Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

HUGLEIÐING VIKUNNAR: KERFISLÆGUR RASISMI

Í vikunni birtist viðtal við hjón sem hefur verið gert að sanna eðli hjónabands síns fyrir íslenskum yfirvöldum. Hún er íslensk og hann er georgískur og ætti því að fá dvalarleyfi vegna hjúskaparstöðu. Útlendingastofnun telur hjónabandið hins vegar vera málamyndagjörning og krefur hjónin um að sýna fram á annað.



REGLURNAR OKKAR

Samkvæmt hjúskaparlögum eru hjónavígsluskilyrði eftirfarandi:


  1. Bæði skulu hafa náð 18 ára aldri.
  2. Bæði skulu vera lögráða.
  3. Hvorki er um skyldmenni í beinan legg að ræða, né systkin.
  4. Ekki er um kjörforeldri og kjörbarn að ræða.
  5. Hvorugt er þegar í hjúskap.
  6. Opinber skipti eru hafin eða einkaskiptum lokið, hafi annað/bæði verið í hjúskap.


Í lögunum er ekki fjallað um rómantík, ást, kynlíf, nánd, samskipti, áhugamál, myndatökur eða samfélagsmiðlanotkun. Enda giftir fólk sig af allskonar ástæðum. Oftar en ekki praktískum, s.s. vegna skattahagræðis, líftrygginga, forræðis- eða erfðamála. Það má. Fólk sem giftir sig, og uppfyllir skilyrði A-F, á að geta notið allra þeirra réttinda og fríðinda sem hjúskapur hefur í för með sér. Eða flest okkar.



SAKLAUS UNS SEKT ER SÖNNUÐ?

Við höfum verið dugleg að skapa og viðhalda ímynd Íslands sem víðsýns og réttláts samfélags, bæði meðal okkar sjálfra og út á við. Við viljum trúa því að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar sé í gildi og að ekkert okkar mismuni af ásetningi. En raunin er önnur.

Til viðbótar við almennu lögin erum við nefnilega með allskonar sérlög. Til dæmis um útlendinga. Í þeim er allt í einu kveðið á um eitthvað sem kallast málamyndagerningur, fyrirbæri sem hvergi er minnst á í hjúskaparlögum og byggir ekki á neinum þeirra skilyrða sem þar koma fram. Ef rökstuddur grunur er til staðar um að fólk sé að gifta sig til að tryggja dvalarleyfi mega yfirvöld krefjast sannana á allskonar óræðum hlutum sem hvergi er kveðið á um í hjúskaparlögum og byggja niðurstöðu sína á eigin geðþótta.



SUM ERU JAFNARI EN ÖNNUR

Sumsé. Fólk sem er fætt innan Schengen þarf eingöngu að uppfylla mjög skýr og skilmerkileg lágmarksskilyrði fyrir hjónavígslu af því við viljum ekki að yfirvöld séu að vasast í einkahögum fólks. Fólk utan Schengen má aftur á móti bara gifta sig ef Útlendingastofnun leggur blessun sína yfir rómantík í sambandinu. Okkur finnast íslenskar hagkvæmniástæður skiljanlegar og jafnvel skynsamlegar. En hagkvæmniástæðan dvalarleyfi er skilgreind sem glæpur.

Fólk sem fætt er innan Schengen býr við grundvallarregluna um sakleysi uns sekt sé sönnuð af því við viljum ekki að yfirvöld geti sakfellt saklaust fólk. Meðferð kynferðisbrota í réttarkerfinu sýnir styrk og seiglu þeirrar reglu svo ekki verður um villst. Í lögum um útlendinga er fólk aftur á móti sekt uns sakleysi er sannað. Þá er nóg að um rökstuddan grun sé að ræða og fólki er gert að sýna fram á annað „með óyggjandi hætti“.



LAUMURASISMI?

Þetta mál er fyrirtaks dæmi um það hvernig ómeðvituð hlutdrægni smeygir sér inn í regluverkið af því við áttum okkur ekki á innbyggðri tortryggni okkar gagnvart fólki af erlendum uppruna. Ef við erum ekki meðvituð um þetta, ef við hlustum ekki þegar okkur er bent á þetta og ef við leiðréttum okkur ekki þegar við gerum mistök, þá hættir rasisminn að vera laumu og verður alvöru.


Bestu kveðjur,


Sóley


Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: