Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

VIÐFANGSEFNI VIKUNNAR: PASSAÐU ÞIG!

Ég hef líklega heyrt þessi orð oftar en „gangi þér vel“, „góða skemmtun“, hvað þá „láttu vaða“. Varkárni er ein grunnstoð kvenleikans og við tökum öll þátt í viðhalda henni með beinum og óbeinum skilaboðum um að stelpur og konur eigi stöðugt að passa sig.


Stelpur eiga að passa sig að vera hreinar og huggulegar til fara, passa sig á perrum og ofbeldiskörlum og bílum. Unglingsstelpur eiga að passa sig sem kynverur, passa útlit og framkomu og styggja hvorki mann né annan. Fullorðnar eiga að passa að vera vel til hafðar, passa að brosa, passa línurnar, passa börnin, passa að halda öllum boltunum á lofti og passa sig að vera ekki fúllyndar og tuðandi.


Þessi krafa um varkárni er ekki bara til að uppfylla staðalmynd. Konur verða einfaldlega að kunna að passa sig á því jarðsprengjusvæði sem líf þeirra er. Annars mega þær gera ráð fyrir druslu- og þolendaskömmun af því þær voru of drukknar, fáklæddar, sætar, seint, snemma of þetta eða of hitt. Ef þær passa sig ekki á ofbeldinu sem virðist fremja sig sjálft.

HVERSDAGSLEGUR VERULEIKI KVENNA

Í vikunni var þekktur fjölmiðlamaður kærður fyrir ofbeldi. Konurnar sem kærðu greindu ekki frá nafni hans opinberlega, heldur greip hann sjálfur til varna á opinberum vettvangi og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Konurnar eru sakaðar um mannorðsmorð og aftöku og frasinn um sakleysi uns sekt sé sönnuð bergmálar um internetið. Karlar semja ljóð til hins kærða og pósta myndum af sér grátandi yfir örlögum hans.


Í kjölfarið hófst enn ein #metoo bylgjan á Twitter, líklega sú öflugasta fram til þessa, þar sem konur lýsa hversdagslegum veruleika sínum. Hræðilegri reynslu af ofbeldi. Á Twitter eru viðtökurnar öðruvísi. Lesendur lýsa yfir stuðningi, segjast trúa og eru miður sín yfir algengi og alvarleika ofbeldisins.

HANNÚÐ OG SKRÍMSLAVÆÐING SEM ÞÖGGUNARTÓL

Þessi ólíku viðbrögð skýrast fyrst og fremst af því hvort ofbeldið framdi sig sjálft eða ekki. Fjölmiðlamaðurinn er með nafn og andlit sem við þekkjum og fólki líkar almennt vel við. Málið kallar fram það sem Kate Manne hefur skilgreint sem hannúð (e. himpathy); óviðeigandi og ýkt samúð með valdamiklum körlum þegar kemur að kynbundnu ofbeldi og óviðeigandi hegðun gagnvart konum.


Samfélagið er nefnilega tilbúið að standa með konum sem verða fyrir ofbeldi án gerenda. Það er jafnvel til í að standa með konum sem verða fyrir ofbeldi af hálfu ljótra og grimmra síglæpamanna eða útlendinga. En um leið og meintur gerandi er bara venjulegur maður, að ekki sé talað um frægur eða sætur eða góður eða vinur eða blóðtengdur okkur, þá skiptir mannorð hans og æra meira máli. Jafnvel meira en mannorð og æra meints þolanda. Þessi skrímslavæðing gerir þolendum ómögulegt að segja frá.


Að baki hverrar einustu sögu á Twitter eru gerendur. En konur geta ekki nafngreint þá. Af því þær þurfa ekki bara að passa sig á að verða ekki fyrir ofbeldi, þær þurfa líka að passa sig eftir að hafa orðið fyrir ofbeldi. Passa mannorð gerandans.


BREYTUM ÞESSU!

Við verðum öll að taka þátt í að breyta þessu. Við verðum að skilja að gerendur eru í okkar nánasta umhverfi. Og hversu næs eða valdamiklir sem þeir kunna að vera, þá verða þeir að axla ábyrgð. Af því ofbeldi fremst ekki af sjálfu sér.


Að lokum sendi ég alla mína strauma til þeirra sem hafa lagt baráttunni lið undanfarna daga. Ykkar framlag er ómetanlegt. Farið vel með ykkur og reynið að njóta helgarinnar, þrátt fyrir allt.


Bestu kveðjur,

Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: