Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

SLAGORÐ VIKUNNAR: DO IT JUST.

Ég biðst afsökunar á að hafa vanrækt skrif undanfarnar tvær vikur. Ég hef verið að sinna stórum verkefnum sem einmitt lentu á föstudögum og er ekki nógu öguð til að eiga efni á lager eða skrifa fram í tímann.
 
Í dag ætla ég að fjalla um nýtt slagorð Just Consulting. Ég var búin að vera að vesenast með allskonar lýsandi og óþjál slagorð, eitthvað á borð við „sérfræðiráðgjöf á sviði jafnréttis- og fjölbreytileikamála“ þegar Kalli vinur minn stakk upp á „Do it just.“
 
Do it just er vissulega hnyttin og skemmtileg tilvísun og ég veit að það er glatað að útskýra brandara. En slagorðið er ekki bara brandari og ég stæði varla undir nafni sem femínisti ef ég léti duga að vera hnyttin og skemmtileg.

JUST DO IT.

Slagorð Nike er gott og á oft vel við. Við höfum örugglega öll notað alls konar lélegar afsakanir fyrir að sleppa æfingu, vitandi að best væri að taka sig taki og hendast af stað. Það sama á við um jafnréttis- og fjölbreytileikamál. Það er svo margt annað aðkallandi að við eigum það til að fresta veseni á borð við kynjablöndun, aðgengi eða þýðingar á mörg tungumál.
 
Slagorð Nike gæti því vel átt við í þessum efnum. Jafnrétti er vissulega ákvörðun eins og fjallað var um á Jafnvægisvog FKA í vikunni. Við getum tekið okkur taki og drifið fullt af verkefnum af stað. En það þarf meira til.

DO IT.

Jafnlaunavottun, kynjakvótar og aðgerðaráætlanir gegn ofbeldi eru tiltölulega einföld, mikilvæg og góð tæki sem geta gert gagn. En þau gera ekki alltaf gagn.
 
Við getum búið til jafnlaunavottun sem réttlætir kynbundið gildismat, enda margar skýribreytur tiltækar sem fela karllæga nálgun á verðmæti starfa. Við þurfum að kafa djúpt og vera tilbúin að rýna og rökræða réttmæti allra skýribreyta.
 
Við getum líka uppfyllt kynjakvóta en samt þannig að konurnar sem taki sæti fylgi leikreglum karllægrar menningar. Við þurfum að leita út fyrir nánasta trúnaðarhóp, finna fjölbreytt fólk í áhrifastöður og vera opin fyrir gagnrýni og breytingatillögum sem fylgja í kjölfarið.
 
Að lokum getum við útbúið misgóðar aðgerðaráætlanir gegn ofbeldi fylgt þeim misvel eftir. Við þurfum að vera alveg viss um að viðbrögð við einelti, áreitni og ofbeldi séu fagleg og fumlaus frá upphafi til enda.

DO IT JUST.

Jafnrétti snýst um að koma til móts við þarfir, vilja og aðstæður fjölbreytts hóps fólks af öllum kynjum. Það getur verið bölvað vesen og krafist mjög mikillar vinnu.
 
Við getum ekki bara hent inn tækjunum sem bregðast við þekktum birtingarmyndum misréttis. Við þurfum að vanda okkur við það. Og á sama tíma þurfum við að taka á undirliggjandi þáttum til að koma í veg fyrir að birtingarmyndirnar komi fram.
 
Ef við gerum hluti umhugsunarlaust mun ómeðvituð hlutdrægni okkar hafa áhrif á vinnuna. Við þurfum að vera á tánum gagnvart henni í öllum ákvörðunum, vera opin fyrir gagnrýni á allt sem við gerum og viljug til að breyta og bæta. Við þurfum að rýna vinnustaðarmenninguna; samskiptin, verðmætamatið, verkaskiptinguna og valddreifinguna, ekki einu sinni, heldur stöðugt.
 
Gerum þetta allt – en gerum það vel.

Bestu kveðjur,

Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: