Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

Verkefni vikunnar: Að uppræta ofbeldismenningu

Fyrir tveimur vikum fjallaði ég um forréttindin sem felast í því að þurfa ekki að vera pólítísk, taka afstöðu eða virkan þátt í mannréttindabaráttu.

Síðan þá hefur enn ein #MeToo bylgjan risið. Þolendur hafa rifið upp misgömul sár og afhjúpað blómstrandi ofbeldismenningu. Enn eina ferðina. Því þrátt fyrir 
#HöfumHátt og #KonurTala og fyrri #MeToo hefur lítil sem engin breyting orðið í samfélaginu.

Svo allrar sanngirni sé gætt, vekja viðbrögðin við þessari nýjustu bylgju örlitla von. Fleiri karlar taka þátt í umræðunum, fleiri segjast trúa og fleiri segjast vilja breyta. Einstaka gerendur hafa horfst í augu við eigin gjörðir, þó fókusinn sé 
misskýr.

En hvað getum við gert? Hvernig getum við komið í veg fyrir að konur þurfi aftur og aftur að berskjalda ömurlega lífsreynslu til að vekja athygli á samfélagslegu vandamáli? Hvernig getum við tekist á þetta vandamál? Því verður ekki svarað í einni hugleiðingu, en mig langar að velta upp möguleikum fyrir okkur hin. Fólkið sem fylgist með utanfrá, hefur ekki rifið upp sár og er ekki beinir gerendur í sögunum. Þar kemur teiknimyndasagan að góðum notum.

Við þurfum ekki að öskra, við þurfum ekki að rífa upp sár. Við þurfum ekki á breytingum að halda fyrir okkur sjálf, enda hefur ofbeldismenningin hefur ekki teljandi áhrif á okkar daglega líf. Við erum tiltölulega örugg.

En ef við látum eins og ekkert sé, látum nægja að hrósa konum fyrir hugrekkið og lýsa vonbrigðum yfir að við séum ekki lengra komin, mun ekkert breytast. Breytingarnar krefjast okkar sterku radda.

Við þurfum að setja kyn- og kynjafræðikennslu í forgang á öllum skólastigum, við þurfum að setja kynbundið ofbeldi í forgang innan löggæslu- og dómskerfis, við þurfum að uppræta upphafningu ofbeldismenningar í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Við þurfum að stöðva óviðeigandi hegðun, talsmáta og grín á vinnustöðum. Við þurfum að trúa þolendum, jafnvel þótt meintur gerandi sé góður, vinur, ættingi eða vinnufélagi.

Ekkert eitt af þessu er nóg. Kynfræðsla mun ekki breyta öllu, ekki heldur breyttur poppkúltur og við getum alls ekki lagt það á herðar foreldra einna að ala ofbeldismenninguna úr börnum sínum. Við verðum að gera þetta allt og meira til. Það krefst þess að við tökum öll höndum saman. Starfsfólk allra plana, stjórnendur allra fyrirtækja, stjórnmálafólk allra flokka, fjárfestar, listafólk, kennarar, forráðafólk og öll hin.

Ofbeldismenningin er eins og kóngulóarvefur sem sem nær í alla króka og kima. Til að uppræta hana þurfum við allar hendur á dekk með allar þær hreingerningagræjur sem við eigum. Það er erfiðisvinna sem reynir bæði á líkama og sál, hún er ekki skemmtileg og hún tekur langan tíma. En hún verður auðveldari, þægilegri og mun taka styttri tíma ef við hjálpumst að. Ég legg til að við drífum í því. Það er óþarfi að bíða eftir næstu myllumerkjabyltingu.
 
Bestu kveðjur,
Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: