Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

BRÝNING VIKUNNAR: ÚTRÝMUM HATRI

Kinan vinur minn er frá Sýrlandi en hefur búið á Íslandi um árabil. Þar sem hann var að kaupa í matinn í vikunni, vatt sér að honum maður á miðjum aldri og spurði hvort Kinan væri múslimi. Kinan svaraði játandi og reyndi að forðast frekari samskipti þar sem hann upplifði fas mannsins ógnvekjandi. Það dugði ekki til. Maðurinn fylgdi honum eftir, sýndi honum hakakrosstattúið sitt og rétti upp hendina að nasískum hætti. Kinan lauk innkaupunum og forðaði sér út. Maðurinn fylgdi á eftir og endurtók nasísku handarhreyfinguna að skilnaði. Kinan hringdi á lögregluna sem brást hratt og vel við, fékk allar tiltækar upplýsingar um manninn og gekk úr skugga um að Kinan væri óhætt.

GERENDAMEÐVIRKNI

Ímynd Íslands á alþjóðavettvangi byggir á öryggi, velferð og friðsæld, jafnrétti og virðingu fyrir fjölbreytileika. Við hjálpumst öll að við að viðhalda þessari ímynd og trúum því að þetta sé nokkuð satt. Það sem meira er, sagan hér að ofan hefur afar lítil áhrif á sannfæringu okkar.

Við sem höfum aldrei upplifað hatursorðræðu vegna lífsskoðana höfum tilhneigingu til að afskrifa uppákomuna sem staka og tilviljunarkennda. Að við getum öll lent í dónaskap, en svona lagað verði fólk bara að hrista af sér. Það sé greinilega eitthvað að hjá gerandanum, honum sé bara vorkunn að vera svona vitlaus. Þannig pössum við upp á ímynd samfélagsins okkar og sjálfsmynd okkar sem Íslendinga. Við gerum þetta algerlega áreynslu- og umhugsunarlaust.

ALVARLEIKI MÁLSINS

Þessi léttúð er skaðleg. Hún gerir lítið úr hatrinu og hættunni sem Kinan upplifði á meðan á þessu stóð og óörygginu sem uppákoman veldur til frambúðar. Þessi uppákoma er ekki stök og það er ekki tilviljun að hún beindist að Kinan. Hún er til marks um að í litla, friðsæla og örugga samfélaginu okkar þrífst hatur og ofbeldi.

Það má vel vera að fólk sem sýnir nasíska tilburði eigi bágt. Það er fullt af fólki sem á bágt. En að gera lítið úr, afskrifa eða réttlæta ógnandi tilburði eða ofbeldi með slíku er gerendameðvirkni.

Ef við viljum standa vörð um ímynd Íslands þá verðum við að taka svona uppákomur alvarlega. Við verðum að horfast í augu við allt sem getur ógnað ímyndinni og gera allt sem í okkar valdi stendur til að uppræta slíkt. Það á ekkert okkar að vera óöruggt í búðinni. Raunar hvergi.

BREYTUM

Hatursorðræða og ógnandi tilburðir eru því miður allt of algeng á Íslandi. Jaðarsett fólk verður ítrekað fyrir aðkasti sem skerðir öryggiskennd og hefur áhrif á daglegt líf. Rétt eins og Kinan mun þurfa að herða upp hug sinn áður en hann fer næst út í búð, eru allt of mörg dæmi til um eftirfarandi:


  • Að samkynhneigt fólk hugsi sig um áður en það leiðist eða kyssist í almannarými.
  • Að feitt fólk veigri sér við að versla í matinn á háannatíma.
  • Að trans fólk þori ekki í sund.
  • Að konur labbi ekki einar/fullar/léttlæddar heim.


Þetta er ekki tæmandi listi yfir þá hópa sem eru í hættu á að verða fyrir hvers kyns aðkasti eða hatursglæpum. En þetta eru örfá dæmi sem við þurfum að vita af. Við þurfum að horfast í augu við algengi og alvarleika hverrar uppákomu um sig, bregðast við og standa þannig undir nafni sem örugg og friðsæl þjóð.

 

Bestu kveðjur og góða helgi!


Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: