrif á nafngreinda karla sem alvöru heift fór að láta á sér kræla og þeim mun fleiri sem þeir eru, þeim mun heiftúðugra verður varnarliðið.


Varnarliðinu virðist vera sama þótt konur tali um misréttið í samfélaginu, svo lengi sem þær halda því sín á milli. Það er verra þegar samtalið á sér stað á opinberum vettvangi, þá þykir ástæða til að svara og jafnvel hæðast að konunum. En þegar samtalið fer að hafa áhrif, þegar hegðun áreitara og ofbeldiskarla er farin að hafa áhrif á stöðu þeirra og starfsferil, þá er varnarliðinu nóg boðið. Þá víkur hæðnin fyrir heift og hótunum.

takk stelpur!

Konurnar sem hrintu af stað síðustu öldu #MeToo bylgjunnar hafa það eitt til saka unnið að segja sögurnar upphátt sem konur hafa í áraraðir talað um sín á milli. Ég veit að þær eru hræddar núna. Ég veit að þær eru þreyttar og ég veit að þær sjá stundum eftir að hafa lagt af stað í þetta vanþakkláta verkefni. Ég vil að þær viti að það er fullt af fólki sem dáist að hugrekki þeirra og verður þeim ævinlega þakklátt fyrir það sem þær hafa gert.


Við þurfum öll að vera dugleg að standa með þessum konum, styðja þær og hrósa. Gleymið því ekki, elsku baráttukonur, að stoðirnar eru sterkastar þegar þær eru við það að bresta. Þessar stoðir feðraveldisins sem nú eru að bresta eiga ekki roð í hugrekki ykkar, staðfestu og kraft. Það slettist soldið af fúnum flísum og ógeði á meðan á því stendur, en það jafnar sig að lokum. Takk fyrir ykkar framlag. Áfram stelpur!


Þetta var síðasta hugleiðingin fyrir sumarfrí. Njótið sumarsins!


Bestu kveðjur,


Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: