FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


HUGTAK VIKUNNAR: VOPNAVÆDD VANHÆFNI

Þegar talað er um ójafna verkaskiptingu í gagnkynja samböndum er viðkvæðið gjarnan að a) konur þurfi bara að vera duglegri (KÞBAVD) að sleppa og b) að þær þurfi að slá aðeins af kröfunum. Ég veit ekki hversu oft ég hef rætt við vel meinandi fólk sem trúir því í einlægni að það sé á ábyrgð kvenna að karlar axli ábyrgð.


ÁBYRGÐ OG HÆFNI


Þetta viðkvæði á bara við um skiptingu heimilisstarfa í gagnkynja samböndum. Það á sannarlega ekki við um vinnumarkaðinn. Það er enginn sem segir körlum að sleppa boltum þar fyrir konur að grípa og það er enginn sem lætur sér detta í hug að veita konum afslátt af menntun, hæfni eða vinnuhörku þar. 


Af hverju er það þá sett á herðar kvenna í gagnkynja samböndum að velja á milli þess að vinna heimilisstörf sjálfar eða sætta sig við að þau séu illa unnin? -Af hverju hafa karlar í gagnkynja samböndum ekki sama metnað fyrir heimilisstörfum og konur hafa á vinnumarkaði? -Og síðast en ekki síst: Hvaða hagsmuni hafa þeir af vanhæfninni?

 

VOPNAVÆDD VANHÆFNI


Þó hugtak vikunnar sé áratugagamalt en hefur það lítið verið notað á Íslandi fram til þessa. Vopnavædd vanhæfni (e. weaponized incompetence) lýsir tilhneigingu fólks til að ýkja vanhæfni sína á verkefnum sem það hefur ekki áhuga á að sinna. Hún getur átt við í margskonar samhengi og ekki alltaf kynjuðu, þó hún sé rammkynjuð þegar kemur að ójafnri ábyrgð fólks í gagnkynja hjónaböndum á heimilisábyrgð. 


Vel þekkt dæmi um vopnavædda vanhæfni karla í heimilisstörfum er að skemma flíkur í þvotti eða kaupa vitlausar vörur í búðinni sem veldur meira veseni en ef konan hefði gert það sjálf. Önnur dæmi, s.s. að þrífa illa eða klæða börnin í ósamstæð/slitin/of lítil föt væri hægt að leiða hjá sér, ef ekki væri fyrir almenningsálitið sem hefur tilhneigingu til að dæma konur umfram karla fyrir illa þrifin heimili og illa klædd börn, sama hvar ábyrgðin á því liggur.


Fyrirbærið virkar því eins og svikamylla þar sem konan hefur val um að gera hlutina sjálf eða taka afleiðingum þess að þeir séu illa gerðir. Og: Einhnvern veginn endar það alltaf með að vera konunni að kenna.

 

AFVOPNUN


Eins og ég hef sagt örugglega hundrað sinnum áður, þá eru hugtök eitt af sterkustu verkfærum mannréttindabaráttu. Hugtökin frelsa okkur frá því að telja okkur sjálf bera ábyrgð á óviðeigandi hegðun, útilokun eða misrétti sem við verðum fyrir. Nú þegar við þekkjum vopnavædda vanhæfni er hægt að beita sér gegn henni. Það getum við gert með tvennum hætti:


  1. Hættum að segja konum að vera duglegri. Þær þurfa ekki að vera duglegri að sleppa og þær þurfa ekki að vera duglegri að umbera.
  2. Gerum ekki minni, heldur meiri kröfur til karla. Valið á ekki að standa á milli þess að gera hlutina sjálf eða sætta sig við afleiðingar þess að makinn geri hlutina illa.


Kæru karlar í gagnkynja samböndum (sem eru af einhverjum ástæðum sárafáir á þessum póstlista). Lítið nú innávið og skoðið hvort þið getið mögulega sýnt meira frumkvæði, vandað ykkur betur, lært að flokka og þvo og gera og græja hluti sem konur ykkar hafa séð um fram til þessa. Ég er nokkuð viss um að þar leynast tækifæri til bætingar.


Bestu kveðjur,

Sóley



Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 14. nóvember 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: REIÐI
Eftir soleytomasdottir 7. nóvember 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: ÞAU VILDU VEL...
Eftir soleytomasdottir 30. október 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: ANDÚÐ OG UPPHAFNING
ELDRI FÆRSLUR