FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA
Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
HUGLEIÐING VIKUNNAR: REIÐI
Nú þegar allir fimm útvarpsþættirnir um femínískan aktívisma eru komnir í loftið er ég soldið montin en umfram allt þakklát konunum sem þar sögðu frá. Þó þættirnir hafi fjallað um ólíkar hliðar femínísks aktívisma voru ákveðin þemu gegnumgangandi í þeim öllum. Eitt þeirra var reiði. Allt það sem þessar konur gerðu spratt upp úr reiði yfir óréttlæti heimsins.
HVAÐAN KEMUR REIÐIN?
Ég veit að það er stutt síðan ég skrifaði síðast um reiði. Þá fjallaði ég um hvernig tónögun (e. tone policing) forréttindafólks gagnvart jaðarsettu fólki er notuð til að verjast gagnrýni, draga úr trúverðugleika jaðarsetts fólks og gera lítið úr tilfinningum sem drifkrafti í samfélaginu. Ég endaði þá hugleiðingu á að reiði gæti vissulega verið eyðileggjandi afl hjá forréttindakörlum sem óttuðust ekkert meira en að missa spón úr sínum yfirfulla aski, en hún væri eðlileg og skiljanleg tilfinning gagnvart mismunun, kúgun og ofbeldi sem konur, kvár og jaðarsett fólk verður fyrir. Í slíkum tilfellum gæti hún verið mikilvæg, drífandi og uppbyggileg.
REIÐU FEMÍNISTARNIR
Í útvarpsþáttunum sagðist Sema Erla Serdaroglu óttast hvað yrði um hana ef hún myndi hætta að reiðast yfir óréttlæti heimsins. Guðrún Jónsdóttir sagði að skemmtilegustu og áhrifaríkustu aðgerðir Stígamóta hefðu spruttið upp úr reiði og Freyja Haraldsdóttir lýsti áhyggjum af fólki sem verður ekki reitt yfir óréttlætinu sem það er beitt.
Þessar lýsingar eru líklegar til að næra staðalmyndina um reiða femínistann sem hatar karla. Alla vega í huga karlanna úr fyrri hugleiðingu sem hafa takmarkaða (eða enga) reynslu af kerfisbundinni mismunun valdakerfisins. En fyrir þau sem vilja skilja er ljóst að þessi reiði hefur ekkert með hatur að gera. Hún beinist ekki gegn einstaklingum, heldur er hún þvert á móti líkleg til að hafa jákvæð áhrif á einstaklinga. Líka einstaklingana sem fólk heldur að femínístar hati.
HVERT BEINIST REIÐIN?
Sú reiði sem lagði grunn að femínískum aðgerðum og hefur í raun verið drifkrafturinn að öllum framförum í þágu mannréttinda í heiminum hefur snúist um að breyta kerfum, reglum, lögum, ferlum, viðmiðum og hugarfari. Þessar aðgerðir vöktu fólk til umhugsunar um óréttæti heimsins, þær valdelfdu fólk til að krefjast breytinga og sannfærðu valdhafa um að breyta. Aðgerðirnar sem sagt var frá í þáttunum voru uppbyggilegar, skemmtilegar og gagnlegar fyrir okkur öll.
Að því sögðu, þá getur reiði að sjálfsögðu verið eyðileggjandi. Það kom skýrt fram þegar viðmælendur þáttanna lýstu hatrinu, hótununum og ofbeldinu sem þær höfðu orðið fyrir bæði í net- og raunheimum. Þessi eyðileggjandi reiði er mögnuð upp með tortryggni og andúð öfgahægrisins í garð kvenna, innflytjenda, fatlaðs fólks, flóttafólks, hinsegin fólks og annarra sem ekki falla að þeirra þröngu hagsmunum. Hún er ekki bara hættuleg fyrir einstaklingana sem fyrir þessu verða heldur eykur hún misskiptingu og hefur sundrandi áhrif á samfélagið.
HVAÐ ER TIL RÁÐA?
Ég skil að andúð öfgahægrisins höfði til fólks sem finnst það ekki fá sanngjarna meðhöndlun í samfélaginu. Það er auðvelt að segja atvinnulausum karli að útlendingarnir hafi tekið störfin hans, það er auðvelt að misnota tölfræði til að fullyrða að flóttafólk sé upp til hópa glæpahyski og það er auðveldara að segja fólki að vera á móti kynjafjölbreytileika heldur en að útskýra þann flókna veruleika. Fyrst og fremst gagnast það nú samt öfgahægrinu að beina andúðinni að þessu jaðarfólki, enda sætir hin kerfisbundna misskipting sem þjónar forréttindakörlunum ekki gagnrýni á meðan.
Í heimi misskiptingar, útilokunar og ofbeldis er reiði eðlileg og sjálfsögð og það er allt í lagi að vera reið yfir uppgangi öfgahægris. Nýtum kraftinn í þessari reiði, finnum henni uppbyggilegan farveg og stöndum með samfélagi samkenndar, inngildingar og öryggis. Í þágu okkar allra.
Bestu kveðjur,
Sóley
Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki



