Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

DÆMISAGA VIKUNNAR: HJÓLABRETTAMENNINGIN Í NIJMEGEN

„Mamma! Það er viðtal við einhverjar stelpur í blaðinu sem segja að það séu bara karlrembur og rasistar á hjólabrettum!“ sagði 19 ára sonur minn við mig í vikunni, algerlega miður sín. Hann er innmúraður í hjólabrettaklíkuna hérna í Nijmegen. Svo bætti hann við: „Ég skil ekki af hverju þær eru að segja þetta í fjölmiðlum, ég hef aldrei séð þær, svo þær hafa greinilega ekki reynt að nálgast okkur. Við erum í alvöru mjög meðvitaðir og allir sammála um að hjólabrettamenningin eigi að vera fordómalaus og opin fyrir öllu fólki. Hvernig geta þær bara fullyrt svona? Hvað á ég að gera?“


Í kjölfarið áttum við gott spjall. Lásum greinina, fórum yfir það sem stelpurnar voru að segja, hans fyrstu viðbrögð og svo hvernig hægt væri að vinna úr þeim.

kerfislægur vandi

Í greininni segja stelpurnar ekkert um karlrembur og rasista. Þær benda aftur á móti á þá staðreynd að íþróttin er að uppstöðu til iðkuð af hópum hvítra gagnkynhneigðra stráka. Það eitt gerir hjólabrettasvæðin fráhrindandi fyrir stelpur. Það er hægara sagt en gert fyrir stelpu að byrja á hjólabretti fyrir framan samheldinn hóp af reynslumiklum gaurum. Gagnrýni stelpnanna er á kerfislægan vanda, ekki persónulegan. Þess vegna hafa þær stofnað félagsskap fyrir stelpur og kynsegin fólk sem býður upp á öruggt umhverfi til að feta sín fyrstu skref á hjólabretti.

viðbrögð

Í upphafi hélt Tommi að það væri nóg að senda stelpunum skilaboð um að auðvitað væru þær velkomnar, þær þyrftu bara að mæta. Útskýra að þeir væru opnir og meðvitaðir og langaði mjög að fá fjölbreyttara fólk á hjólabretti. Það er svo sem ágætt, en ekki nóg. Strákarnir þurfa að skapa meira aðlaðandi stemningu. Til að geta gert það þurfa þeir að hlusta, læra, skilja og breyta því stelpurnar upplifa sem fráhrindandi. Það gerir enginn einn, heldur er það átak sem hópurinn þarf að fara í saman.

lærdómur

Þessi saga er dæmigerð fyrir femíníska gagnrýni og viðbrögð við henni. Fyrstu viðbrögð einkennast undantekningarlítið af vörn.


  1. Gagnrýnin er mjög oft oftúlkuð, ekki síst í smellubrellum fjölmiðla, rétt eins og Tommi oftúlkaði kerfislæga gagnrýni sem fullyrðingu um karlrembu og rasisma.
  2. Gagnrýnin er mjög oft dregin í efa, rétt eins og Tommi gerði í fyrstu, fullviss um að þeir væru opnir og fordómalausir í anda vel þekktrar #notallmen röksemdafærslu.
  3. Að lokum snúast viðbrögðin oft um að konur þurfi einfaldlega að vera duglegri, rétt eins og Tomma fannst skrítið að stelpurnar gagnrýndu án þess að hafa mætt og reynt að taka þátt.


Á endanum sagði Tommi stelpunum að hann vildi gjarnan reyna að skilja upplifun þeirra. Að þeir þyrftu greinilega að endurskoða óskráðar reglur á hjólabrettasvæðum borgarinnar, en gætu ekki gert það nema með aðstoð stelpnanna sem vissu hverju þyrfti að breyta og hvernig. Vonandi mun það leiða til góðs.


Við getum öll reynt að takmarka okkar sjálfvirku varnarviðbrögð þegar við sætum gagnrýni jaðarsettra eða undirskipaðra hópa. Til þess er gott að þekkja þessi einkenni hér að ofan, taka sjálf okkur út úr jöfnunni og reyna eftir fremsta megni að setja okkur í spor þeirra sem setja gagnrýnina fram.

 

Bestu kveðjur og góða helgi!


Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: