Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

VIÐFANGSEFNI VIKUNNAR: ÓSKRÁÐAR REGLUR OG ÁHRIF ÞEIRRA

Reglur skipa stóran sess í lífi okkar allra, enda byggja öll okkar samskipti á skráðum og óskráðum reglum. Við eigum stjórnarskrá, lög, reglurgerðir, sáttmála og stefnur sem leggja grunn að samfélagsgerðinni okkar. Hvert og eitt okkar hefur auk þess undirgengist alls konar samninga, s.s. hjúskaparsáttmála, ráðningar-, kaup-, leigu- og lánasamninga sem við skuldbindum okkur til að uppfylla. Í vinnunni lútum við svo allskonar verklagsreglum og á flestum heimilum eru einhverjar reglur sem varða verkaskiptingu, skipulag, matartíma, skjátíma og háttatíma. Þessar reglur eru settar til að einfalda líf okkar, en líka til tryggja sanngirni, gagnsæi og jafnrétti.


Svo eru það óskilgreindu reglurnar. Reglurnar um hverjum við bjóðum í veislur, hvernig við högum samskiptum við fjarskylda ættingja, hvenær við megum nota gælunöfn fólks, hvort við segjum halló eða hæ og allt hitt sem við fylgjum án þess að átta okkur á að þetta séu yfir höfuð reglur. Flestar þessara reglna eru líka til þess að einfalda líf okkar, tryggja sanngirni, gagnsæi og jafnrétti – en því miður virka þær stundum þveröfugt.


Ómeðvituð hlutdrægni okkar hefur nefnilega áhrif á alla okkar hegðun og hún stýrir okkur í að fylgja óskráðum reglum sem við höfum ekki hugmynd um. Ég hef áður fjallað um margar þessara reglna, þó ég skilgreini þær sem tilhneigingu:


  1. Við höfum tilhneigingu til að taka forréttindum okkar sem sjálfsögðum og taka þátt í ósanngirni í garð samstarfsfólks okkar stað þess að bregðast við eða brjóta upp hið viðtekna eins og Charles Michel gerði í Tyrklandi.
  2. Við höfum tilhneigingu til að ofmeta eigin þekkingu á stöðu jaðarsetts fólks og lausnum eins og stofnendur Pinkigloves.
  3. Við höfum tilhneigingu til að standa dyggari vörð um mannorð og æru gerenda en þolanda í ofbeldismálum.
  4. Við samþykkjum hið viðtekna umyrðalaust, en setjum fyrirvara við frávik eins og ég kom inn á í þessum pistli.
  5. Við tökum því sem sjálfsögðum hlut að konur vinni ósýnilega og óskilgreinda erfiðisvinnu á borð við skipulag og umsjón hvers kyns uppákoma í fjölskyldum og á vinnustöðum.


Við þetta má svo bæta að við brosum frekar til fólks sem okkur þykir fallegt, við tökum frekar í hendina á fólki sem við berum virðingu fyrir, við hlustum betur á skoðanir og hugmyndir karla í jakkafötum en annars fólks, við eigum það til að dæma feitt fólk sem gráðugt, latt og stjórnlaust, við höfum frekar varann á okkur þegar við mætum svörtum karli en hvítum og margt margt fleira.


Dæmin hér að ofan eru brotabrot af því sem hefur áhrif á stöðu og tækifæri fólks í heiminum, skapar forréttindi fyrir sum og hindranir fyrir önnur. Þeim mun meðvitaðari sem við erum um þessar reglur – og þeim mun djarfari sem við erum í að horfast í augu við þær – þeim mun líklegra er að við getum bætt eigin hegðun og spornað gegn misrétti.


Til þess þurfum við að æfa okkur soldið, hlusta, læra og vera tilbúin að breyta. Það er vesen, en algerlega þess virði og nauðsynleg viðbót við formlegu reglurnar ef við viljum að þær virki í þágu sanngirni, gagnsæi og jafnréttis.


Bestu kveðjur úr hitabylgjunni á meginlandinu,


Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: